Með kjarasamningum semja menn um kaup og kjör vinnandi fólks á hverjum tíma. Eitt mikilvægasta hlutverk þeirra er að skapa frið á vinnumarkaði og setja niður kjaradeilur. Kjarasamningar hafa stundum verið kallaðir friðarsamningar, og vísar það heiti sem festist við heildarkjarasamningana í febrúar 1990, þjóðarsáttarsamninganna, til þessa hlutverks. Meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir svokölluð friðarskylda með aðilum.
Eins og hugtakið friðarskylda ber með sér er hér um skyldu til að halda friðinn og vettvangurinn er vinnumarkaðurinn. Skilgreina má hugtakið friðarskylda þannig að aðilar, sem bundnir eru af kjarasamningi þ.e. viðeigandi stéttarfélög, einstakir atvinnurekendur sem sjálfir eru aðilar að kjarasamningi og atvinnurekendur sem bundnir eru af kjarasamningi samtaka atvinnurekenda sem samið hafa fyrir þeirra hönd, megi ekki á samningstímabilinu knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun.
Félagsdómur hefur fjallað um friðarskylduna í nokkrum dómum sem hafa fjallað um lögmæti boðaðs verkfalls og segir meðal annars í Félagsdómi 3/1961 (V:8) að telja verði að það sé grundvallarregla að óheimilt sé að beita vinnustöðvun til þess að knýja fram breytingar á kjarasamningi sem er gildur og bindandi fyrir samningsaðilja. Í dómi Félagsdóms 5/1994 (X:178) var deilt um lögmæti boðaðar vinnustöðvunar, og sagði í dómsniðurstöðu meðal annars að þar sem í gildi væri kjarasamningur milli málsaðila væri óheimilt að knýja fram breytingar á honum með verkfalli meðan svo stæðu sakir. Sjá einnig Félagsdóma 8/1961(V:16), 6/1975 (VII:192) og 7/1975 (VII:213).
Friðarskyldan er bundin við kjarasamninginn. Ef kjarasamningur hefur ekki verið gerður milli aðila eða er úr gildi fallinn, þá hvílir friðarskylda ekki á aðilum. Það er ekki nóg að kjarasamningur sé fyrir hendi, heldur verður samningurinn að binda aðila til þess að á þeim hvíli friðarskylda. Í dómi Félagsdóms 2/1952 (III:197) var þannig samningur vörubílstjóradeildar stéttarfélags ekki talinn koma í veg fyrir verkfallsboðun bifreiðastjóradeildar sama félags. Í dómi Félagsdóms 2/1989 (IX:269) var deilt um það hvort almennur kjarasamningur, sem í gildi var milli aðila bindi þá hvað varðaði starfsemi í fiskeldi. Taldi dómurinn að samningurinn tæki til þeirra starfa og var boðað verkfall dæmt ólögmætt.
Friðarskyldan nær til þeirra vinnustöðvana, er hafa það markmið að knýja fram breytingar á gildandi kjarasamningum. Vinnustöðvanir er hafa annað markmið eru því ekki brot á friðarskyldunni, svo sem samúðarverkföll, eða vinnustöðvun til að knýja fram kjarasamning milli aðila sem ekki hafa gert samning sín á milli.
Friðarskylda felur einnig í sér bann við vinnustöðvunum sem hafa það markmið að knýja fram lausn á réttarágreiningi. Réttarágreiningur heyri undir dómstóla, og veitir ekki rétt til verkfallsboðunar.
Friðarskyldan grundvallast á því meginsjónarmiði að samninga beri að halda. Kjarasamningar eru gagnkvæmir samningar, sem þjóðhagslega er brýnt að séu haldnir það tímabil sem þeim er ætlað að gilda. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur setja vinnustöðvunum verulegar skorður og leggja ábyrgð á hendur stéttarfélögum vegna samningsrofa þeirra eða trúnaðarmanna þeirra, samanber 8. gr. laga nr. 80/1938.