VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Verkföll

Reglur um verkföll eru ekki sambærilegar hjá almennu stéttarfélögunum og opinberu stéttarfélögunum.

Almennu félögin

Í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eru reglur um heimildir og ákvarðanatöku vegna vinnustöðvana. Þar er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum veitt heimild til að gera verkföll og verkbönn til að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum.

Reglur laganna vegna ákvarðanatöku um vinnustöðvun eru fortakslausar og hefur Félagsdómur gert ríkar kröfur til að þeim formreglum sé fylgt. Samkvæmt þeim er hægt að taka ákvörðun um verkfall annað hvort með almennri leynilegri atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna og þarf þá tillagan að njóta stuðnings meirihluta greiddra atkvæða. Hins vegar er hægt að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu og gildir niðurstaðan óháð þátttöku. Tilkynningu um vinnustöðvun ber að tilkynna sáttasemjara og þeim sem hún beinist aðallega gegn 7 sólarhringum áður en ætlunin er að hún hefjist.

Opinberu félögin

Reglur um verkföll opinberra starfsmanna eru þrengri hvað verkfallsheimildir og ákvarðanatöku varðar. Þannig er einungis stéttarfélögum heimilt að standa að verkfalli en atvinnurekendum, þ.e. hinu opinbera, er ekki veittur sambærilegur réttur til að setja á verkbönn. Gerðar eru kröfur um meiri þátttöku félagsmanna til að ákvörðun um boðun verkfalls sé lögmæt. Þannig þarf ákvörðunin að vera tekin í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu og þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og meirihluti þeirra að samþykkja hana, sbr. 15. gr. laga nr. 94/1986. Þá ber að tilkynna ákvörðun um verkfall með lengri fyrirvara eða 15 sólarhringum áður en verkfall skal hefjast. Vissir hópar starfsmanna eru ennfremur undanskildir verkfallsheimild, skv. 19. gr. laganna. Þeir starfsmenn eru skv. lögunum; 1. Þeir embættismenn og aðrir starfsmenn ríkisins sem heyra undir kjararáð, 2. Starfsmenn Alþingis og stofnana þess, svo og starfsmenn á skrifstofu forseta Íslands og í stjórnarráði, þar með taldir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, 3. Starfsmenn Hæstaréttar og héraðsdómstóla, 4. Starfsmenn við embætti ríkissaksóknara, ríkislögmanns, ríkissáttasemjara og umboðsmanns barna, 5. Þeir sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu, 6. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, borgar-og bæjarlögmenn, borgar- og bæjarritarar, borgar- og bæjarverkfræðingar, skrifstofustjórar borgarstjórnar og starfsmenn launadeildar, 7. Forstöðumenn stærri atvinnu- og þjónustustofnana sveitarfélaga og staðgengla þeirra auk annarra þeirra er gegna störfum sem öldungis verður jafnað til þeirra starfa sem getið er í 6. og 7. tölul.

Í því skyni að færa starfsumhverfi félagsmanna þeirra aðildarfélaga ASÍ sem semja við ríkið nær því sem gildir aðra starfsmenn ríkisins  var samið um það í kjarasamningum þessara hópa að ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þ.e. III. kafli laga nr. 94/1986, gildi um ákvörðun og framkvæmd verkfalla þessara hópa.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn