VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Uppljóstrarar

Uppljóstrarar geta notið sérstakrar verndar í ráðningarsambandi skv. ákvæðum 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem fjallar um verndun tjáningarfrelsis og brot á trúnaði við atvinnurekanda ekki falið í sér slíkt brot að réttlætt geti fyrirvaralausa riftun ráðningarsamnings. Það á við um tilvik þar sem starfsmaður opinberar upplýsingar sem hann býr yfir vegna starfs síns og varða atvinnurekanda hans og sem telja verður að eigi erindi við almenning. Það getur átt við um óviðunandi ástand á heilbrigðisstofnun þar sem heilbrigði sjúklinga eða vistmanna er ógnað, matvælaframleiðslu þar sem heilsu almennings kann að vera ógnað og umgengni um auðlindir svo einhver dæmi séu tekin. Brot á vinnustöðum gegn minnihlutahópum, félagsleg undirboð og eftir atvikum einelti og ofbeldi gæti einnig gæti einnig fallið í þennan flokk. Um þetta eru ekki skýr fordæmi hér á landi og hafa ber í huga að áður en ljóstrað er upp sé leitað annarra úrræða sem til reiðu kunna að vera. Um þetta álitaefni var fjallað í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu nr. 28274/08 þar sem fyrirvaralaus uppsögn hjúkrunarfræðings sem kært hafi hjúkrunarheimili sem hún vann á fyrir vanrækslu var dæmd ólögmæt og skaðabótaskyld.

Málavextir voru þeir að hjúkrunarfræðingur, Fr. Heinisch, sem vann á einkareknu en opinberlega styrktu hjúkrunarheimili fyrir aldraða var rekin án fyrirvara og bótalaust úr starfi eftir að hafa ítrekað kvartað við yfirmenn sína um að undirmönnun og of mikið álag leiddi til þess að vistmenn á hjúkrunarheimilinu fengju ekki þá umönnun sem lög og reglur gerðu ráð fyrir. Úr sumu var bætt á því eina og hálfa ári sem hún kvartaði. Hún taldi ekki nóg að gert og lögfræðingur hennar óskaði eftir því við saksóknara að fram færi opinber rannsókn á málinu m.a. með tilliti til þess að um gæti verið að ræða fjársvik þar sem verið væri að greiða fyrir þjónustu sem ekki væri veitt. Kærunni, sem hjúkrunarheimilið vissi ekki af, var vísað frá. Skömmu  síðar var hjúkrunarfræðingnum sagt upp starfi með venjulegum uppsagnarfresti. Var það m.a. rökstutt með vísan til ítrekaðra fjarvista hennar sem hún sjálf sagði vera tilkomnar vegna of mikils álags í vinnu. Uppsögninni var mótmælt en jafnframt dreifði stéttarfélag hennar litlum bæklingi þar sem sagt var frá kærunni og efni hennar. Bæklingurinn barst hjúkrunarheimilinu sem þá fyrst fékk vitneskju um þá kæru sem hafnað hafði verið og var ráðningu hjúkrunarfræðingsins þegar rift án fyrirvara- og bótalaust vegna alvarlegs brot í starfi. Hún höfðaði mál af þessu tilefni sem tapaðist við áfrýjun fyrir Þýskum dómstólum. Niðurstaðan var m.a. rökstudd með vísan til þess að kærur hennar hefðu ekki leitt til opinberrar rannsóknar og kæruefni hennar væru ósönnuð. Í framhaldinu kærði hún Þýskaland til Mannréttindadómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu að Þýskaland hefði brotið gegn 10.gr. MSE með því að tryggja ekki tjáningarfrelsi hennar, í þessu tilviki sem uppljóstrara.

Í rökstuðningi er vísað til þess að „uppljóstrar“, hvort sem er á almennum- eða opinberum vinnumarkaði, njóti verndar á grundvelli tjáningarfrelsisákvæðis MSE hvað varðar uppljóstranir sínar. 10.gr. MSE hljóðar svo:

Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.

Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.“

Dómstóllinn setti fram próf í nokkrum liðum sem líta má á sem leiðbeiningu um það hvernig höndla skuli samkynja mál að landsrétti þ.e. að niðurstaðan samræmist ákvæði 10.gr. MSE. 

1. Var ljóstrað upp í þágu almannahagsmuna? Í þessu tilviki var komist að þeirri niðurstöðu að svo væri m.a. með tilliti til þess að aldrað fólk og heilabilað átti í hlut og mikilvægt að ljóstra upp um stöðu mála á heimilinu til þess að koma í veg fyrir brot gegn þessum viðkvæma hóp.

2. Gat uppljóstrarinn nýtt sér aðra möguleika til að koma upplýsingum á framfæri (kvartað t.d. til réttra aðila áður en uppljóstrunin átti sér stað)? Í þessu tilviki þá hafði hún gert það. Hún mat það svo sjálf að úrbætur hefðu litlar orðið auk þess sem dómstóllinn leit sérstaklega til þess að þýsk lög geyma ekkert regluverk um það hvernig meðhöndla skuli upplýsingar frá uppljóstrurum. 

3. Voru upplýsingarnar sem lekið var áreiðanlegar? Í þessu tilviki voru þær það að mestu.

4. Var ljóstrað upp í góðri trú? Með því er átt við hvort „heiðarleg sjónarmið“ hafi legið að baki en ekki t.d. gert til auðgunar eða í eigin þágu. Í þessu máli var talið að svo hefði verið.

5. Hvaða tjóni veldur uppljóstrunin fyrirtækinu?  Hér þarf dómstóllinn að vega viðskiptalega hagsmuni fyrirtækisins og hluthafa þess annars vegar og hins vegar hagsmuni almennings í lýðræðisþjóðfélagi af því að fá vitneskju um það sem aflaga hefur farið. Dómstóllinn taldi að síðargreindu hagsmunir vægju meira en hinir fyrri í þessu máli.

6. Alvarleiki viðbragða atvinnurekanda? Litið var til þess að atvinnurekandinn hafði gripið til alvarlegustu aðgerða sem hann gat gripið til þ.e. hann rak viðkomandi fyrirvara- og bótalaust úr starfi. Þau viðbrögð beindust ekki einungis gegn viðkomandi einstaklingi heldur fælist einnig í þeim hótun gagnvart öllum öðrum starfsmönnum sem hugsanlega byggju yfir upplýsingum sem ættu ótvírætt erindi við almenning.

Með vísan til þessa dæmdi dómstóllinn Þýskaland til að greiða Fr. Heinisch kr. 1.600.000.- í miskabætur auk málskostnaðar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn