Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks o.fl. nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags skv. þeim reglum sem kjarasamningar greina. Í kjarasamningum eru síðan ákvæði um skil félagsgjalda. Svo dæmi sé tekið þá segir í grein 11.1 í aðalkjarasamningi SGS/SA, að vinnuveitendur taki að sér innheimtu félagsgjalda aðal- og aukafélaga viðkomandi verkalýðsfélags í samræmi við reglur félagsins, hvort sem um er að ræða hlutfall af launum eða fast gjald. Þessum gjöldum sé skilað mánaðarlega til félagsins og er eindagi 15. næsta mánaðar á eftir. Stundum er deilt um það hvort afdráttur iðgjalds til stéttarfélaga feli í sér ólögmæta skylduaðild. Nánar er um þau efni fjallað í kaflanum „Félagsgjöld„.