Fatlaðir eiga eiga og hafa löngum átt erfitt um aðgang að vinnumarkaði. Fatlað fólk er ekki einsleitur hópur. Það getur verið líkamlega fatlað, heyrnar- eða sjónskert, greindarskert eða haldið miklum geðrænum sjúkdómum. Það getur verið fatlað frá fæðingu, barnæsku, unglingsaldri eða síðar í lífinu, í námi eða starfi. Fötlun þess getur haft lítil áhrif á getu til vinnu og þátttöku í samfélaginu, en einnig haft mikil áhrif, sem gerir það að verkum að það þarfnast talsverðs stuðnings og aðstoðar. Um allan heim er fatlað fólk að leggja til og taka þátt í heimi vinnunnar. Vegna ýmissa hindrana fá hins vegar margir fatlaðir einstaklingar sem vilja vinna ekki tækifæri til vinnu.
Alþjóðavinnumálastofnunin – ILO, samþykkti leiðbeiningarreglur um hvernig með fötlun á vinnustað skuli fara. Markmið þeirra reglna er að leggja til hagnýta leiðsögn um fötlunarstjórnun á vinnustað með því að tryggja að fatlað fólk njóti jafnra tækifæra á vinnustað; að fjölga atvinnutækifærum fatlaðra með því að auðvelda ráðningu þeirra, endurkomu á vinnumarkað og að þeir haldi störfum og tækifærum til framgangs í starfi; að stuðla að öruggum og heilsusamlegum vinnustað; að tryggja að kostnaður atvinnurekenda vegna fötlunar starfsmanna sé í lágmarki, þar á meðal í sumum tilvikum gjöld vegna heilsugæslu og trygginga; að hámarka það framlag sem fatlað launafólk getur lagt til fyrirtækisins. ASÍ þýddi og gaf reglur þessar út. Þær er að finna hér: „Fötlunarstjórnun á vinnustað – Viðmiðunarreglur ILO“.
Þá er það bundið í lög að mismunun á grundvelli fötlunar og/eða skertrar starfsgetur er bönnuð skv. lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Jafnframt er fjallað heildstætt um réttindi fatlaðs fólks sem tengjast atvinnu í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2007 og fullgiltur árið 2016. Hann er þó enn ólögfestur hér á landi. Í 27. gr. samningsins er fjallað um vinnu og starf fatlaðs fólks: „ 1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars: a) að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað, b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafnverðmæt störf, öryggis og hollustu á vinnustað, þar á meðal verndar gegn áreitni, og úrbóta vegna misréttis sem það telur sig hafa orðið fyrir, c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra, d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun, e) að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað, f) að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki, g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans, h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum, i) að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað, j) að efla möguleika fatlaðs fólks til að afla sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði, k) að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.