Tilskipun ráðsins nr. 97/81/EB frá 15. desember 1997 um rammasamning um hlutastörf sem Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) stóðu að. ( Samningur ETUC, UNICE og CEEP er birtur með tilskipuninni og er hluti hennar. )
Sjá einnig tilskipun nr. 98/23/EB frá 7. apríl 1998 um útvíkkun á tilskipun 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf sem UNICE, CEEP og ETUC stóðu að, þannig að hún taki einnig til hins Sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.
Fullgilding hér á landi:
Kjarasamningur ASÍ/SA 13. desember 2002 um hlutastörf.
Lög um starfsmenn í hlutastörfum nr. 10/2004.
Markmið og gildissvið. Markmið þessarar tilskipunar er að koma í framkvæmd rammasamningnum um hlutastörf sem var gerður 6. júní 1997 milli UNICE, CEEP og ETUC.
Markmið samningsins er að vinna gegn mismunun starfsfólks í hlutastarfi og stuðla að auknum gæðum hlutastarfa og að greiða fyrir þróun hlutastarfa að frjálsu vali launafólks og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma, þannig að bæði sé tekið tillit til þarfa atvinnurekanda og launafólks.
Kveðið er á um að starfsmenn í hlutastarfi skuli að því er starfsskilyrði varðar ekki búa við lakari kjör en starfsmenn í sambærilegu fullu starfi af þeirri ástæðu einni að þeir eru í hlutastarfi, nema mismunandi kjör séu réttlætanleg af hlutlægum orsökum.
_______________________________________________________EFTA-dómstóllinn
Málum er varða túlkun þessarar tilskipunar hefur enn sem komið er ekki verið vísað til EFTA-dómstólsins.
Evrópudómstóllinn
Jöfn meðferð hlutavinnustarfsmanna og starfsmanna í fullu starfi – Jöfn meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði
C-313/02. 12. október 2004. Wippel.
Nicole Wippel var ráðin í hlutastarf skv. ráðningarsamningi sem kvað á um að vinnuframlag hennar myndi miðast hverju sinni við þarfir atvinnurekanda hennar, Peek & Cloppenburg GmbH & Co. KG (P&C). Vinnutími hennar var m.ö.o. ekki ákveðinn fyrirfram. Samningur þeirra gerði einnig ráð fyrir því að Wippel væri heimilt að hafna tilboði P&C um vinnu. P&C mun hafa gefið Wippel fyrirheit um vinnu í u.þ.b þrjá daga á viku og tvo sunnudaga í mánuði. Frá október 1998 til júní 2000 var vinnutími Wippel hjá P&C óreglulegur og tekjur hennar að sami skapi breytilegar.
Eftir um 2 ára starf höfðaði Wippel mál gegn P&C og krafðist greiðslu vangoldinna launa en upphæð kröfunnar svaraði til mismunarins milli þeirra launa sem hún hefði getað fengið með vísan til reglna um hámarksvinnutíma starfsmanna í fullu starfi og þeirra vinnustunda sem hún vann í raun á þessu tímabili. Þá byggði Wippel mál sitt einnig á því að það jafngilti mismunun í hennar garð á grundvelli kynferðis að í ráðningarsamningi hennar væri ekki mælt fyrir um fastan vinnutíma og skipulag hans.
Evrópudómstóllinn sagði að ráðningarsamband þeirra félli undir gildissvið tilskipunar 76/207/EBE annars vegar og tilskipun um hlutastörf 97/81/EB hins vegar.
Dómstóllinn lagði hins vegar á það áherslu að Wippel hafði haft val um það hvort hún tæki þá vinnu sem P&C bauð henni hverju sinni. Vinnutími starfsmanna í fullu starfi sem og starfsmanna í hlutastarfi væri hins vegar fastmælum bundinn í ráðningarsamningum þeirra. Að mati Evrópudómstólsins var því ekki hægt að sýna fram á að P&C hefði brotið á Wippel í skilningi framangreindra tilskipana, þar sem ekki var hægt að sína fram á að hún hefði verið í sambærilegri stöðu og starfsmenn með fastan vinnutíma skv. ráðningarsamningi.
Ráðningarsamningur starfsmanna í fullu starfi kvað á um 38,5 stunda vinnuviku og um skyldu hlutaðeigandi starfsmanns til að inna af hendi þau störf sem atvinnurekandi fæli þeim allan þann vinnutíma. Ráðningarsamband starfsmanns í fullu starfi væri því annars eðlis en sá samningur sem Wippel gerði við sama atvinnurekanda.
Vernd gegn uppsögnum
Í málinu var tekist á um gildi lagaákvæðis sem heimilaði atvinnurekanda að ákveða einhliða að starfsmaður sem var í hlutastarfi sem unnið var 3 daga vikunnar skyldi færast í fullt starf alla daga vikunnar. Starfsmaðurinn hélt því fram að tilskipunin bannaði einhliða breytingu starfshlutfalls en dómstóllinn taldi það hvorki andstætt 2.mgr. 5.gr. samnings aðila vinnumarkaðarins, sem efnislega er samhljóða 3.mgr. 4.gr. laga nr. 10/2004 sem innleiddi tilskipun 97/81/EB en þar segir: „Það telst ekki eitt og sér gild ástæða uppsagnar að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf eða öfugt. Uppsögn telst þó ekki andstæð lögum þessum ef hún er í samræmi við lög, kjarasamninga eða venju og stafar af öðrum ástæðum, svo sem rekstrarþörfum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.“