Friðhelgi einkalífs er varin í 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttindi þessi eiga við á vinnustað sem og annars staðar. Ljóst er að tæknibylting undanfarinna ára hefur leitt af sér nýjar og áður óþekktar leiðir til inngrips inn í þennan rétt m.a. með rafrænni vöktun. Ljóst er að sama skapi að tækninýjungar hafa gefið atvinnurekendum leiðir til þess bæði að auka öryggi á sínum vinnustað, bæði gagnvart utanaðkomandi ógnum s.s. eins og þjófnaði og eins til verndar lífi og heilsu starfsfólks.
Það er einmitt á grundvelli þessara andstæðu hagsmuna, þ.e. annars vegar forræði atvinnurekanda á að vernda sig og sína starfssemi og hins vegar réttar starfsfólks til friðhelgi einkalífs sem að sett hafa verið lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sem eiga að tryggja að jafnvægi ríki á milli þessara tveggja fyrrnefndu hagsmuna.
Hvað varðar launafólk þá reynir helst á persónuréttindi þess þegar kemur að vímuefnaprófunum, rafrænni vöktun, veikindaskráningum og kröfum um framvísun sakaskrár. Rafræn vöktun getur falið í sér ýmislegt en nærtækast er að nefna eftirlit með myndavélum, staðsetningarbúnað og vöktun á tölvupósti og símtölum. Þar sem að starfsemi og umhverfi fyrirtækja geta verið mjög mismunandi þá er ekki auðvelt að fastsetja hvað má og hvað má ekki án þess að skoða hvert tilvik fyrir sig, en þær meginreglur sem leiða má af Persónuverndarlögum hvað varðar þær upplýsingar sem unnið er með að þær séu:
- Unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti
- Fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi
- Áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum
- Varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða einstaklinga lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar
- Unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi persónuupplýsinga sé gætt
Vinnsla persónuupplýsinga er síðan aðeins heimil ef einhver eftirfarandi þátta eru fyrir hendi:
- Hinn skráði hafi gefið samþykki sitt fyrir vinnslu á persónuupplýsingum sínum í þágu eins eða fleiri tiltekinna markmiða
- Vinnslan sé nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður
- Vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila
- Vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings
- Vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með
- Vinnslan sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallaréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, einkum þegar hinn skráði er barn.
Aftur eru svo sérstaklega skilgreindar viðkvæmar persónuupplýsingar en um vinnslu slíkra upplýsinga gilda enn ríkari kröfur en eru raktar hér að framan. Heyrir í raun til algjörra undantekninga að safna og vinna megi úr slíkum upplýsingum er varðar hefðbundið ráðningarsamband. Viðkvæmar persónuupplýsingar eru í skilningi laganna:
- Upplýsingar um kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun eða aðild að stéttarfélagi.
- Upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun svo og heilbrigðisþjónustu sem einstaklingur hefur fengið
- Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan.
- Upplýsingar um erfðaeiginleika einstaklings.
- Upplýsingar um lífkenni, nánar tiltekið sem tengjast líkamlegum, líffræðilegum eða atferlisfræðilegum eiginleikum einstaklings.
Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum sem hér er getið að framan og enn fremur eitthvert af eftirfarandi skilyrðum:hinn skráði hafi veitt afdráttarlaust samþykki sitt fyrir vinnslunni í þágu eins eða fleiri tiltekinna markmiða;
- vinnslan sé nauðsynleg til þess að ábyrgðaraðili eða hinn skráði geti staðið við skuldbindingar sínar og nýtt sér tiltekin réttindi samkvæmt vinnulöggjöf og löggjöf um almannatryggingar og félagslega vernd og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða;
- vinnslan sé nauðsynleg til að verja brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt;
- vinnslan fari fram sem liður í lögmætri starfsemi stofnunar, samtaka eða annars aðila sem starfar ekki í hagnaðarskyni og hefur stjórnmálaleg, heimspekileg, trúarleg eða stéttarfélagsleg markmið, enda nái vinnslan einungis til meðlima eða fyrrum meðlima viðkomandi aðila eða einstaklinga sem eru í reglulegu sambandi við hann í tengslum við tilgang hans, persónuupplýsingar séu ekki fengnar þriðja aðila í hendur án samþykkis hins skráða og gerðar séu viðeigandi verndarráðstafanir;
- vinnslan taki einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur augljóslega sjálfur gert opinberar;
- vinnslan sé nauðsynleg til að unnt sé að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur;
- vinnslan sé nauðsynleg, af ástæðum sem varða verulega almannahagsmuni, og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða;
- vinnslan sé nauðsynleg til að unnt sé að fyrirbyggja sjúkdóma eða vegna atvinnusjúkdómalækninga, til að meta vinnufærni starfsmanns, greina sjúkdóma og veita umönnun eða meðferð á sviði heilbrigðis- eða félagsþjónustu og fyrir henni sé sérstök lagaheimild, enda sé hún framkvæmd af starfsmanni slíkrar þjónustu sem bundinn er þagnarskyldu;
- vinnslan sé nauðsynleg af ástæðum er varða almannahagsmuni á sviði lýðheilsu, svo sem til að verjast alvarlegum heilsufarsógnum sem ná yfir landamæri eða tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu og lyfja eða lækningatækja, og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða;
- vinnslan sé nauðsynleg vegna tölfræði-, sagnfræði- eða vísindarannsókna, enda sé persónuvernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á í samræmi við lög þessi og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða;
- vinnslan sé nauðsynleg vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða, einkum þagnarskyldu.