Vegna aðildar Íslands að EES-samningnum þurfti að innleiða hér á landi ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins á sviði vinnuréttar. Þá og einnig eftir það hafa félagslegir trúnaðarmenn stéttarfélaganna fengið þau hlutverk sem fulltrúum starfsmanna er ætlað skv. þeim. Í þessum kafla er fjallað um nokkur dæmi þess án þess að um tæmandi talningu sé að ræða.
Hópuppsagnir
Í lögum um hópuppsagnir nr. 63/2000 er kveðið á um að áformi atvinnurekandi hópuppsagnir skuli hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið svo fljótt sem auðið er í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að áform hans komi til framkvæmda eða a.m.k. til að fækka í þeim hópi starfsmanna sem verður fyrir uppsögn.
Aðilaskipti að fyrirtækjum
Í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 er kveðið á um að ráðningarsamningar starfsmanna skuli flytjast sjálfkrafa yfir til þess aðila sem yfirtekur með samningi þann rekstur sem fyrri atvinnurekandi hlutaðeigandi starfsmanna bar ábyrgð á. Slík yfirtaka getur átt sér stað með sölu eða leigu á fyrirtæki, samruna fyrirtækja, útvistun verkefna o.s.frv.
Samkvæmt lögunum ber atvinnurekanda að tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna með góðum fyrirvara um það hvenær aðilaskiptin muni eiga sér stað, ástæður þeirra og hvaða áhrif þau munu hafa á hagsmuni og stöðu starfsmanna. Ef atvinnurekandi hefur í huga að gera tilteknar ráðstafanir af þessum tilefni vegna starfsmanna ber honum að hafa samráð við trúnaðarmann í því skyni að ná samkomulagi um þær ráðstafanir. Samráð skal hafa með góðum fyrirvara og áður en fyrirhugaðar ráðstafanir koma til framkvæmda. Samkvæmt lögunum hvílir þessi upplýsinga- og samráðsskylda á þeim atvinnurekanda sem framselur sinn atvinnurekstur en einnig þeim sem yfirtekur þann rekstur.
Almenn lög um upplýsingar og samráð
Samkvæmt lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum er atvinnurekendum uppálagt að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um þætti er varða nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækis þeirra, stöðu og horfur í atvinnumálum og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað.
Hið sama gildir um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þ.m.t. ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir. Skulu þessar upplýsingar veittar á þeim tíma, á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúar starfsmanna geti hafið viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf.
Fulltrúum starfsmanna skal síðan gefast kostur á samráði með því að eiga fund með atvinnurekanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt skal atvinnurekandi gera fulltrúum starfsmanna grein fyrir ástæðum viðbragða sinna.
Lögin gera ráð fyrir því að með kjarasamningum eða samningum milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna megi kveða nánar á um tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja.
Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða takmarkaðist gildissvið laganna fram til 1. mars 2008 við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Eftir þann tíma miðast gildissvið laganna við fyrirtæki með að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn.
Upplýsingar og samráð í fyrirtækjum skv. lögum nr. 151/2006
Eftirfarandi byggir á sameiginlegri vinnu ASÍ og SA í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2007
Hvaða rétt á starfsfólk til upplýsinga og samráðs um hag og horfur atvinnurekanda?
Samkvæmt lögum nr. 151/2006 um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, á starfsfólk í fyrirtækjum á Íslandi sem telja 50 starfsmenn eða fleiri, rétt á upplýsingum frá sínum atvinnurekanda um eftirfarandi:
- Nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins
- Stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað.
- Ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, t.d. vegna hugsanlegum aðilaskiptum og/eða hópuppsagna.
Hvernig fer upplýsingagjöfin og samráðið fram?
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gert með sér samkomulag um hvernig fyrirkomulagi, forsvari og öðrum þáttum upplýsingagjafarinnar og samráðsins skuli háttað. Samkvæmt framangreindu skal upplýsingagjöfin og samráðið innan þeirra fyrirtækja sem falla undir gildissvið nefndra laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, fara fram í svokallaðri samstarfsnefnd fyrirtækis og starfsmanna.
Hvað er samstarfsnefnd í ofangreindum skilningi?
Samstarfsnefnd er skipuð tveimur fulltrúum frá atvinnurekanda og tveimur fulltrúum starfsfólks sem skulu valdir til tveggja ára úr hópi trúnaðarmanna og/eða kosnir úr hópi starfsfólks. Hlutverk hennar er eins og áður segir að taka við og miðla upplýsingum og vera vettvangur samráðs um ofangreind atriði.
Hvernig virkar þetta í framkvæmd?
Þegar starfsfólk hefur valið sér fulltrúa í samstarfsnefnd skal atvinnurekanda kynnt hverjir fulltrúarnir eru. Atvinnurekandi ber svo ábyrgð á því í gegnum sína fulltrúa í samstarfsnefndinni að hún sé kölluð saman þegar við á. Samstarfsnefndin skal þó kölluð saman að lágmarki tvisvar sinnum á ári.
Hvað ef upp kemur vandamál eða ágreiningur?
Samráðsnefnd skipuð fulltrúum ASÍ og SA er starfrækt og er henni ætlað að fjalla um framkvæmd og útfærslu framangreinds. Komi upp ágreiningur skal leita til nefndarinnar. Nánari upplýsingar um nefndina og meðlimi hennar fást á skrifstofum ASÍ og SA.
Evrópsk samstarfsráð (EWC)
Lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum nr. 61/1999 frá árinu 1999 sem lögfest voru hér á landi með vísan til tilskipunar Evrópusambandsins ná til fyrirtækja sem hafa a.m.k. 1000 starfsmenn samtals í ríkjum á EES-svæðinu, með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og með a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra.
Ef þessi skilyrði eru uppfyllt geta fulltrúar starfsmanna eða stéttarfélög fyrir þeirra hönd, í því landi sem telja má að aðalstjórn fyrirtækjasamsteypunnar er staðsett, óskað eftir því að hafnar verði viðræður um stofnun slíks samstarfsráðs. Evrópsk samstarfsráð eru skipuð fulltrúum aðalstjórnar annars vegar og fulltrúum starfsmanna hins vegar frá öllum (eða a.m.k. velflestum) fyrirtækjum samsteypunnar innan Evrópu.
Evrópsk samstarfsráð eru vettvangur fyrir fulltrúa starfsmanna til að hafa áhrif á það hvernig aðalstjórn beitir valdi sínu og áhrifum gagnvart einstökum fyrirtækjum innan samsteypunnar og starfsmönnum þeirra. Af hálfu evrópskrar verkalýðshreyfingar hafa evrópsk samstarfsráð verið skilgreind sem aðferð fyrir launafólk og þeirra samtök til að vinna með fjölþjóðlegum hætti líkt og alþjóðafyrirtækin gera sjálf.
Um rétt og skyldu til stofnunar Evrópskra samstarfsráða í fyrirtækjum skv. lögum nr. 61/1999
Eftirfarandi byggir á sameiginlegri vinnu ASÍ og SA í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2007
Hvaða rétt á starfsfólk hjá alþjóðlegum fyrirtækjum til upplýsinga og samráðs um hag og horfur atvinnurekanda?
Starfsfólk í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum hefur a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra, hefur rétt á því að atvinnurekandi skapi skilyrði fyrir stofnun svokallaðs Evrópsks samstarfsráðs sem er ætlað að miðla upplýsingum til starfsmanna og eiga samráð um málefni fyrirtækisins.
Hvað er Evrópskt samstarfsráð í ofangreindum skilningi?
Evrópskt samstarfsráð er skipað fulltrúum starfsfólks annars vegar og fyrirtækis hins vegar. Samstarfsráðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir fulltrúa starfsfólks til að fá upplýsingar og eiga samráð um málefni fyrirtækis sem starfar í fleiri en einu landi innan EES svæðisins. Samstarfsráð á rétt á fundi með atvinnurekanda a.m.k. einu sinni á ári og skal fyrir fundinn leggja fram skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar ef því er að skipta. Að öðru leyti skal samstarfsráðið eiga rétt á upplýsingum um eftirfarandi málefni fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu:
- Uppbyggingu
- Efnahags- og fjárhagslega stöðu
- Líklega þróun hvað varðar rekstur
- Framleiðslu og sölu
- Ástand og horfur í atvinnumálum
- Fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi
- Tilkomu nýrra starfs- eða framleiðsluaðferða
- Flutning framleiðslu
- Samruna fyrirtækja
- Annað sem verulegu máli skiptir um hag atvinnurekanda
Auk þess skal samstarfsráðið eiga rétt á því að fá upplýsingar um skyndilegar sérstakar aðstæður sem upp koma um framangreint.
Almenn trúnaðarskylda skal ríkja á milli fulltrúa í samstarfsráði og atvinnurekanda og er heimilt að leggja þagnarskyldu á meðlimi samstarfsráðs sem skulu á móti njóta sömu verndar í starfi og trúnaðarmenn stéttarfélaga skv. lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Hvernig skal standa að stofnun Evrópsks samstarfsráðs?
Samkvæmt lögum um Evrópsk samstarfsráð ber atvinnurekandi ábyrgð á því að nauðsynleg skilyrði fyrir stofnun samstarfsráðs séu fyrir hendi og skal í því ljósi eiga frumkvæði að því að samningaumleitanir um stofnun samstarfsráðs eða vinna við setningu reglna um upplýsingamiðlun hefjist. Í beinu framhaldi skal svo atvinnurekandi skipa sérstakt samningaráð sem skal vinna að framangreindu markmiði um að koma á formfestu í upplýsingamiðlun og samráðsmálum og greiðir atvinnurekandi kostnað við störf samningaráðsins.
Hvernig virkar þetta í framkvæmd?
Þegar Evrópskt samstarfsráð hefur verið stofnað eru tvær leiðir sem hægt er að fara í að marka upplýsingamiðluninni og samráðinu formlegt ferli.
- Upplýsingamiðlunin og samráðið fer fram samkvæmt efni samnings sem hið sérstaka samningaráð gerir. Samningur þessi skal skilgreina hlutverk, skyldur og réttindi allra viðkomandi aðila. Jafnframt skal hann kveða á um hvaða upplýsingar skal veita og hvernig þær eru veittar.
- Upplýsingamiðlunin og samráðið fer fram samkvæmt þeim reglum sem settar eru fram í IV. kafla laganna um Evrópsk samstarfsráð. Einungis skal notast við þennan kafla ef 1) hið sérstaka samningaráð og atvinnurekandi koma sér saman um það; 2) atvinnurekandi sinnir ekki beiðni um að samstarfsráð skuli stofnað; 3) ekki næst samkomulag um inntak samnings um verklag upplýsingamiðlunar og samráðs.
Fellur fyrirtækið sem ég starfa hjá undir gildissvið laganna um Evrópsk samstarfsráð?
Gildissvið laganna takmarkast við fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem hafa yfir 1.000 starfsmenn og a.m.k. 150 starfsmenn í tveimur EES löndum. Sértu í vafa um þinn atvinnurekanda skaltu leita til þíns stéttarfélags sem getur hlutast til að útvega nauðsynlegar upplýsingar.