VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Tilkynning til svæðismiðlunar

Samkvæmt lögum nr. 63/2000 um hópuppsagnir ber atvinnurekanda að gera hinni opinberu vinnumiðlun viðvart um áform sín um hópuppsagnir starfsmanna.

Í tilkynningu atvinnurekanda skulu koma fram allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar hópuppsagnir og um samráð aðila skv. 5. og 6. gr., einkum ástæður uppsagnanna, hve mörgum starfsmönnum stendur til að segja upp, hve margir starfsmenn eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi. Atvinnurekandi skal koma afriti af tilkynningu til fulltrúa starfsmanna og trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna getur komið á framfæri öllum athugasemdum starfsmanna við vinnumiðlun.

Þetta ákvæði er nokkuð opið en Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í málinu nr. C-134/22 að í reynd sé um formskilyrði að ræða og þó þær upplýsingar sem veittar væru i tilkynningunni tilgreini ekki nákvæmlega niðurstöður samráðs skv. ákvæðum tilskipunar EB 98/59 sbr. 5 og 6.gr. l.63/2000 skapi það ekki starfsmönnum sjálfstæðan rétt þ.a. að uppsagnir teljist ólögmætar.  

Hvert á atvinnurekandi að senda tilkynningu?

Í lögum um hópuppsagnir segir að atvinnurekandi skuli senda vinnumiðlun í því umdæmi þar sem viðkomandi starfsmenn vinna tilkynningu um hópuppsagnir. Ef vafi leikur á því hvert eigi að senda tilkynningu er einfaldast að snúa sér til Vinnumálastofnunar til að fá nánari leiðbeiningar.

Viðbrögð vinnumiðlunar

Það er lagt á herðar vinnumiðlunar að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda. Lögin segja hins vegar ekkert um það til hvaða aðgerða vinnumiðlun skal grípa. 

Vinnumiðlun starfar á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006. Markmið laganna er að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir eru skilgreindar sem vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem eru til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn