VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Landfræðilegt gildissvið

Þegar fjallað er um gildissvið kjarasamnings þarf að huga að landfræðilegu gildi hans. Nær kjarasamningurinn um allt landið, eða tekur hann einungis til tiltekins landshluta eða jafnvel einstaks vinnustaðar? Landfræðilegt gildissvið kjarasamnings byggist yfirleitt á starfssvæði þess stéttarfélags, sem hann gerir. Í lögum félaganna er kveðið á um félagssvæði þeirra. Landinu er þannig skipt upp milli einstakra stéttarfélaga, sem semja hvert um sig. Samkvæmt niðurlagsákvæði 2. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur má félagssvæði aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.

Við sameiningu sveitarfélaga hefur sú spurning vaknað hvort hún leiði jafnframt til sameiningar stéttarfélaga. Sameining sveitarfélaga leiðir ekki sjálfkrafa til sameiningar stéttarfélaga, en stéttarfélögin þurfa þó að minnsta kosti að breyta samþykktum sínum hvað félagssvæði varðar og deila eftir það félagssvæðinu og forgangsrétti til starfa. 

Landið allt

Nokkur félög eru landsfélög. Með öðrum orðum er félagssvæði þeirra landið allt. Dæmi um slík félög eru flest félög háskólafólks, Mjólkurfræðingafélag Íslands, Félag bókagerðarmanna, Flugfreyjufélag Íslands og Félag leiðsögumanna. Þeir kjarasamningar sem þessi félög gera ná þá til þessara starfa, hvar á landinu sem störfin eru unnin.

Ákveðnir landshlutar og sveitarfélög

Félagssvæði flestra stéttarfélaga miðast við afmörkuð landssvæði og eitt eða fleiri heil sveitarfélög. Félagssvæði kunna þannig að vera tilgreind sem kaupstaðir, tilteknir hreppar, öll sveitarfélög tiltekinnar sýslu og svo framvegis. Áður þekktist að félagssvæði næðu auk kaupstaðarins að tilteknum kennileitum, sem ekki greindu að hreppa en svo er ekki lengur og félagssvæði stéttarfélaga því ætíð skipulögð m.v. heil sveitarfélög. Þeir kjarasamningar sem stéttarfélögin gera ná til starfa sem unnin eru á félagssvæðinu. Landinu er þannig skipt upp á milli aðildarfélaga í ASÍ. Þar sem einu félagi sleppir tekur félagssvæði hins næsta við.  

Samkvæmt lögum ASÍ er óheimilt að binda rétt til inngöngu í stéttarfélag við búsetu en slíkt tíðkaðist fram eftir 20 öldinni. Starfi maður á félagssvæði annars félags fer um kjör hans eftir þeim kjarasamningi sem gildir á svæðinu þar sem hann starfar. Iðgjöldum er skilað til þess félags sem gerir þann kjarasamning sem hann starfar eftir.  

Í 15.gr. laga ASÍ segir að þar sem samningssvið tveggja eða fleiri aðildarfélaga skarast, er þeim skylt að gera með sér samkomulag um samningssviðið. Náist ekki samkomulag er aðildarfélagi heimilt að leggja ágreininginn fyrir miðstjórn, sbr. 10. gr. Allar breytingar á lögum einstakra félaga þurfa staðfestingu miðstjórnar ASÍ áður en þær taka gildi. Ákvæði um starfssvæði félaganna eru þá sérstaklega athuguð svo ekki komi til árekstra milli félaga.
 

Einstakur vinnustaður

Kjarasamningar eru einnig gerðir um tiltekna vinnustaði. Eru það sérkjarasamningar, sem þau stéttarfélög sem eiga félagsmenn sem starfa á vinnustaðnum, gera við viðsemjendur. Ýmist eru slíkir sérsamningar algerlega sjálfstæðir, svo sem dæmi eru um hjá Íslenska Álfélaginu eða að þeir kveða aðeins á um tiltekin afmörkuð atriði og um aðra þætti er síðan vísað í almennu samningana sem gilda á svæðinu.

Útlendingar

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 skulu þeir útlendingar sem hér hafa gilt atvinnuleyfi hafa gert ráðningarsamning sem tryggi þeim laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn.

Þegar Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 1. janúar 1994 tóku gildi lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lög nr. 47/1993. Með lögunum er reglugerð nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins fengið lagagildi hér á landi. Samkvæmt reglugerðinni skal sérhver ríkisborgari EES ríkis, óháð búsetu, hafa rétt til að ráða sig til vinnu sem launþegi og rækja það starf á yfirráðasvæði annars EES ríkis í samræmi við þau ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er taka til atvinnumála ríkisborgara aðildarríkisins. Hann skal meðal annars njóta þeirra réttinda að ráða sig til vinnu á yfirráðasvæði annars EES ríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar er ekki heimilt að láta launþega, sem er ríkisborgari annars EES ríkis en þess sem hann starfar í, gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu. Hann skal njóta sömu félagslegra réttinda og skattaívilnana og innlendir launþegar. Hann skal einnig í krafti sama réttar og með sömu skilyrðum hafa sama aðgang og innlendir launþegar að þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífinu og endurmenntunarstöðvum. Öll ákvæði í kjarasamningum eða ráðningarsamningum eða öðrum almennum reglugerðum sem varða aðgang að atvinnu og öll önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði eru ógild og að engu hafandi að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launþega sem eru ríkisborgarar annarra EES ríkja.

Lögin kveða með öðrum orðum á um það að kjarasamningar hér á landi tryggi íbúum EES ríkja sem hér starfa lágmarkskjör. Sérstök þríhliða nefnd skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og félagsmálaráðuneytisins hefur eftirlit með framkvæmd laganna um frjálsan atvinnu- og búseturétt og getur nefndin beint tilmælum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Nefndinni er heimilt undir ákveðnum kringumstæðum að fara með ágreiningsefni fyrir dómstóla.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn