Við upphaf orlofstöku
Samkvæmt 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 ber launagreiðendum að greiða launafólki orlofslaun næsta virkan dag fyrir töku orlofs. Þannig er tryggt að launamaður hafi fengið í hendur orlofsgreiðsluna áður en hann fer í frí. Þessi regla er ekki án undantekninga og eru þær raktar í orlofslögum.
Samkvæmt samningi við banka og sparisjóði
Hafi verið gerður sérstakur þríhliða samningur milli launagreiðanda, stéttarfélags og banka um vörslu orlofs í bankanum greiðir bankinn orlofið út í upphafi orlofstímabils. Það fer eftir ákvæðum samninganna hvenær nákvæmlega orlofið, innstæðan á orlofsreikningunum, er greidd út. Algengt er að samið sé um greiðslu orlofs um miðjan maí eða þegar launamaður hyggst fara í orlof. Þessir samningar ná ýmist til allra orlofslauna fólks eða einungis til orlofs af yfirvinnu.
Orlof greitt í formi mánaðarlauna
Samkvæmt 4.mgr. 7.gr. orlofslaga er heimilt að greiða mánaðarkaupsfólki orlofslaun á sama gjalddaga og reglubundnar launagreiðslur fara fram. Meirihluti starfsmanna sem er á mánaðarlaunum á vinnustað verður þá að hafa samþykkt að orlofslaun greiðist á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur. Þá fær fólkið orlofslaunin sín greidd á sama tíma og það fær kaupið sitt venjulega greitt þótt það sé í orlofi.
Dæmi:
Maður fer í orlof 15. júní. Þann 1. júlí fær hann laun greidd sem að hluta eru laun vegna vinnu fyrri hluta júní og að hluta orlofslaun. Þann 1. ágúst fær hann aftur greidd laun þótt hann hafi verið í burtu í orlofi meiri hluta júlímánaðar.
Nokkuð hefur borið á því að þetta ákvæði hafi verið misskilið þannig að menn hafi talið að hægt sé að greiða mánaðarkaupsfólki orlofslaun út með öðrum launum jafnóðum allt árið. Slíkt er ekki heimilt og fer gegn markmiðum orlofslaga. Meginregla orlofslaga nr. 30/1987 er sú að orlof skal greiða launamanni þá er hann fer í orlof. Þessi regla hefur verið í lögum um orlof frá upphafi. Í lögum og greinargerð með fyrstu orlofslögunum sem í gildi gengu 15. maí 1942 sagði: “… (4.gr. 4.mgr.) Kaup fyrir orlofsdagana skulu þeir fá greitt næsta virkan dag áður en orlof hefst.” Í greinargerð segir: “Alþingi [hefur] viðurkennt nauðsyn þess, að vinnandi fólk til sjávar og sveita fái hæfilega hvíld frá störfum vissan tíma í einu með vissu tímabili …. óumdeilda þýðingu hefur það, að fólk fái greitt kaup, meðan það er í orlofi...” Ákvæði laganna frá 1971 og 1987 eru samhljóða hvað þetta varðar. Í 3.mgr. 7.gr. gildandi orlofslaga segir síðan að „Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs …. „ Frá þessari meginreglu voru tvær undantekningar. Hin fyrri var í 2.mgr. 6.gr. orlofslaganna og fjallaði um greiðslu orlofs til þeirra sem ekki geta farið í orlof á orlofstíma vegna veikinda. Þessi regla var felld úr gildi með 1.gr. l. 133/2011 og skal nú veita orlof á öðrum tíma en þó eins fljótt og hægt er eftir að veikindum líkur. Hin síðari var og er í 8.gr. orlofslaganna en þar segir að launagreiðandi skuli greiða launamanni út áunnin orlofslaun við slit ráðningarsamnings.
Við starfslok
Við starfslok á launafólk rétt á að fá áunnin orlofslaun sín uppgerð skv. 8. gr. orlofslaga og þarf ekki að bíða til loka orlofsárs eða næsta orlofs eftir greiðslu. Gildir þetta jafnt um skólanemendur og aðra sem hætta störfum hjá vinnuveitanda. Ef gerður hefur verið samningur við banka um vörslu orlofslauna fer það eftir samningnum hvort heimilt er að greiða orlofsinnstæðuna út undir þessum kringumstæðum. Nokkrir bankar hafa þó litið svo á að rétt sé að greiða út innstæður þegar starfslok verða þótt slíkt sé ekki beinlínis tekið fram í samningi.