VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Ábyrgð vegna verkfalls

Þeir sem efna til verkfalls bera á því ábyrgð. Sé verkfall, sem stéttarfélag boðar löglegt, löglega til þess boðað og framkvæmd þess í samræmi við lög kemur aldrei til þess að reyni á ábyrgð félagsins. Ábyrgðin verður fyrst virk þegar reglur eru brotnar.


Samkvæmt 8. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 bera stéttarfélög ábyrgð á samningsrofum sínum og löglega skipaðra trúnaðarmanna. Einnig bera stéttarfélögin ábyrgð á samningsrofum einstakra félagsmanna sé hægt að gefa félaginu sök á samningsrofinu. Ábyrgð einstaklinga getur einnig verið til staðar samkvæmt almennum reglum.

Ábyrgð stéttarfélags

Í 8. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög beri ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið. Þó sé ekki heimilt að gera aðför í fundarhúsum, sjúkrastyrktarsjóðum né slysa- og menningarsjóðum félaganna vegna þessarar ábyrgðar, enda séu eignir sjóðanna skýrt aðgreindar frá eignum félagsins og óheimilt að verja þeim til almennra þarfa þess. Þannig er reynt að undanskilja tilteknar eignir félagsins frá ábyrgð á ólögmætum aðgerðum.

Í allmörgum dómum Félagsdóms hafa félög verið gerð ábyrg fyrir ólögmætum verkfallsaðgerðum. Í Hrd. 1994:367 vegna skaðabótamáls er farþegi var hindraður í að fara úr landi, hélt stéttarfélag sem átti í verkfalli því fram að verkfallsvarsla í farþegasal, sem deilt var um hvort hefði verið lögmæt eða ekki, hefði ekki verið á vegum félagsins. Þeir sem héldu uppi verkfallsvörslunni voru bæði félagsmenn þess félags og einnig voru félagsmenn annars félags við verkfallsvörsluna. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að félagið hefði ekki fært sönnur að þeirri málsástæðu að verkfallsverðir umrætt sinn hefðu ekki verið á vegum félagsins, og því var stéttarfélagið dæmt ábyrgt fyrir ólögmætri verkfallsvörslu umrætt sinn.

Af þessum dómi má ráða að löglíkur séu fyrir því að verkfallsaðgerðir, sem framkvæmdar eru í verkfalli séu á vegum þess stéttarfélags sem á í verkfallinu og þannig á ábyrgð þess.

Ábyrgð einstaklinga

Einstaklingar, sem gerast brotlegir, bera ábyrgð á gerðum sínum eftir almennum skaðabótareglum. Hafi þeir með ólögmætum og saknæmum hætti valdið öðrum tjóni bera þeir ábyrgð á gerðum sínum. Ekki skiptir máli hvort stéttarfélagið er dæmt ábyrgt jafnframt eða hvort einstaklingarnir hafa farið út fyrir löglegar heimildir sínar án atbeina stéttarfélagsins. Algengara er þó að viðkomandi stéttarfélagi sé einungis stefnt, en ekki jafnframt einstökum félagsmönnum eða stjórnarmönnum persónulega. Þó eru dæmi þess.

Í Hrd. 1964:596 hafði Kassagerð Reykjavíkur stefnt allri stjórn Dagsbrúnar persónulega svo og félaginu sjálfu til að þola lögbann á verkfallsaðgerðir. Var lögbannið sett á og það staðfest í undirrétti. Voru einstakir stjórnarmenn þar dæmdir persónulega til að þola lögbannsaðgerðina. Var niðurstaðan staðfest í Hæstarétti.

Sjá ennfremur kaflann „Verkfallsbrot og verkfallsvarsla„.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn