Í 16. gr. laga nr. 80/1938 er að finna ákvæði um tilkynningar á verkföllum. Þar segir að ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefja eigi í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, beri að tilkynna sáttasemjara og þeim sem hún beinist aðallega gegn 7 sólarhringum áður en ætlunin er að hún hefjist. Þessi lagagrein er óundanþæg, og verkfall dæmt ólögmætt sé þessara formskilyrða ekki gætt.
Form og efni tilkynningar
Í 16. gr. laga nr. 80/1938 er ekki fjallað um það hvort tilkynning um verkfallsboðun skuli vera skrifleg eða hvernig hún skuli vera úr garði gerð að öðru leyti. Þar sem mikið liggur við fyrir stéttarfélag að geta fært sönnur á að það hafi tilkynnt verkfallsboðun til réttra aðila innan tiltekins frests er tilkynning um verkfallsboðun alltaf höfð skrifleg.
Eðlilegt er að tilkynningin sé það skýrt orðuð að ekki fari á milli mála hvenær verkfall skuli hefjast eða hvernig það verði framkvæmt að öðru leyti. Sé tíminn ekki tekinn fram skoðast verkfall boðað frá miðnætti þann dag sem verkfall skal hefjast. Þessi regla var sett af Félagsdómi 9/1994 (X:220).
Í verkfallsboðun verða að koma fram öll þau atriði sem máli skipta, svo sem hvenær verkfall eigi að hefjast ( t.d. ekki nota miðnætti tiltekinn dag heldur 23:59 ef í lok dags eða sólarhrings og 00:01 ef í byrjun dags eða sólarhrings), með hvaða hætti framkvæma eigi verkfallið, hverjir séu verkfallsboðendur, hvernig ákvörðun um verkfallið hafi verið tekin, hver niðurstaða atkvæðagreiðslu hafi verið og gegn hverjum verkfallið beinist. Nái verkfall einungis til tiltekinna starfsmanna, vinnustaða eða verkefna er eðlilegt að gera grein fyrir slíku í verkfallsboðun. Sjá hér Félagsdóm 11/1994 (X:234). Þar var krafist ógildingar á verkfalli meðal annars þar sem verkfallsboðunin væri svo óskýr að ekki væri vitað hvaða aðilar ættu að fara í verkfall. Á þetta var ekki fallist.
Algengt er að verkfallsboðun sé tilkynnt með staðfestu símskeyti. Tryggast er þó að tilkynna verkfallsboðun með afhendingu á bréfi og fá kvittun fyrir móttöku á afrit bréfsins við afhendingu. Þetta er tiltölulega auðvelt að framkvæmda í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu, en erfiðara milli landshluta.
Tímafrestur (boðunarfrestur)
Ákvæði 16. gr. laga nr. 80/1938 eru óundanþæg og tæmandi talin. Þannig eru ákvæði um 7 sólarhringa tímafrestinn óundanþæg. Tilkynningin verður að hafa borist þeim, sem verkfallið beinist að með 7 sólarhringa fyrirvara. Þessi fyrirvari reiknast frá þeim tíma sem boðun vinnustöðvunar er komin í hendur þeim sem hún beinist að og sáttasemjara og til þess að verkfall kemur til framkvæmda.
Í Félagsdómi 9/1994 (X:220) var deilt um túlkun á 16. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar hafði FÍH boðað verkfall félagsmanna sinna í Þjóðleikhúsinu, sem hefjast skyldi 5. september 1994 og tímasetning ekki tilgreind. Tilkynning var móttekin 29. ágúst á milli kl. 15:00 og 16:00. Æfing hljóðfæraleikaranna skyldi hefjast kl. 19:30 um kvöldið, en tímasetning vinnustöðvunarinnar hafði ekki verið tekin fram í verkfallsboðun. Um það var deilt hvort boðunin hefði verið lögleg, þar sem innan við sjö sólarhringar voru frá því að verkfall var boðað og til upphafs þess dags er vinnustöðvun skyldi taka gildi, en meira en sjö sólarhringar þar til verkfallið skyldi koma til framkvæmda. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þegar upphafsdagur verkfalls sé tilgreindur í verkfallsboðun án þess að getið sé um klukkustund eða önnur nánari tímamörk, verði að líta svo á að verkfallið eigi að hefjast þegar viðkomandi almanaksdagur gengur í garð án tillits til þess hvenær daglegur vinnutími á að hefjast hjá þeim starfsmönnum sem í hlut eiga. Hefði í verkfallsboðuninni verið tekið fram að verkfall hæfist einhvern tíma eftir kl. 16:00 þann 5. september hefði verkfallsboðunin verið lögmæt.
Hverjum á að tilkynna boðun verkfalls?
Verkfallsboðun ber að tilkynna þeim, sem verkfall beinist aðallega gegn og sáttasemjara. Sé verkfallsboðun ekki tilkynnt sáttasemjara með 7 sólarhringa fyrirvara er verkfall ekki löglega boðað jafnvel þótt verkfallsboðunin hafi borist gagnaðila í tæka tíð. Orðið sáttasemjara ber að skilja í dag sem ríkissáttasemjara, en með lögum nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum var embætti ríkissáttasemjara sett á stofn.
Í Félagsdómi 4/1962 (V:61) voru málavextir þeir að stéttarfélag boðaði verkfall og hélt því fram að bréf hefði verið afhent á skrifstofu sáttasemjara um hádegi á laugardegi, en sáttasemjari vottaði að bréf þetta hafi ekki verið komið til hans er hann fór af skrifstofu sinni á hádegi þennan sama dag, en legið á borði hans er hann kom til vinnu á þriðjudagsmorgni. Félag atvinnurekenda krafðist ógildingar á boðuðu verkfalli. Stéttarfélagið hélt því meðal annars fram að sáttasemjari gæti einn átt sakaraðild að málinu og ekki skipti máli þótt sáttasemjara væri ekki tilkynnt verkfallsboðun með 7 sólarhringa fyrirvara, þar sem hann hefði fengið tilkynningu um verkfallið áður en það hófst. Dómurinn dæmdi verkfallið ólögmætt og sagði að skýra yrði fortakslaust ákvæði 16. gr. laga nr. 80/1938 á þá lund að lögmæti verkfalls sé því skilyrði bundið að gætt sé af hálfu verkfallsboðanda þeirrar tilkynningarskyldu sem þar er boðin.
Auk ríkissáttasemjara ber að tilkynna verkfallsboðun þeim sem hún beinist aðallega gegn. Sé það ekki gert er verkfallsboðun ólögleg. Sjá hér Félagsdóm 10/1984 (IX:58), en þar hafði BSRB ekki tilkynnt verkfallsboðun Sveitarstjóra Borgarneshrepps vegna verkfalls bæjarstarfsmanna og var verkfallið dæmt ólögmætt.
Löglega boðað verkfall tekur sjálfkrafa til allra þeirra sem eru félagsaðilar þeirra samtaka sem tilkynnt er um verkfallið til. Þarf því ekki að tilkynna einstökum atvinnurekendum um verkfall séu þeir félagsmenn í samtökum vinnuveitenda, sem verkfall er tilkynnt til.
Talið er að nægilegt sé að tilkynna verkfall þeim atvinnurekendum, sem áður voru bundnir stéttarfélaginu með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla og byggist þetta á þeim félagsdómum sem fallið hafa.
Það hefur stundum valdið ágreiningi hvort vinnustöðvun hefur verið boðuð réttum aðila og hefur ákvæðið verið skilið svo að beina ætti verkfallsboðun að þeim atvinnurekendum, félögum atvinnurekenda eða atvinnurekendasamböndum sem áður voru bundnir stéttarfélagi með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla.
Í Félagsdómi 10/1952 (III:213) var deilt um þetta atriði. Málavextir voru þeir að Dagsbrún boðaði almennt verkfall sem einnig náði til Áburðarverksmiðju ríkisins. Tilraunir höfðu verið gerðar til að koma á sérstökum samningi við verksmiðjuna en þær ekki tekist. Verkfallið var boðað öllum þeim aðilum sem áður voru bundnir samningi við Dagsbrún, auk þess sem það var tilkynnt í útvarpi með sólarhrings fyrirvara. Hins vegar var Áburðarverksmiðjunni ekki tilkynnt um það sérstaklega. Var það í samræmi við þá venju Dagsbrúnar að tilkynna verkfall þeim einum sem kjarasamningar höfðu áður verið gerðir við. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með orðalagi 16. gr. að tilkynna beri þeim sem vinnustöðvun „beinist aðallega gegn“ hafi ekki verið tilætlun löggjafans að stéttarfélögum væri undantekningarlaust skylt að boða öllum þeim atvinnurekendum, sem verkfall getur bitnað á, vinnustöðvun með þeim hætti sem boðið er í greininni. Var niðurstaða málsins því sú að verkfallið var löglega boðað þótt Áburðarverksmiðjunni hafi ekki verið um það tilkynnt sérstaklega.
3 Hverjum á að tilkynna boðun verkfalls?
Verkfallsboðun ber að tilkynna þeim, sem verkfall beinist aðallega gegn og sáttasemjara. Sé verkfallsboðun ekki tilkynnt sáttasemjara með 7 sólarhringa fyrirvara er verkfall ekki löglega boðað jafnvel þótt verkfallsboðunin hafi borist gagnaðila í tæka tíð. Orðið sáttasemjara ber að skilja í dag sem ríkissáttasemjara, en með lögum nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum var embætti ríkissáttasemjara sett á stofn.
Í Félagsdómi 4/1962 (V:61) voru málavextir þeir að stéttarfélag boðaði verkfall og hélt því fram að bréf hefði verið afhent á skrifstofu sáttasemjara um hádegi á laugardegi, en sáttasemjari vottaði að bréf þetta hafi ekki verið komið til hans er hann fór af skrifstofu sinni á hádegi þennan sama dag, en legið á borði hans er hann kom til vinnu á þriðjudagsmorgni. Félag atvinnurekenda krafðist ógildingar á boðuðu verkfalli. Stéttarfélagið hélt því meðal annars fram að sáttasemjari gæti einn átt sakaraðild að málinu og ekki skipti máli þótt sáttasemjara væri ekki tilkynnt verkfallsboðun með 7 sólarhringa fyrirvara, þar sem hann hefði fengið tilkynningu um verkfallið áður en það hófst. Dómurinn dæmdi verkfallið ólögmætt og sagði að skýra yrði fortakslaust ákvæði 16. gr. laga nr. 80/1938 á þá lund að lögmæti verkfalls sé því skilyrði bundið að gætt sé af hálfu verkfallsboðanda þeirrar tilkynningarskyldu sem þar er boðin.
Auk ríkissáttasemjara ber að tilkynna verkfallsboðun þeim sem hún beinist aðallega gegn. Sé það ekki gert er verkfallsboðun ólögleg. Sjá hér Félagsdóm 10/1984 (IX:58), en þar hafði BSRB ekki tilkynnt verkfallsboðun Sveitarstjóra Borgarneshrepps vegna verkfalls bæjarstarfsmanna og var verkfallið dæmt ólögmætt.
Löglega boðað verkfall tekur sjálfkrafa til allra þeirra sem eru félagsaðilar þeirra samtaka sem tilkynnt er um verkfallið til. Þarf því ekki að tilkynna einstökum atvinnurekendum um verkfall séu þeir félagsmenn í samtökum vinnuveitenda, sem verkfall er tilkynnt til.
Talið er að nægilegt sé að tilkynna verkfall þeim atvinnurekendum, sem áður voru bundnir stéttarfélaginu með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla og byggist þetta á þeim félagsdómum sem fallið hafa.
Það hefur stundum valdið ágreiningi hvort vinnustöðvun hefur verið boðuð réttum aðila og hefur ákvæðið verið skilið svo að beina ætti verkfallsboðun að þeim atvinnurekendum, félögum atvinnurekenda eða atvinnurekendasamböndum sem áður voru bundnir stéttarfélagi með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla.
Í Félagsdómi 10/1952 (III:213) var deilt um þetta atriði. Málavextir voru þeir að Dagsbrún boðaði almennt verkfall sem einnig náði til Áburðarverksmiðju ríkisins. Tilraunir höfðu verið gerðar til að koma á sérstökum samningi við verksmiðjuna en þær ekki tekist. Verkfallið var boðað öllum þeim aðilum sem áður voru bundnir samningi við Dagsbrún, auk þess sem það var tilkynnt í útvarpi með sólarhrings fyrirvara. Hins vegar var Áburðarverksmiðjunni ekki tilkynnt um það sérstaklega. Var það í samræmi við þá venju Dagsbrúnar að tilkynna verkfall þeim einum sem kjarasamningar höfðu áður verið gerðir við. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með orðalagi 16. gr. að tilkynna beri þeim sem vinnustöðvun „beinist aðallega gegn“ hafi ekki verið tilætlun löggjafans að stéttarfélögum væri undantekningarlaust skylt að boða öllum þeim atvinnurekendum, sem verkfall getur bitnað á, vinnustöðvun með þeim hætti sem boðið er í greininni. Var niðurstaða málsins því sú að verkfallið var löglega boðað þótt Áburðarverksmiðjunni hafi ekki verið um það tilkynnt sérstaklega.
Hvenær telst tilkynning hafa borist viðtakanda?
Tilkynning um boðun verkfalls þarf að hafa borist þeim sem hún beinist að með sjö sólarhringa fyrirvara. Ekki er nægilegt að setja bréf í póst með sjö sólarhringa fyrirvara eða senda símskeyti. Því síður væri það talið nægilegt að hengja upp tilkynningu um verkfallsboðun með götuauglýsingu, samanber Félagsdóm 12/1949 (III:122). Verkfallsboðun er ekki gild nema hún hafi komist í hendur viðtakanda með þessum fyrirvara.
Yfirlýsing um verkfallsboðun er ákvöð í skilningi samningalaga nr. 7/1936. Með ákvöð er átt við yfirlýsingu sem ætlað er að skuldbinda móttakanda, en ekki þann sem yfirlýsinguna gefur. Í samningarétti er það meginregla að aðili getur ekki einhliða skuldbundið annan aðila en reglurnar um ákvaðir eru undantekning frá því. Samkvæmt þeim bindur verkfallsboðun viðtakanda frá þeim tíma sem hún er komin til hans.
Verkfallsboðun er talin komin til viðtakanda þegar hún er komin þannig að hann á þess kost að kynna sér efni hennar, til dæmis bréf komið í bréfakassa eða tilkynning um ábyrgðarbréf hefur borist þannig að viðtakandi hafi haft tækifæri til að nálgast bréfið.
Þar sem stéttarfélagi á að vera í lófa lagið að fylgja eftir reglum um tilkynningar ber það sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið gert. Jafnvel þótt í ljós sé leitt að þeim aðila, sem verkfallsboðun beinist að, hafi mátt vera ljóst af fréttum að búið væri að boða verkfall, telst verkfallið ekki löglega boðað ef honum er ekki sérstaklega tilkynnt um það með nægilegum fyrirvara. Sjá t.d. Félagsdóm 10/1984 (IX:58).
Ýmsir dómar
Fyrirvaralaus boðun: 1/1942 (I:130), 15/1943 (II:19), 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 6/1943(II:81) og 7/1943 (II:88).
Í Félagsdómi 1/1950 (III:90) var afgreiðslubann, sem var jafnað til samúðarvinnustöðvunar, ákveðið án fyrirvara og því dæmt ólögmætt.
Í Félagsdómum 2/1950 (III:95) og 12/1949 (III:122) var götuauglýsing var ekki talin nægjanleg boðun verkfalls og sáttasemjara var ekki tilkynnt um vinnustöðvunina.
Í Félagsdómi 10/1984 (IX:58) láðist að boða verkfall þeim sem það beindist að.