VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Ábyrgðarsjóður launa

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda.

Um sjóðinn gilda lög nr. 88/2003 um Ábyrgðarsjóð launa og reglugerð nr. 462/2003.

Stjórn Ábyrgðarsjóðs launa

Sjóðurinn lýtur þriggja manna stjórn. Tveir eru skipaðir af félagsmálaráðherra til fjögurra ára samkvæmt tilnefningu ASÍ og SA og sá þriðji er skipaður án tilnefningar.

Fjármögnun sjóðsins

Ábyrgðarsjóður launa er fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu ábyrgðargjalds.

Ábyrgðargjaldið er 0,2% af gjaldstofni skv. 23. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa.

Dagleg umsýsla

Vinnumálastofnun annast daglega umsýslu fyrir sjóðinn skv. sérstöku samkomulagi við stjórn sjóðsins. 

Sjá nánar heimasíðu Ábyrgðarsjóðs launa.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn