VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Breyting á ráðningarkjörum

Ráðningarsamningur gildir milli aðila samkvæmt efni sínu meðan honum er ekki sagt upp. Óski aðilar eftir að breyta efnisinnihaldi samningsins verður það ekki gert einhliða né fyrirvaralaust svo löglegt sé, og allar aðrar breytingar en þær sem leiða af breytingum á kjarasamningi kalla á nýtt samkomulag þessara aðila. Breytingar á ráðningarkjörum verða að samrýmast ákvæðum kjarasamnings þar sem hann kveður á um lágmarkskjör.

Kjarasamningi verður einungis breytt með samkomulagi þeirra sem samninginn gerðu, stéttarfélags og samtaka atvinnurekenda. Séu breytingar á ráðningarsamningi skoðaðar út frá reglum samningsréttarins þýða þær í raun að ráðningarsamningi er sagt upp, en jafnframt er gert tilboð um nýjan ráðningarsamning.

Samkvæmt samkomulagi ASÍ og VSÍ (nú SA) um skriflega ráðningasamninga frá 1996 skal staðfesta breytingar á ráðningarkjörum umfram það sem leiðir af lögum eða kjarasamningum eigi síðar en mánuði eftir að þær koma til framkvæmda. Með því var hrint í framkvæmd ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE.

Vanræksla á skriflegri tilkynningu um breytingu leiðir ekki til þess sjálfkrafa að slík breyting, ef sönnuð er, teljist óskuldbindandi. Um gildi hennar fer samkvæmt almennum sönnunarreglum og landsrétti sbr. t.d. dóm EFTA dómstólsins í máli E-10/12 frá 25 mars 2013.  Vanræksla á því að tilkynna ekki breytingar á ráðningarkjörum hefur hins vegar þau áhrif að fella sönnunarbyrði um breytingarnar á atvinnurekandann sbr. m.a. HRD 10/2011. ( Sjá fleiri dóma: Ráðningarsamningar – Form og efni )

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn