Til þess að geta rift ráðningarsamningi vegna verulegs brots nægir þó ekki að um brot sé að ræða, heldur koma hér til sérstakar reglur um aðvörun. Verður að telja að starfsmanni sé skylt að aðvara atvinnurekanda áður en hann öðlast riftunarheimild og með sama hætti ber atvinnurekanda að áminna eða aðvara starfsmann um brottrekstur áður en hann getur gert mann brottrækan úr starfi, nema sakir séu því meiri, til dæmis þjófnaður eða líkamsárás. Sé það ekki gert og samningsaðila gefinn kostur á að bæta ráð sitt áður en til riftunar kemur á samningsaðili það á hættu að vera dæmdur bótaskyldur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi. (Hrd. 1951:197, 1961:868, 1977:1328, 1990:1427)
Aðvörun verður að vera sannanleg, annað hvort skrifleg eða gefin undir vætti og hana verður að gefa í beinu framhaldi af vanefnd. Að minnsta kosti verður vanefndin að vera tilefni aðvörunarinnar. Í aðvörun atvinnurekanda verður að koma skýrt fram að láti starfsmaður ekki af háttsemi varði það brottrekstri.
Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996 er kveðið á um sérstakt áminningarferli vilji atvinnurekandi segja starfsmanni upp á grundvelli ávirðinga. Eru ákvæði um áminningu í 21. gr. Þar segir að forstöðumaður skuli gefa skriflega áminningu vegna tiltekinna ávirðinga sem taldar eru upp í ákvæðinu. Í kjarasamningum kann að vera kveðið á um nauðsyn áminningar. Þessar reglur eru ekki sérstaklega til umfjöllunar hér.