Áhrif tómlætis eru talsverð í vinnurétti og mikilvægt að starfsmenn haldi rétti sínum fram án ástæðulauss dráttar. Geri starfsmenn ekki athugasemd við ákveðna framkvæmd á kjara- eða ráðningarsamningi er hætt við að sú framkvæmd skapi ekki rétt til skaðabóta. Geri starfsmaður t.d. ekki athugasemd við rangan útreikning á launum sínum, sem honum er kunnugt um, glatar hann rétti til að fá leiðréttingu síðar. Sjá hér um m.a. Hrd. 1951:162, Hrd.1977:1299, Hrd. 1980:998, Hrd. 1991:70 og Hrd. 1997:1905
Lrd. 186/2023, fjallar um kröfu starfsmanns um skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar og fyrirvaralausrar riftunar á ráðningarsamningi. Atvinnurekandi hafði gefið fyrirmæli þess efnis að starfsmenn hans skyldu fara í COVID 19 hraðpróf til þess að mega mæta til vinnu en við því vildi starfsmaðurinn ekki verða og kom því ekki til vinnu. Í dómi Landsréttar var tekið undir þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað væri að starfsmaðurinn hefði eigi síðar en í upphafi vinnudags 20. desember 2021 fengið vitneskju um að allt starfsfólk ætti að fara í hraðpróf en yrði ella vikið fyrirvaralaust úr starfi. Við þessu brást hún ekki fyrr en mánuði síðar þó fullt tilefni hefði verið til að bregðast strax við. Einnig leit Landsréttur til þess að við þær aðstæður sem upp voru komnar (starfsmaðurinn var skurðhjúkrunarfræðingur og COVID-19 varúðarráðstafanir í gangi) gæti ekki komið til þess að starfsmaðurinn innti af hendi vinnu sína, en í því hafi ótvírætt falist veruleg vanefnd. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu af öllum kröfum starfsmannsins.