Samþykktir flestra félaga hafa að geyma ákvæði um refsingu félaga, hafi þeir til saka unnið að mati félagsins. Stéttarfélög eru hér engin undantekning. Refsing félagsmanna í stéttarfélagi er almennt fyrst áminning. Stundum er einnig heimilt að beita fésektum. Ef sakir eru miklar er heimilt að reka mann úr félagi. Ákvæði um brottrekstur lúta að því að menn séu rækir úr félaginu í lengri eða skemmri tíma fyrir það að hafa unnið gegn hagsmunum félagsins, að hafa bakað félaginu tjón eða gert því eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu. Þessi ákvæði eiga að sjálfsögðu aðeins við um fullgilda félagsmenn stéttarfélaganna.
Réttur manna til inngöngu í stéttarfélög er afdráttarlaus og verndaður meðal annars með skýru ákvæði 2. gr. laga nr. 80/1938. Ef menn fullnægja almennum skilyrðum sem stéttarfélögum er talið heimilt að setja varðar það við lög að meina þeim inngöngu eða tefja hana með einhverjum hætti. Með sama hætti verður brottvikning úr stéttarfélagi að byggja á traustum grunni og telst lögleysa ef svo er ekki. Hagsmunir einstaklingsins til aðildar að stéttarfélagi eru verulegir. Brottrekstur úr félaginu getur þýtt starfsmissi auk alls konar óhagræðis fyrir þann sem fyrir verður, meðal annars synjun um inngöngu í önnur félög, svo sem kveðið er á um í 7. gr. gildandi laga ASÍ (2006). Því verður að gera strangar kröfur til þess að brottvikning geti átt sér stað og að fullkomlega réttmætar ástæður séu til staðar.
Reglur um brottrekstur
Reglur um brottrekstur í félagslögum eru fábrotnar. Þær lúta að því að maður hafi brotið af sér gagnvart félaginu með þeim hætti að réttlæti að honum sé vikið úr félaginu. Hér er fyrst og fremst fjallað um alvarleg brot félagsmanns, sem varðar hann brottvísun en ekki skuld félagsgjalda og réttindamissi og útstrikun á félagaskrá þess vegna. Brottrekstur er aðgerð sem félagið getur gripið til gagnvart félagsmanni í einstökum tilvikum þegar sérstaklega stendur á.
Formreglur
Í samþykktum stéttarfélaga eru almennt ákvæði um að ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skuli málið tekið fyrir á stjórnarfundi, sem ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félaginu með einföldum atkvæðismeirihluta. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.
Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu, á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi. Í lögum einstakra félaga segir að trúnaðarráðsfundur eða ályktunarfær félagsfundur taki ákvörðun um brottvísun og jafnvel að úrskurði félagsfundar verði ekki áfrýjað.
Auk þess sem að framan greinir er ljóst af dómi Félagsdóms 14/1951 (III:178) að nauðsynlegt er að geta þess í fundarboði ef taka á fyrir brottvikningu manns úr félagi. Þar hafði félagsfundur tekið ákvörðun um brottrekstur félagsmanns. Maðurinn höfðaði mál fyrir Félagsdómi og sagði dómurinn að ekki hafi þess verið getið í fundarboði að lögð myndi verða fyrir fundinn tillaga um að víkja manninum úr félaginu. Um fjórðungur félagsmanna mætti á fundinn, og þar sem félagsmönnum gafst þannig samkvæmt þessu ekki færi á því að fá vitneskju um það fyrir fundinn að tillaga um brottvikningu úr félaginu myndi koma til álita og atkvæða á fundinum yrði ekki talið að fundurinn hafi getað, svo gilt væri, vikið manninum úr félaginu. Bæri því þegar af þessari ástæðu að dæma brottvikningu mannsins marklausa og ólögmæta. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brottreksturinn væri brot á 2. gr. laga nr. 80/1938.
Í dómi Félagsdóms 5/1991 (IX:439) er að finna ágreiningsefni svipað þessu. Málsatvik voru þau að Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands hafði auglýst stöðu læknis lausa til umsóknar. Læknafélag Íslands brást þannig við að það birti í riti sínu aðvörun til félagsmanna um að stjórn félagsins gæti vísað manni úr félaginu ef viðkomandi myndi sækja um eða taka við stöðunni. Þá hafði formaður félagsins marglýst því yfir í fjölmiðlum að hver sá læknir sem myndi sækja um stöðuna yrði rekinn úr félaginu. Heilsuhælið höfðaði mál á hendur félaginu fyrir Félagsdómi vegna meints brots þess á 69. gr. stjskr. um atvinnufrelsi og 2. gr. l. nr. 80/1938. Félagsdómur vísaði málinu frá af sjálfsdáðum á þeim grundvelli að hvorki væri um vinnudeilu að ræða né ágreining um skilning á kjarasamningi. Vinnuveitandi gæti ekki lagt fyrir dóminn ágreining við stéttarfélag um félagsréttindi innan þess, auk þess sem það væri almennt utan verkahrings dómsins að fjalla um túlkun á stjórnarskrárákvæðum. Afstaða Félagsdóms hefði væntanlega orðið önnur ef einhver félagsmaður Læknafélagsins hefði höfðað málið gegn félaginu.
Efnisreglur
Í samþykktum stéttarfélaga er áhersla fyrir brottvikningu almennt á fjórum atriðum. Í fyrsta lagi að félagsmaður hafi unnið gegn hagsmunum félagsins. Sjá hér atvik í Félagsdómum 14/1951 (III:178) og 13/1951 (III:185). Í öðru lagi að maður hafi bakað félaginu tjón. Í þriðja lagi að maður hafi gert félaginu eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé. Í fjórða lagi er maður brottrækur úr félagi, sem ekki hlýðir lögum félagsins eftir gefna áminningu í félaginu. Þessi atriði geta einnig farið saman í einstaka máli og verður að vega það og meta hverju sinni hvort efni séu til brottrekstrar félagsmanns.
Heimild til áfrýjunar ákvörðunar um brottrekstur
Almennt er í lögum ákvæði þess efnis að hægt sé að áfrýja ákvörðun um brottrekstur. Hafi stjórn vald til að reka mann, má skjóta þeirri ákvörðun til félagsfundar. Oft eru einnig ákvæði um að úrskurðum félagsfundar um áminningu, fésektir eða brottvísun félagsmanns megi vísa til viðkomandi sérsambands og/eða Alþýðusambands, en úrskurður félagsfundar gildi þar til sambandið ákveður annað. Hér má einnig benda á 10. gr. gildandi laga ASÍ (2006), sem kveður á um að aðildarsamtökin hafi rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem upp kunna að rísa innan eða milli þeirra til miðstjórnar ASÍ.
Sektir eða févíti í stað brottreksturs
Í samþykktum félaga er víða að finna ákvæði um fésektir vegna brota gegn félaginu. Samkvæmt grundvallarreglum í réttarríki fara dómstólar með refsivaldið og refsingu má ekki beita nema hún sé heimiluð í lögum. Dómarar geta því einir lagt sektir á menn samkvæmt skýrum lagaheimildum. Févíti er fjárgreiðsla sem mönnum ber að gjalda láti þeir undir höfuð leggjast að fullnægja tiltekinni skuldbindingu er á þeim hvílir. Févíti verður aðeins beitt samkvæmt samningi þar um, samkvæmt stjórnsýsluákvörðun eða ákvörðun dómara. Því er það ekki alveg augljóst að forsendur fyrir greiðslu fésekta eða févítis vegna brots félagsmanns í félagi séu til staðar nema litið sé svo á að við inngöngu í félag séu menn að gera samning um það meðal annars að gangast undir refsingar.