VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Trúnaðarmenn stéttarfélaga

Trúnaðarmenn njóta sérstakrar verndar í starfi samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmenn eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannastörfum fyrir sig. Trúnaðarmenn eiga að öðru jöfnu að ganga fyrir um vinnu þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum. 

Almennt þurfa sakir að vera nokkrar til að hægt sé að segja trúnaðarmanni upp störfum eða víkja honum úr starfi. Þarf þá atvinnurekandi að hafa aðvarað eða áminnt trúnaðarmann og gert honum grein fyrir að það geti varðað uppsögn ef hann láti ekki af tiltekinni háttsemi. Sjá hér Félagsdóm nr. 4/1974

Félagsdómur dæmdi í tveimur málum er snertu uppsagnir á trúnaðarmönnum vorið 1993 og voru báðar uppsagnirnar dæmdar ólögmætar á grundvelli 11. gr. laga nr. 80/1938. Í Félagsdómi frá 10. júní 1993, í máli nr. 5/1993, var fjallað um ágreining er varð er á annað hundrað starfsmönnum var sagt upp í einu á tilteknum vinnustað, þar á meðal trúnaðarmanni. Þótt uppsögnin hafi ekki átt rót að rekja til þess að trúnaðarmaðurinn væri látinn gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður naut trúnaðarmaður þess réttar að hann skyldi að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni þegar atvinnurekandi þyrfti að fækka við sig starfsmönnum.

Félagsdómur sagði að í þessu ákvæði fælist sú meginregla að trúnaðarmanni eigi ekki að segja upp störfum við fækkun starfsmanna nema vinnuveitandinn sýni fram á ríkar ástæður til þeirrar ráðabreytni. Í þeim efnum dugi ekki almennar staðhæfingar, eins og beitt var í þessu máli, um lykilhlutverk þeirra starfsmanna sem héldu vinnunni, enda hefði trúnaðarmaðurinn mótmælt þeim staðhæfingum.

Nánar vísast um vernd trúnaðarmanna til kaflans um Ráðningarvernd trúnaðarmanna

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn