VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Vinnuvernd

Tilskipun ráðsins 89/391/EBE  frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, svokölluð rammatilskipun, leggur grunninn að stefnu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði öryggi og hollustu starfsmanna á vinnustöðum.

Ákvæði tilskipunarinnar og sértilskipana sem settar hafa verið á grundvelli hennar hafa verið innleiddar með lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerðum.

Markmið

Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna. Í því skyni eru settar fram almennar meginreglur um forvarnir gegn áhættu við störf, verndun öryggis og heilsu, útilokun þeirra þátta er bjóða hættu heim eða valda slysum, upplýsingar og samráð við starfsmenn, eðlilega þátttöku í samræmi við landslög og/eða venjur og þjálfun starfsmanna og fulltrúa þeirra, svo og almennar viðmiðanir við framkvæmd téðra meginreglna.

Gildissvið

Tilskipunin gildir um alla starfsemi á vegum hins opinbera eða einkaaðila (iðnað, landbúnað, verslun, stjórnun, þjónustu, menntun, menningarstarfsemi, frístundaiðju o.s.frv.). Tilskipun gildir þó ekki í þeim tilvikum þegar sérstakar aðstæður tengdar tiltekinni starfsemi hins opinbera, svo sem lögreglu eða tiltekinni starfsemi á sviði almannavarna, stangast ótvírætt á við hana.

Kostnaður

Kostnaður af ráðstöfunum er tengjast öryggi, hollustuháttum og heilbrigði á vinnustöðum má ekki undir neinum kringumstæðum leggjast á starfsmenn.

Skyldur vinnuveitanda

Samkvæmt tilskipuninni eru helstu skyldur vinnuveitanda; 
• að tryggja öryggi og hollustu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu, á grundvelli almennra meginreglna um forvarnir,
• að meta þá áhættu sem tekin er hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna, meðal annars með vali á tækjum, og veita viðeigandi verndar- og forvarnarráðstafanir,
• taka saman skýrslur um vinnuslys sem starfsmenn hans verða fyrir,
• gera nauðsynlegar ráðstafanir til skyndihjálpar, slökkvistarfs og brottflutnings starfsmanna, vegna bráðrar og óhjákvæmilegrar hættu,
• að veita starfsmönnum upplýsingar, hafa við þá samráð og heimila þeim að taka þátt í umræðum um öll mál er tengjast öryggi og hollustu á vinnustöðum og
• að tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun að því er varðar öryggi og hollustu.

Ábyrgð starfsmanna

Sérhver starfsmaður er ábyrgur fyrir því að gæta eigin öryggis og heilsu eftir því sem hann hefur tök á, svo og annarra einstaklinga sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi á vinnustað snertir, í samræmi við þjálfun hans og fyrirmæli þau er vinnuveitandi hefur gefið honum. Í þessu skyni ber starfsmönnum einkum, í samræmi við þjálfun sína og fyrirmæli þau er vinnuveitandi hefur gefið, að gæta þess: 
• að nota vélar, tæki, verkfæri og persónuhlífar á réttan hátt,
• að upplýsa vinnuveitanda án tafar um allar aðstæður við vinnu þar sem ljóst má telja að öryggi og heilsu sé bráð hætta búin og um alla ágalla á fyrirkomulagi sem ætlað er til verndar og
• að hafa samstarf við vinnuveitanda svo lengi sem þörf kann að vera á til að vinnuveitandi geti tryggt öruggt vinnuumhverfi og vinnuskilyrði svo að öryggi og heilsu starfsmanna sé engin hætta búin á athafnasvæði þeirra.

Sértilskipanir

Í 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að ráðið skuli, að fenginni tillögu framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt 118. gr. a  Rs., samþykkja sértilskipanir, meðal annars á þeim sviðum sem talin eru upp í viðauka með tilskipuninni.  Ákvæði tilskipunarinnar  gilda að öllu leyti á þeim sviðum sem sértilskipanirnar taka til, samanber þó strangari og/eða sérhæfðari ákvæði sem sértilskipanirnar hafa að geyma.

Sértilskipanir samkvæmt 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar eru í dag 15 talsins:
  1. Tilskipun 89/654/EBE um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu á vinnustöðum (fyrsta sértilskipun).
  2. Tilskipun 89/655/EBE um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota tæki á vinnustöðum (önnur sértilskipun).
  3. Tilskipun 89/656/EBE um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota persónuhlífar á vinnustöðum (þriðja sértilskipun).
  4. Tilskipun 90/269/EBE um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar og hætta er á að starfsmenn verði fyrir bakmeiðslum (fjórða sértilskipun).
  5. Tilskipun 90/270/EBE um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu við skjávinnu (fimmta sértilskipun).
  6. Tilskipun 90/394/EBE um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum á vinnustað (sjötta sértilskipun).
  7. Tilskipun 2000/54/EB um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum (sjöunda sértilskipun)
  8. Tilskipun 92/57/EBE um framkvæmd lágmarkskrafna um öryggi og hollustuhætti á bráðabirgða- eða færanlegum byggingarsvæðum (áttunda sértilskipun),
  9. Tilskipun 92/58/EBE um lágmarkskröfur um uppsetningu öryggis- og heilbrigðismerkja á vinnustöðum (níunda sértilskipun).
  10. Tilskipun 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti (tíunda sértilskipun).
  11. Tilskipun 92/91/EBE um lágmarkskröfur um umbætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi með borunum (ellefta sértilskipun).
  12. Tilskipun 92/104/EBE um lágmarkskröfur um bætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi á yfirborði jarðar eða neðanjarðar (tólfta sértilskipun).
  13. Tilskipun 93/103/EB um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum (þrettánda sértilskipun).
  14. Tilskipun 98/24/EB um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað (fjórtánda sértilskipun).
  15. Tilskipun 1999/92/EB um lágmarkskröfur hvað varðar bætt öryggi og heilsuvernd starfsmanna sem eru hugsanlega í sprengihættu (fimmtánda sértilskipun).
VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn