VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Verkbann hjá ríki og sveitarfélögum

Reglur um verkbann eiga einungis við um þá atvinnurekendur sem falla undir lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur þ.e. atvinnurekendur á hinum almenna vinnumarkaði. 

Lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna ná til flestra starfsmanna fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga. 

1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986 veitir þeim stéttarfélögum sem heyra undir lögin verkfallsheimild. Orðrétt segir í ákvæði þessu: Stéttarfélagi, sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum. Í 2. mgr. 14. gr., sbr. lög nr. 67/2000, segir um verkfall í skilningi laga þessara sé að ræða þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.

Sambærilega heimild fyrir atvinnurekendur til að boða verkbann er hins vegar ekki að finna í lögum 94/1986. Ríki og sveitarfélög geta því ekki boðað verkbann á þá starfsmenn sína sem heyra undir lögin.

Um þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem falla undir lög nr. 80/1938 gegnir öðru máli. Ríki og sveitarfélög geta væntanlega þar notfært sér heimildina í II. kafla laganna til að boða verkbann.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn