Í II. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er fjallað um verkföll og verkbönn. Í 14. gr. laganna er kveðið á um það að stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum sé heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett eru í lögum.
Skilgreining
Hugtakið verkbann er ekki skilgreint í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur en samkvæmt skilgreiningu Björns Þ. Guðmundssonar er verkbann það þegar einn eða fleiri atvinnurekendur stöðva vinnu að einhverju leyti eða öllu hjá launþegum sem eiga aðild að einu eða fleiri stéttarfélögum í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Ásmundur G. Vilhjálmsson skilgreinir verkbann sem vinnustöðvun sem nánar tiltekið sé fólgin í því að einn eða fleiri vinnuveitendur segja upp hópi starfsmanna eða neita að taka við vinnuframlagi þeirra að einhverju eða öllu leyti, án þess að uppsögnin eða neitunin eigi rót að rekja til rekstrarsjónarmiða. Óheppilegt er þó að nota hugtakið uppsögn í þessu sambandi, þar sem uppsögn er almennt notað um það þegar ráðningarsamningi er ætlað að ljúka. Verkbann er þannig aðgerð sem atvinnurekandi getur gripið til í kjaradeilu. Venjulega er verkbanni beitt sem mótleik gegn verkfalli af hálfu stéttarfélags.
Segja má að annar kafli laganna um stéttarfélög og vinnudeilur sé saminn með hliðsjón af verkföllum, en ákvæðunum sé síðan ætlað að gilda eftir því sem við á um verkbönn. Verkföll eru margfalt tíðari en verkbönn, og í reynd hefur verkbannsrétti atvinnurekenda lítið verið beitt hér á landi. Meginreglan um vinnustöðvanir er þó reglan um gagnkvæmni, sömu reglur eiga við hvort sem stéttarfélag efnir til verkfalls eða hvort atvinnurekandi boðar verkbann.
Í Félagsdómi 3/2013 var deilt um túlkun hugtaksins verkbann en þar var fjallað um ágreining sem reis um þau tilmæli LÍÚ að beina því með fréttatilkynningu aðildarfélaga sinna og félagsmanna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag hinn 3. júní 2012 „vegna þeirrar alvarlegu stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem talin var blasa við, yrðu nefnd frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld að lögum.“ ASÍ taldi að um væra að ræða pólitíska aðgerð og ólögmætt verkbann sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir félagsmenn ASÍ í ýmsum atvinnugreinum enda sjávarútvegur ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ofangreind tilmæli LÍÚ fælu ekki í sér vinnustöðvun (verkbann) í skilningi 19.gr. laga 80/1938. Í dóminum segir: „Þegar litið er til framangreinds þykir ekki unnt að líta svo á að í tilkynningunni felist áskorun stefnda og aðildarfélaga hans til félagsmanna sinna um vinnustöðvun í skilningi 19. gr. laga nr. 80/1938. Er hún samkvæmt efni sínu tilmæli til félagsmanna um ákveðna aðgerð, án þess þó að séð verði að það hafi haft nokkrar afleiðingar í för með sér, þótt ekki væri farið að þeim tilmælum. Þá heldur stefndi því fram að aðildarfélög hans hafi staðið að fullu við lög- og samningsbundnar skyldur sínar gagnvart starfsmönnum sínum og hafa engin gögn verið lögð fram sem hrekja þá fullyrðingu. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að umrædd aðgerð stefnda, að beina því til félagsmanna sinna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag 2012 og beina þeim þess í stað til Reykjavíkurhafnar nokkrum dögum síðar, teljist vinnustöðvun í skilningi 19. gr. laga nr. 80/1938, eða aðgerð sem geti flokkast sem „rof á friðarskyldu sem jafna má til eiginlegrar vinnustöðvunar“, svo sem segir í athugasemdum með 5. gr., síðar 4. gr., frumvarps sem varð að lögum nr. 75/1996. Þykir engu breyta að þessu leyti þótt taka megi undir það með stefnanda að umrædd tilmæli stefnda hafi falið í sér hvatningu til óhefðbundinnar notkunar á framleiðslutækjum, fiskiskipaflotanum, enda bar þessi aðgerð engin megineinkenni vinnustöðvunar samkvæmt framangreindri skilgreiningu, eins og fyrr segir. Félagsdómur kom sér hjá því að fjalla um pólitískt markmið aðgerðarinnar sem var það að hafa áhrif á stjórnvöld en vinnustöðvanir og aðgerðir sem jafna má til þeirra og sem gerðar eru í þeim tilgangi eru bannaðar skv. 17.gr. laga 80/1938.
Þessi dómur virðist beita annarri nálgun en gert var í Félagsdómum nr. 14/1992 og 7/1999 þar sem fjallað var um aðkomu stéttarfélags að fundarhöldum á vinnutíma og hópuppsögnum félagsmanna. ( Sjá umfjöllun „Hvað er verkfall“ ) Í þeim dómum lá áherslan á aðkomu stéttarfélaganna en ekki markmiðum eða afleiðingum aðgerðanna gagnvart atvinnurekendum. Ekki verður dregin önnur ályktun af þessum þremur dómum en sú, að stéttarfélögum sé, eins og samtökum atvinnurekenda, heimilt að beina tilmælum til félagsmanna sinna t.d. um þátttöku í fundum á vinnutíma, þ.m.t. mótmælafundum tengdum starfskjörum sínum eða fundum sem haldnir eru til þess að knýja á um aðgerðir stjórnvalda í velferðarmálum, enda hafi það engar afleiðingar fyrir félagsmanninn gagnvart stéttarfélagi sínu að hlíta ekki þeim tilmælum.
Tilgangur verkbanns
Tilgangur verkbanns er eins og segir í 14. gr. laganna sá að heimila atvinnurekanda með verkbanni að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilu og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum. Þannig getur atvinnurekandi ekki í sparnaðarskyni þegar verkfall er skollið á starfsemi hans eða í almennum verkefnaskorti boðað verkbann. Þetta kemur skýrt fram í málsatvikum í Félagsdómi 12/1984 (IX:95).
Þar höfðu bókagerðarmenn átt í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn hf. boðaði verkbann á blaðamenn. Í verkbannsboðuninni var ástæðan sögð sú að vegna verkfalls Félags bókagerðarmanna hefði NT ekki komið út í nær þrjár vikur og þar af leiðandi orðið fyrir miklu tekjutapi. Stjórn Blaðamannafélagsins taldi verkbannsboðunina ólögmæta, þar sem henni væri ekki ætlað að vinna að framgangi krafna í kjaradeilu. Ákvað stjórn NT þá að boða verkbann að nýju. Í þeirri boðun sagði að verkbannið væri að sjálfsögðu lagt á til þess að knýja á um kröfur félagsins í yfirstandandi kjaradeilu. Dómurinn tók ekki sérstaklega á þessu atriði í dómsuppsögu þar sem verkbannið hafði verið boðað að nýju.