Samkvæmt lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, er atvinnurekanda óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta þess bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis. Sjá einnig kaflann um um Aðilaskipti að fyrirtækjum – EES.
Í Hrd. nr. 289/2005 var ágreiningur um réttarstöðu starfsmanns vegna aðilaskipta að fyrirtæki. K réð sig til starfa sem framkvæmdarstjóri hjá Í ehf. með ráðningarsamningi árið 2001. F keypti síðan hluta af starfsemi Í ehf. með kaupsamningi í febrúar 2004. Vegna þessara viðskipta reis ágreiningur um réttarstöðu K. K reisti kröfur sínar á hendur F á því að öll réttindi og allar skyldur samkvæmt ráðningarsamningi sínum hefðu færst yfir til F. Slíkt leiddi beint af ákvæðum framangreinds kaupsamnings en ella af ákvæðum laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. F taldi hins vegar að ekkert ráðningarsamband hefði stofnast milli aðila. Þegar ákvæði kaupsamningsins voru skoðuð í ljósi viðmiðana laga nr. 72/2002, Evróputilskipunar um sama efni og athugasemda með frumvarpi til laganna, var talið ótvírætt að með kaupsamningnum hafi orðið aðilaskipti að rekstrinum í merkingu laganna. Þá skyldi K njóta réttarstöðu starfsmanns við aðilaskiptin. Var kröfu F um sýknu því hafnað. Af meginreglu laga nr. 72/2002 var talið leiða, að ráðningarkjör samkvæmt ráðningarsamningi flyttust til framsalshafa við aðilaskiptin. Var F því talinn bundinn af ákvæðum ráðningarsamnings K við Í ehf., þar á meðal ákvæði um uppsagnarfrest. Einnig var fallist á með K að bifreiðahlunnindi samkvæmt ráðningarsamningi væru hluti af ráðningarkjörum hans, auk þess sem orlofsréttindi hans hefðu flust til F við aðilaskiptin. Var varakröfu F um lækkun á kröfu því einnig hafnað.