VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Forgangsréttarákvæði

Forgangsréttarákvæði íslenskra kjarasamninga eru ekki „útilokunarákvæði“ (closed shop) og annars eðlis en slík ákvæði sem mæla fyrir um aðildarskyldu. Forgangsréttarákvæði kjarasamninga þjóna sama tilgangi nú og þau hafa gert um áratuga skeið. Þeim er ætlað að stuðla að skipulögðum vinnumarkaði, félagsaðild og samtakamætti í kaupgjalds- og kjaramálum og undirstrika og tryggja margþætt hlutverk stéttarfélaga og atvinnurekenda hvað varðar félagslegt öryggi og tryggingar launafólks.

Kjarasamningar hér á landi hafa flestir ákvæði um forgangsrétt. Er þá samið um forgang félagsmanna þess félags sem kjarasamninginn gerir að störfum hjá viðsemjanda samningsins. Þó svo að forgangsréttarákvæðin stuðli þannig að félagsaðild, útiloka þau ekki menn frá störfum því launamenn hér á landi ekki skyldaðir samkvæmt lögum að vera í stéttarfélagi, eins og sjá má af 3. og 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og beinlínis er gert ráð fyrir að starfsmenn geti verið utan stéttarfélaga. Samkvæmt starfskjaralögum er þó skylt að greiða gjald til þess stéttarfélags sem menn ættu annars að tilheyra og atvinnurekendur eru bundnir af lágmarksákvæðum viðkomandi kjarasamnings hvort sem starfsmenn þeirra eru félagsmenn í stéttarfélagi eða ekki. 

Þó svo að forgangsréttarákvæði stuðli þannig að félagsaðild, útiloka þau ekki menn frá störfum. Annars vegar þar sem stéttarfélagi er skylt að veita inngöngu starfsmanni, sem atvinnurekandi ætlar að ráða í þjónustu sína og hins vegar vegna þess að forgangsrétturinn er bundinn við hæfir félagsmenn bjóðist. Félagsmaður hefur því ekki sjálfkrafa forgang til starfs umfram ófélagsbundinn mann. Forgangsréttarákvæði íslenskra kjarasamninga eru þannig ekki „útilokunarákvæði“ (closed shop) og eru annars eðlis en slík ákvæði sem mæla fyrir um aðildarskyldu. Samkvæmt meginreglum íslensks vinnuréttar verður atvinnurekandi ekki dæmdur til að taka mann í starf gegn vilja sínum og þriðji aðili, það er einstaklingur, sem sækist eftir starfinu getur ekki fengið fólk dæmt úr störfum sem það hefur verið ráðið til. Atvinnurekandi hefur frjálst val um það hvern félaga viðkomandi stéttarfélags hann kýs að hafa í vinnu. Hann verður ekki bundinn af ákvörðun stéttarfélags um vinnumiðlun, samanber Félagsdóm 3/1959 (IV:196).

Mismunandi orðalag ákvæða 

Þótt svo að forgangsréttarákvæði sé að finna í flestum kjarasamningum eru þau nokkuð mismunandi. Í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands (2019) segir til dæmis að vinnuveitendur skuldbindi sig til þess að láta verkamenn sem eru fullgildir meðlimir í viðkomandi félögum á viðkomandi félagssvæði hafa forgangsrétt til allrar almennrar verkamannavinnu, þegar þess er krafist og félagsmenn bjóðast, er séu fullkomlega hæfir til þeirrar vinnu, sem um er að ræða. Í samningnum segir ennfremur að vinnuveitendur hafi ávallt frjálst val um það, hvaða félaga viðkomandi stéttarfélaga þeir taka til vinnu. Vilji vinnuveitandi ráða til sín mann í vinnu, sem ekki er félagi í viðkomandi félögum, skulu þau skyld til þess að veita þeim manni inngöngu, ef hann sækir um það og það kemur ekki í bága við samþykktir félagsins.  Þá skuldbinda félögin sig til þess ef hörgull er á mönnum til vinnu, að láta meðlimi Samtaka atvinnulífsins hafa forgangsrétt á að fá fullgilda félagsmenn til vinnu, enda skal stjórn félagsins tilkynna um það, að verkamenn vanti.

Í aðalkjarasamningi VR/LÍV (2008) er mælt fyrir um forgangsrétt félagsmanna til vinnu annars vegar og réttar utanfélagsmanna hins vegar til aðildar að VR/LÍV. Segir í samningi aðila að vinnuveitendur skuldbindi sig til þess að láta verslunarmenn sem eru félagsmenn VR eða viðkomandi aðildarfélags LÍV hafa forgangsrétt við ráðningu til allrar almennrar verslunarmannavinnu skv. samningi þessum, þegar þess er krafist og félagsmenn bjóðast, er séu hæfir til þeirrar vinnu sem um er að ræða. Þá segir að vinnuveitendur hafi frjálst val um það hvaða félagsmenn viðkomandi félaga þeir taka til vinnu. Vilji vinnuveitandi ráða til sín mann í vinnu sem ekki er félagsmaður og er félagið þá skylt til þess að veita þeim manni inngöngu ef hann sækir um það og það brýtur ekki í bága við samþykktir félagsins.

Lögmæti forgangsréttarákvæða 

Oft hefur reynt á gildi forgangsréttarákvæða kjarasamninga fyrir Félagsdómi og hefur það sjónarmið verið viðtekið í íslenskri réttarframkvæmd að forgangsréttarákvæði í frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins standist að lögum. Slík ákvæði eru jafnframt í samræmi við skyldur Íslands gagnvart grundvallarsamþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sbr. Freedom of association digest, málsgr. 551-559.

Í Félagsdómi 1/1945 (II:146) var deilt um réttmæti forgangsréttarákvæðis í kjarasamningi. Maður, sem ekki var félagsmaður í stéttarfélagi taldi þetta ákvæði útiloka sig frá verkamannavinnu og það bryti í bága við tilgang laganna um stéttarfélög og vinnudeilur um félagafrelsi og krafðist ógildingar ákvæðisins. Félagsdómur féllst ekki á kröfu mannsins. Studdi dómurinn niðurstöðuna meðal annars með þeim rökum að ákvæði í kjarasamningum milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, um forgangsrétt félagsmanna verkalýðsfélags og atvinnurekenda til vinnu hjá viðkomandi atvinnurekendum yrði að teljast falla undir þann tilgang, sem lýst væri í 1. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur að vinna að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar. Styddist þessi skýring og við það að áður en greind lög voru sett, tíðkuðust slík forgangsréttarákvæði nokkuð í kjarasamningum. Hefði því í lögunum frá 1938 beinlínis átt að banna forgangsréttarákvæði, ef löggjafinn teldi þau ekki samrýmast löglegum tilgangi stéttarfélaga. Þetta var ekki gert, enda hefði forgangsréttarákvæðum fjölgað mjög í kjarasamningum eftir gildistöku laganna. Af þessu væri ljóst að ákvæði það sem ógildingar væri krafist á í málinu yrði talið samræmast ákvæðinu í 1. gr. laga nr. 80/1938 og þá einnig þágildandi 73. gr. stjórnarskrárinnar nú 74.gr.  

Sjá ennfremur dóma Félagsdóms:
2/1939 (I:6), 6/1939 (I:45), 2/1940 (I: 52) 12/1940 (I:120), 15/1943 (II:19), 1/1949 (III:36),2/1949 (III:42), 
8/1949 (III:66), 13/1948 (III:77) 8/1951 (III:193), 7/1952 (IV:15), 9/1952 (IV:34), 6/1953 (IV:49), 6/1954 (IV:87),
8/1954 (IV:96), 5/1955 (IV:113), 1/1955 (IV:146), og 9/1956 (IV:183), 1/1965 (V:193), 1/1974 (VII:154), 
4/1974(VII:255), 10/1975 (VIII:1), 17/1997 (XI:166)

Réttur atvinnurekanda til að ráða utanfélagsmann

Forgangsréttarákvæði eins og þau eru í kjarasamningum koma ekki í veg fyrir að atvinnurekandi ráði utanfélagsmann og félögin skuldbinda sig jafnframt til að veita þeim manni viðtöku í félagið enda uppfylli hann öll skilyrði til inngöngu. Forgangsréttarákvæðin geta hins vegar leitt til þess að atvinnurekandi verði dæmdur bótaskyldur gagnvart félagsmanni hafi hann tekið utanfélagsmann í vinnu umfram hæfan félagsmann sem eftir vinnunni sækist. Í Félagsdómi 8/1951 (III:193) voru atvik þau að samkvæmt kjarasamningi milli verkalýðsfélags og vinnuveitenda skyldu félagsmenn hafa forgangsrétt til allrar algengrar vinnu. Ákveðinn vinnuveitandi hafði utanfélagsmenn í þjónustu sinni, en synjaði verkamanninum P, sem var félagsmaður í verkalýðsfélaginu um vinnu og bar fyrir sig að P væri ekki fullfær til þeirrar vinnu sem um var að ræða. Vinnuveitandinn var talinn hafa gengið á snið við forgangsréttarákvæði samningsins með því að taka utanfélagsmann í vinnu en ekki P sem hafi bæði verið hæfur og reiðubúinn til vinnu og var dæmdur til að greiða honum skaðabætur.

Uppsagnir
Forgangsréttarákvæði kjarasamninga verða hins vegar ekki túlkuð með þeim hætti, að utanfélagsmaður sem þegar er í vinnu hjá atvinnurekanda verði sagt upp, einungis vegna þess að félagsmaður sækist eftir vinnu. Félagsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að forgangsréttarákvæði kjarasamninga geti hins vegar gilt við uppsögn þegar starfsmönnum er fækkað. Sjá hér Félagsdóma 2/2002, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf. og 7/2006, Flugvirkjafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Flugfélagsins Atlanta ehf.


Hæfisskilyrði
Sums staðar í kjarasamningum er það tekið fram að þetta sé háð því að þeir félagsmenn sem bjóðist séu fullkomlega hæfir til þeirrar vinnu sem um er að ræða. Þótt slíkt sé ekki tekið fram verður almennt að ganga út frá því að þeir félagsmenn sem í boði séu geti leyst af hendi þau störf sem verið er að ráða til. Haldi atvinnurekandi því fram að hann geti ekki ráðið tiltekinn félagsmann til almennra starfa þar sem hann sé ekki fullfær til þeirrar vinnu sam kjarasamningur kveður á um og ráði utanfélagsmann í starfið þarf atvinnurekandi að sýna fram á að félagsmaðurinn hafi ekki verið fær til starfans. Sjá einnig Félagsdóm 8/1951 (III:193). Slík hæfisskilyrði er að jafnaði að finna í samþykktum félaga iðnaðarmanna. 

Skaðabætur vegna brots á forgangsréttarákvæðum

Brjóti atvinnurekandi forgangsréttarákvæði í kjarasamningi kann hann að verða dæmdur til skaðabóta. Sjá til dæmis Félagsdóma 8/1949 (III:66), 13/1948 (III:77), 9/1952 (IV:34), 6/1953 (IV:49) og 6/1954 (IV:87). Þau mál sem hafa fjallað um forgangsréttarákvæði hafa fjallað um það hvort atvinnurekandi hafi gerst brotlegur við ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt. Þá hefur verið krafist sekta og skaðabóta til handa þeim einstaklingi sem sóst hefur eftir starfinu. Sjá hér til dæmis Félagsdóma 13/1948 (III:77) og 8/1951 (III:193). Í Félagsdómi 10/1975 (VIII:1) var fjallað um brot á forgangsrétti. Málið fjallaði um þann hátt erlends verktaka að ráða til starfa einungis þá sem væru 18 ára og eldri. Þar var sett fram refsikrafa, en ekki skaðabótakrafa, enda málið höfðað af verkalýðsfélaginu. Var þessi háttur dæmdur brot á forgangsrétti, en sýknað var í refsikröfunni.

Aðildarskylduákvæði
Samkvæmt lögum ASÍ eru ákvæði um aðildarskyldu í lögum aðildarfélaga óheimil, sbr. 2. mgr. 12. gr. Þar segir orðrétt: „Í samþykktum aðildarfélaga mega ekki vera ákvæði um félagsskyldu né ákvæði sem takmarka aðild að félögum með tilliti til búsetu og lögheimilisfesti.“  

Hér áður fyrr voru í kjarasamningum sumra félaga ákvæði um aðildarskyldu. Slík aðildarskylduákvæði voru til dæmis að finna í kjarasamningum verslunarmanna. Í kjarasamningi VR sagði t.a.m. að öllu starfandi skrifstofu-og verslunarfólki, sem samningurinn næði til, væri skylt að vera félagar í stéttarfélögum verslunarmanna, er það hefði unnið lengur en 4 mánuði. Einnig sagði í samningi VR að félagar VR skyldu ekki vinna hjá öðrum vinnuveitendum en þeim, sem væru meðlimir þeirra atvinnurekendasamtaka sem væru aðilar samningsins. Ákvæði af þessum toga heyra sögunni til. 

Opinberir starfsmenn

Hvorki í lögum um opinbera starfsmenn né í kjarasamningum þeirra er sérstaklega fjallað um forgangsrétt. Skipulagi samtaka opinberra starfsmanna er á annan hátt farið og hafa samningamál þeirra þróast mun seinna en félaga á almennum vinnumarkaði og verkfallsréttur tiltölulega nýr.

Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 er kveðið á um það að þau gildi um alla starfsmenn sem séu félagar í stéttarfélögum sem undir lögin heyra, en þau eru talin upp í 4. og 5. gr. laganna. Þar er tekið fram í 7. gr. að starfsmaður sem lögin taka til eigi rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fari með samningsumboð samkvæmt lögunum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segi. Aðeins eitt félag fari með umboð til samninga fyrir hann. Einnig segir að starfsmaður sem lögin taki til og ekki sé innan stéttarfélags samkvæmt lögunum greiði til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í félaginu, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn