Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar er lögfest með 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993: „Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.“ Af þessari reglu eru stjórnvöld bundin þegar þau taka stjórnvaldsákvörðun. Stjórnvaldsákvörðun er m.a. í vinnuréttarlegu tilliti ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra. Tekið skal fram að ákvæðið bannar ekki mismunun, heldur kveður hún á um bann við mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða.