VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Eigin sök og veikindaréttur vegna slysa

Eins og fram kemur í kaflanum um vinnuslys skapast  réttur til greiðslu launa í veikindum ekki einungis vegna venjulegra veikinda heldur einnig vegna almennra slysa við vinnu, vegna slysa á leið til og frá vinnu og slysa utan vinnu. Í þeim tilvikum kann að vera rétt að líta til reglna skaðabótaréttarins um eigin sök. Þegar áhrif þeirra reglna eru metin ber að hafa í huga, að skv. skaðabótalögum nr. 50/1993, 23. gr. a. þar sem fjallað er um meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum, skerðist ekki réttur launamanns til skaðabóta vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð.

Sé orsaka slyss t.d. að leita í ölvun starfsmanns, neyslu fíkniefna eða áflogum sem starfsmaðurinn á frumkvæði að getur réttur til greiðslu launa í forföllum (veikindaréttur) fallið niður enda geti þá verið um stórkostlegt gáleysi að ræða. Sama á við ef launamaður fer offari  og hegðar sér með ámælisverðum hætti að öðru leyti sbr. t.d. Hrd 153/1988 (almennt slys við vinnu). Hins vegar er ekki hægt að yfirfæra reglur um hlutlæga ábyrgð inn í þetta samhengi og álykta sem svo að beri launamaður af einhverjum ástæðum hlutlæga ábyrgð á tjónsatburði skv. lögum falli réttur hans til launa í forföllum vegna þess atburðar niður. Sama á við um reglur umferðarlaga t.d. um nánast ætlaða sök við aftanákeyrslur eða þegar ekið er á kyrrstæðar bifreiðar. T.d. segir í  2.mgr. 18.gr. umferðarlaga nr. 77/2019: „Ökutæki sem ekið er á eftir öðru ökutæki skal vera svo langt frá því að eigi sé hætta á árekstri þótt ökutækið sem er á undan stöðvist eða dregið sé úr hraða þess. Skal þess að jafnaði gætt að það taki eigi minna en þrjár sekúndur að aka bilið milli ökutækjanna.“ Sök þess sem keyrir aftan á annað ökutæki er skv. þessu ákvæði nánast fyrirfram gefin. Engu að síður þarf að fara fram sjálfstætt mat á sakarstiginu þegar kemur að því að meta veikindarétt úr hendi atvinnurekanda vegna slyssins, óháð þessu ákvæðum umferðarlaga sbr. m.a.  Hrd. 88/1993 þar sem reyndi á bótarétt skv. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þar sem heimilt er skv. 4.mgr. að fella niður ábyrgð útgerðar sé skipverji ekki starfhæfur vegna, sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn