Starfsmaður verður að vera í ráðningarsambandi við atvinnurekanda á þeim degi sem aðilaskiptin eiga sér stað til að eiga rétt samkvæmt lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.
Hér er í fyrsta lagi átt við þá einstaklinga sem eru í starfi hjá atvinnurekanda þegar aðilaskiptin eru að eiga sér stað.
Í öðru lagi er átt við þá starfsmenn sem eru frá vinnu á þessum tímamótum en í ráðningarsambandi engu að síður, þ.e.a.s. þeir starfsmenn sem eru í fæðingar- eða foreldraorlofi, í launalausu leyfi, í orlofi, frá vinnu vegna veikinda eða slyss o.s.frv.
Getur atvinnurekandi komið í veg fyrir að starfsmenn njóti réttar samkvæmt þessum lögum með því að gæta þess einfaldlega að segja þeim upp tímanlega þannig að uppsagnarfrestur starfsmanna sé liðinn þegar aðilaskiptin eiga sér stað? Hvað ef atvinnurekandi segir upp ráðningarsamningi eins eða fleiri starfsmanna skömmu fyrir aðilaskipti og starfsmenn því enn á uppsagnarfresti þegar þau eiga sér stað?
Dómstólar hér á landi hafa ekki leyst úr þessum spurningum. Svarið liggur e.t.v. í samspili þeirrar meginreglu laganna um að starfsmenn eigi við aðilaskipti að fyrirtæki að flytjast yfir til nýs atvinnurekanda og þeirrar meginreglu laganna sem bannar uppsagnir starfsmanna vegna aðilaskipta nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis.
Síðari reglan felur það a.m.k. í sér að starfsmaður á við þessar aðstæður rétt á því að atvinnurekandi færi rök fyrir uppsögn ráðningarsamningsins í samræmi við ákvæði laganna. Atvinnurekandi getur m.ö.o. ekki vísað til þess að ráðningarsamningi hafi verið sagt upp fyrir aðilaskiptin með þeim réttaráhrifum að hann og nýi atvinnurekandinn beri engar skyldur gagnvart starfsmanninum á grundvelli þeirra laga sem hér um ræðir.
Þrátt fyrir þetta verður atvinnurekandi ekki knúinn á grundvelli laganna til að draga til baka uppsagnir sem hann hefur þegar tekið ákvörðun um. Uppsögn ráðningarsamnings kann hins vegar að verða dæmd bótaskyld geti atvinnurekandi ekki fært rök fyrir henni á grundvelli laganna.