Almennur vinnumarkaður
Á hinum almenna vinnumarkaði eru ekki í gildi almennar reglur vegna ákvarðanatöku um ráðningu í starf og atvinnurekandi stjórnar því hvaða menn hann ræður til vinnu. Almennt verða atvinnurekendur þó að halda í heiðri bann 65. gr.stjórnarskrárinnar við mismunun en þar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Þá eru ítarleg ákvæði í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008 en óheimilt er að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Óheimilt er að auglýsa laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyni fremur en hinu nema tilgangur auglýsandans sé að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og gild rök mæla með. Þá kunna ákvæði kjarasamninga að mæla fyrir um forgangsrétt félagsmanna þess stéttarfélags sem kjarasamning gerir vegna þeirra starfa sem bjóðast.
Heimilt er að ráða menn til starfa tímabundið eða ótímabundið en í lögum nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna eru þó settar fram takmarkanir á tímabundnum ráðningum starfsmanna. Lögin gilda bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Þannig segir í lögunum að óheimilt sé að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum og skal atvinnurekandi ávallt leitast við að ráða starfsmann ótímabundið.
Á almennum vinnumarkaði er heimilt að ráða starfsfólk í hlutastörf. Starfsmaður telst vera í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku eða að meðaltali miðað við heilt ár er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi. Starfsmenn í hlutastörfum skulu ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeim ástæðum einum að þeir eru ekki í fullu starfi. Um starfsmenn í hlutastörfum fer eftir samningi ASÍ og SA um hlutastörf og eftir því sem við á í lögum nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum.
Opinber vinnumarkaður
Almenn ákvæði laga um bann við mismunun, líkt og fram kemur í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og í lögum nr. 10/2008 um jafna rétt og jafna stöðu kvenna og karla gilda á hinum opinbera vinnumarkaði líkt og hinum almenna. Þá kann í lögum og kjarasamningum ákveðnum starfsstéttum verið tryggður forgangsréttur til starfa.
Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er vikið að almennum skilyrðum þess að fá skipun eða ráðningu í starf hjá ríkinu. Þau skilyrði eru átján ára aldur, lögræði, nauðsynlegt heilbrigði, íslenskur ríkisborgararéttur með undantekningum þó, almenn menntun og sérmenntun sem eðli máls samkvæmt þörf er á og fjárforræði ef starfi fylgja fjárreiður. Þá kemur fram í lögunum að hafi umsækjandi hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, sbr. 68. gr. almennra hegningarlaga teljist hann ekki fullnægja starfsskilyrðum.
Laus störf skulu samkvæmt 7. gr. starfsmannalaganna auglýst opinberlega og er skylt sé þess óskað að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.
Þá er það meginregla skv. lögum nr. 70/1996 að starfsmenn ríkisins skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, nema um annað sé samið í kjarasamningi. Heimild er þó veitt til að ráða starfsmenn til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara lengur en í tvö ár.
Í kjarasamningum eða samþykktum sveitarfélaga kann að vera vikið að skyldu stofnana og fyrirtækja til að auglýsa laus störf. Í kjarasamningi Reykjavíkurborgar við Starfsmannafélag Reykjavíkur (2009) kemur fram að það sé skylda stofnana og fyrirtækja Reykjavíkurborgar að auglýsa öll laus störf. Starfsmenn Reykjavíkurborgar skulu almennt ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti og í reynslutíma sem er þrír mánuðir þó heimilt sé í undantekningartilvikum að semja um allt að 5 mánaða reynslutíma.
Lög nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum gilda um starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum. Í lögunum segir starfsmenn í hlutastörfum skulu ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeirri ástæðu einni að þeir eru ekki í fullu starfi, nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Samantekt
Á vinnumarkaði eru ekki í gildi almennar reglur um ráðningar í störf. Atvinnurekendum er því frjálst að ákveða hverjir ráðnir eru til starfa en þó þarf að fara eftir m.a. ákvæðum stjórnarskrár um bann við mismunun, laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og forgangsréttarákvæðum kjarasamninga.
Meginreglan er sú að ráða skal fólk til starfa ótímabundið en sé ráðning tímabundin en þó aldrei þannig að ráðning sé tímabundin lengur samfellt en tvö ár.
Í lögum og kjarasamningum er kveðið á um að starfsmenn í hlutastörfum skuli ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi.
Starfsmannalög gilda um ráðningu í störf hjá ríkinu og þar eru ákvæði um auglýsingu lausra starfa hjá ríkinu og stofnunum þess og fjallað um almenn skilyrði þess að fá ráðningu. Í kjarasamningum sveitarfélaga eru sambærileg ákvæði.