VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Veikindaréttur

Veikindaréttur á opinberum vinnumarkaði er mun betri en á almennum vinnumarkaði. Þannig hefur starfsmaður ríkis eða sveitarfélags sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum, hvort heldur hann tekur laun eftir kjarasamningi opinberu eða almennu stéttarfélaganna rétt á 133 veikindadögum á hverju 12 mánaða tímabili eftir 1 ár í starfi á meðan starfsmaður á almenna vinnumarkaðnum á almennt eins mánaðar veikindarétt í sömu stöðu. Þannig er athyglisvert að bera saman rétt félagsmanna sama stéttarfélags eftir því hvort þeir eru í störfum hjá ríkinu eða á almenna vinnumarkaðnum.

Eftirfarandi eru upplýsingar um annars vegar veikindarétt samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (2008) og hins vegar veikindarétt samkvæmt kjarasamningi sömu félaga við ríkið (2008) á hverju tólf mánaða tímabili. Veikindaréttur samkvæmt ríkissamningnum tekur mið af almanaksdögum en á almenna markaðnum er mánuðurinn almennt talinn sem 22 dagar, þ.e. virkir dagar. Rétt er að hafa í huga að veikindaréttur samkvæmt kjarasamningi við ríkið gildir fyrir þá starfsmenn sem ráðnir eru til starfa á mánaðarlaunum í a.m.k. 2 mánuði.

 Starfstími SA Ríkið
 1 mánuður2 dagar á staðgengilslaunum 14 dagar
 3 mánuðir6 dagar á staðgengilslaunum 35 dagar
 6 mánuðir12 dagar á staðgengilslaunum 119 dagar
 1 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 133 dagar
 2 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 1 mánuður á dagvinnulaunum 133 dagar
 3 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 2 mánuðir á dagvinnulaunum 133 dagar
 5 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 1 mánuður á fullu dagvinnukaupi 2 mánuðir á dagvinnulaunum 133 dagar
 7 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 1 mánuður á fullu dagvinnukaupi 2 mánuðir á dagvinnulaunum 175 dagar
 12 ár 1 mánuður á staðgengilslaunum 1 mánuður á fullu dagvinnukaupi 2 mánuðir á dagvinnulaunum 273 dagar
 18 ár1 mánuður á staðgengilslaunum 2 mánuðir á fullu dagvinnukaupi 2 mánuðir á dagvinnulaunum 360 dagar

Greiðslur í veikindarétti samkvæmt kjarasamningi við ríkið eru með þeim hætti að í fyrstu viku veikinda- eða slysaforfalla greiðast auk mánaðarlauna fastar greiðslur svo sem fyrir yfirvinnu og vaktaálag og greiðslur fyrir eyður í vinnutíma enda sé um að ræða fyrirfram ákveðinn vinnutíma. Eftir fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla eða þann tíma sem svarar til einnar viku vinnuskyldu starfsmanns, skal hann auk framangreindra launa fá greitt meðaltal þeirra yfirvinnustunda sem hann fékk greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu.

Við réttindi ríkisstarfsmannanna bætist réttur til mánaðarlauna í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Þeir sem unnið hafa í 12 ár eða lengur njóta þeirra viðbótar þó ekki.

Forfallist starfsmenn á almennum vinnumarkaði af völdum slyss við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu eða veikist af atvinnusjúkdómi skulu þeir með sambærilegum hætti og ríkisstarfsmenn njóta sjálfstæðs réttar til dagvinnulauna í þrjá mánuði. Þá njóta starfsmenn ríkisins sem ráðnir eru í afleysingu eða tímavinnu betri réttinda en sambærilegir starfsmenn á almenna markaðnum.

Veikindaréttur foreldra vegna barna undir 13 ára aldri er sambærilegur eða 12 vinnudagar á ári og skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag.

Sjúkrasjóðir

Á hinum almenna vinnumarkaði, þar sem veikindaréttur er minni en á opinbera vinnumarkaðnum, hafa félagsmenn stéttarfélaganna aðgang að öflugum sjúkrasjóðum. Sjúkrasjóðirnir á almenna vinnumarkaðnum gegna lykilhlutverki við að tryggja félagsmönnum fjárhagslegan stuðning vegna veikinda og slysa sem þeir verða fyrir þegar veikindaréttur þeirra samkvæmt kjarasamningum hefur verið tæmdur.

Í 6. gr. starfskjaralaga nr. 55/1980 segir að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Í lögum nr. 19/1979 segir síðan að atvinnurekendur skuli greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum en sú er almennt ekki raunin.

Í lögum ASÍ, Xll kafla, hafa verið sett lágmarksákvæði fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ. Þau má sjá nánar hér.

Þrátt fyrir betri veikindarétt opinberra starfsmanna starfrækja stéttarfélög þeirra þó styrktar- og sjúkrasjóði. Það hlutfall sem hið opinbera greiðir í styrktar- og sjúkrasjóði fyrir starfsmenn sína er nokkuð lægra en vegna starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum eða á bilinu 0,3-0,75% af launagreiðslum.

Þeir starfsmenn hins opinbera sem eru félagsmenn í almennu stéttarfélögunum fá þannig greitt lægra hlutfall af launum sínum í sjúkrasjóði en samfélagsmenn þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Þá er að finna í reglugerðum styrktar- og sjúkrasjóðanna reglur um að þeir félagsmenn sem greitt er af lægra hlutfall en 1% af launum til sjóðsins eigi skemmri rétt til greiðslu dagpeninga.

• Veikindaréttur á almennum vinnumarkaði er lakari en á opinberum vinnumarkaði. Eftir t.d. eitt ár í starfi á starfsmaður á almennum vinnumarkaði eins mánaðar veikindarétt. Starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði hafa þó aðgang að öflugum sjúkrasjóðum stéttarfélaganna en atvinnurekendur greiða 1% af útborguðu kaupi í sjúkrasjóði viðkomandi stéttarfélaga.

• Starfsmenn á opinberum vinnumarkaði hafa mun betri veikindarétt en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Eftir t.d. eitt ár  í starfi á starfsmaður hjá hinu opinbera rétt á 133 veikindadögum. Hið opinbera greiðir á bilinu 0,3-0,75% í styrktar- og sjúkrasjóði opinberra starfsmanna.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn