VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Búseta á Íslandi

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar (ATVL) er það skilyrði bótaréttar að hinn tryggði sé búsettur á Íslandi þann tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.

Þetta er rökstutt þannig að atvinnuleysistryggingar eru fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem atvinnurekendur greiða. Upphæð þessa gjalds byggir á upplýsingum um fjárhagsstöðu sjóðsins hverju sinni og mati á þróun atvinnumála og atvinnuleysis á innlendum vinnumarkaði. Lög um atvinnuleysistryggingar ná ekki markmiði sínu sem hluti af gangverki vinnumarkaðarins nema gerð sé krafa um að hinn tryggði sé búsettur hér á landi og í virkri atvinnuleit á innlendum vinnumarkaði þann tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Umsækjandi verður þannig að vera með skráð lögheimili í tilteknu sveitarfélagi hér á landi þann tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun er heimilt við vissar aðstæður að veita undanþágu frá þessu skilyrði um búsetu hér á landi vegna þeirra sem uppfylla skilyrði laganna til að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir dvelja tímabundið í öðru EES-ríki við atvinnuleit.

Í dómi EFTA dómstólsins í máli E-3/12 frá 20. mars 2013 er fjallað um réttarstöðu manns sem búsettur var í Svíþjóð en sem hafði unnið í Noregi og horfið heim til Svíþjóðar þá er hann missti starf sitt í Noregi. Hann sótti um atvinnuleysisbætur í Noregi en var synjað með vísan til samkynja ákvæðis og finna má í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem áður er vitnað til. Í norsku lögunum er að finna heimild til undanþágu frá búsetuskilyrði líka þeirri sem finna má í 8. kafla laganna. Dómur EFTA dómstólsins er mjög skýr en þar segir í 82 mgr.: „… Reglugerð Nr. 1408/71 útilokar ákvæði í landsrétti sem skilyrða greiðslu atvinnuleysisbóta við raunverulega viðveru í viðkomandi EES landi [þýðing vefstjóra].“ Af dómi þessum má leiða að íslenskum stjórnvöldum sé ekki heimilt að beita heimildarákvæði 8. kafla laganna um atvinnuleysistryggingar þannig að í þeirri beitingu geti falist mismunun byggð á búsetu umsækjanda um atvinnuleysisbætur. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn