Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum, þ.e. vegna veikinda, að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns á hún rétt á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í þann tíma, til viðbótar við hefðbundið fæðingarorlof, en þó ekki lengur en í tvo mánuði. Þetta hefur af hálfu úrskurðarnefndar um fæðingar- og foreldraorlof verið túlkað þannig að eingöngu geti verið um að ræða tvo síðustu mánuðina fyrir töku fæðingarorlofs móður. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði læknis. Umsókn um lengingu fæðingarorlofs skal fylgja staðfesting atvinnurekanda. Auk réttar til lengingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á þunguð kona sem þarf að leggja niður störf vegna veikinda rétt á greiðslum frá atvinnurekanda samkvæmt almennum ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Þá geta einnig komið til greiðslur sjúkradagpeninga frá sjúkrasjóði viðkomandi stéttarfélags og frá Tryggingastofnun ríkisins.