Um árabil hefur verið lögð áhersla á að uppræta mismunun á grundvelli kynferðis. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 er það sérstakt markmið að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þegar lögin fjalla um kyn, er þar átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Ekki er boðið upp á fleiri skráningarmöguleika í þjóðskrá en skv. lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði nýtur sérhver einstaklingur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til þess að skilgreina kyn sitt og réttar til viðurkenningar því. Þau sem hvorki skilgreina sig sem karl eða konu falla skv. því undir það sem lög 150/2020 kalla hlutlausa skráningu.
Í upphafsákvæði laga nr. 150/2020 segir að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Markmiði þessu skal náð með því að:
a. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
b. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
c. bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
d. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
e. gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
f. efla fræðslu um jafnréttismál,
g. greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,
h. efla rannsóknir í kynjafræðum,
i. vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,
j. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.