Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um hópuppsagnir taka uppsagnir starfsmanna fyrst gildi 30 dögum eftir að tilkynning um uppsagnir berst svæðisvinnumiðlun. Er gert ráð fyrir því að svæðisvinnumiðlun noti þennan frest til að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda.
Uppsagnarfrestur starfsmanna samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum breytist ekki þrátt fyrir ákvæði laganna, nema að því er snertir þá starfsmenn sem eiga styttri uppsagnarfrest en 30 daga.
Fresturinn hefur engin áhrif á þá sem hafa jafnlangan eða lengri uppsagnarfrest en 30 daga. Þannig á maður með þriggja mánaða uppsagnarfrest ekki rétt á einum mánuði í viðbót vegna ákvæða laga um hópuppsagnir.