Fæðingarorlof er sá tími sem foreldrum er tryggður til þess að vera með barni sínu á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu þess. Þetta er leyfi frá launuðum störfum, hvort sem unnið er í þágu annarra, eða við eigin rekstur svo fremi sem viðkomandi standi skil á tryggingargjaldi.
Réttur til fæðingarorlofs stofnast hjá foreldri við fæðingu barns, frumættleiðingu barns eða við töku barns í varanlegt fóstur að átta ára aldri. Foreldrum er tryggður réttur til sex mánaða fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig, en er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
Greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi eru tekjutengdar og eru reiknaðar sem 80% af meðaltali heildarlauna sem miðast við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. .
Um greiðslur til fólks sem ekki er á vinnumarkaði, þ.m.t. námsmanna, gilda sérstakar reglur.