Réttur launafólks til launa og skaðabóta vegna slysa er mikilvægur og margþættur réttur. Hann er að hluta byggður á vinnuréttarlegu sambandi launamanns og atvinnurekanda líkt og á við um veikindaréttinn, en hann byggir einnig á almennum reglum skaðabótaréttarins.
Þegar fjallað er um slysaréttinn innan vinnuréttarins þá er að jafnaði verið að fjalla um slys þar sem atvinnurekanda eða mönnum sem hann ber ábyrgð á er ekki um slysið að kenna, hvorki að hluta eða alveg þ.e. hann tekur til slysa sem verða á vinnutíma starfsmanna þar sem þeir eru staddir vegna vinnunnar eða á leið til eða frá vinnu. Slysin þurfa því ekki að tengjast framkvæmd vinnunnar eða vera af völdum hennar. Slysarétturinn er því t.d. virkur vegna starfsmanna í fjarvinnu sem inna vinnuskyldu sína af hendi á heimili sínu. Á þessum vefhluta er hugtakið „almenn slys við vinnu“ notað um þessi vinnuslys. Í megin atriðum er réttur vegna slíkra slysa sá hinn sami og réttur vegna veikinda en nokkru samt bætt við. Lágmarksréttindi eru tilgreind í 4-6.gr. laga nr. 19/1979. Í kjarasamningum hafa þessi réttindi verið aukin og ekki gerður greinarmunur á fastráðnum starfsmönnum og starfsmönnum á fyrsta ári.
Allt aðrar reglur taka hins vegar við þegar um slys er að ræða sem rekja má til sakar atvinnurekanda eða manna sem hann ber ábyrgð á. Þá taka við almennar reglur skaðabótaréttarins og skaðabótalög nr. 50/1993. Skaðabætur vegna skaðabótaskyldra vinnuslysa eru allt aðrar og mun hærri en bætur vegna fyrrnefndu slysanna og ekki annað ráðlegt en að launamaður njóti aðstoðar stéttarfélags síns og lögfræðinga þeirra þegar um þau er vélað. Þá ber einnig að hafa í huga, að mjög erfitt getur verið að leggja mat á það hvort um skaðabótaskylt vinnuslys er að ræða eða ekki. Af þeim ástæðum er alltaf skynsamlegt að leita sér aðstoðar vegna slysa sem eiga sér stað við vinnu. Um skaðabótaskyldu vinnuslysin er fjallað á þessum vefhluta með því að rekja og flokka saman dóma sem varða skaðabótaskyld vinnuslys en fræðileg umfjöllun á betur heima í skaðabótarétti en vinnurétti.
Hafa ber í huga að hér er einungis gefin mynd af helstu réttindum launafólks vegna slysa sem leiða má af almennum kjarasamningum og almennum skaðabótareglum. Yfirlit þessa kafla er því ekki tæmandi auk þess sem bótaákvæði kjarasamninga eru ekki öll eins. Bótaréttur getur einnig verið til staðar innan almannatryggingakerfisins og í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. Jafnframt er ekki fjallað um útreikning og uppgjör skaðabóta skv. skaðabótalögum en þau geta verið flókin og alls ekki gefið hvernig túlka beri eða beita einstökum ákvæðum laganna. Það á t.d. um viðmiðunartímabil atvinnutekna fyrir slys sbr. HRD 482/2014 þar sem tekist var á um viðmiðunartímabil atvinnutekna og bætur þrefaldaðar með dómi Hæstaréttar. Það getur einnig átt við um við hvaða tekjur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði eigi að miða sbr. t.d. HRD 460/2016 þar sem deilt var um fjárhæð tjóns út frá því hvort síðustu 3 ár fyrir slys gæfu rétta mynd af tapi til framtíðar. Í málinu var talið að við ákvörðun viðmiðunarlauna að launamaðurinn hefði haft nægileg skipstjórnarréttindi og verið kominn nægjanlega nálægt námslokum til fullra vélstjórnarréttinda að miða bæri við meðallaun skip- og vélstjórnarmanna. Þá var talið að sú vinna sem hann hefði verið að leita sér að og fengið vilyrði fyrir hafi stutt það að framtíðarstarfsvettvangur hans hefði verið á sjó á öðrum skipum en hvalaskoðunarbátum sem hann hefði áður unnið fyrir og tryggingafélagið vildi miða laun hans við.