Jafnvel þótt ekkert sé samið um vanefndir og brottvikningar í kjarasamningi, lögum eða ráðningarsamningi er þessi réttur til staðar og grundvallast hann á almennum reglum samningaréttarins og hefur skapast ákveðin dómaframkvæmd um hann hér á landi.
Kjarasamningar
Í almennum kjarasamningum er almennt ekki að kveðið á um heimildir til fyrirvaralausra starfsloka vegna alvarlegra brota atvinnurekanda eða starfsmanns. Verður að taka á slíkum málum sérstaklega þegar þau koma upp. Í kjarasamningum er þó að finna ákvæði um að brot á öryggisreglum á vinnustað geti leitt til brottvikningar.
Í samningi Alcan á Íslandi og verkalýðsfélaganna (1. desember 2008 til 31. janúar 2011) sagði t.d. í grein 7.5 að uppsagnarákvæði gildi ekki ef starfsmaður sýnir vítaverða vanrækslu í starfi sínu, eða Alcan gerist brotlegt gagnvart starfsmanni. Til vítaverðrar vanrækslu telst í þessu sambandi meðal annars ef starfsmaður mætir ítrekað of seint til vinnu sinnar, ítrekaðar eða langvarandi fjarvistir frá vinnu án leyfis eða gildra ástæðna, svo og ef starfsmaður óhlýðnast réttmætum fyrirmælum verkstjóra/flokksstjóra. Alcan getur vísað starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi, eftir að hafa aðvarað hann skriflega tvisvar sinnum, geri hann sig sekan um brot á viðurkenndum öryggisreglum á verksmiðjusvæðinu, samanber reglur Alcan um öryggismál. Áður en starfsmanni er sagt upp vegna brots á kjarasamningi skal trúnaðarmanni gefinn kostur á að kynna sér alla málavöxtu. Brot á öryggisreglum, sem stofnar lífi og limum starfsmanna, svo og tækjum fyrirtækisins, í voða, skal þó varða brottvikningu án undangenginna aðvarana ef trúnaðarmaður og forstjóri eru sammála um það.
Lög
Lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum hafa ekki að geyma ákvæði um riftun ráðningarsamninga.
Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er hins vegar fjallað um vanefndir. Í II. hluta laganna þar sem fjallað er sérstaklega um embættismenn er fjallað um skilyrði þess að hægt sé að segja embættismönnum upp störfum vegna vanefnda. Samkvæmt 26. gr. laganna er heimilt að veita embættismanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar því starfi.
Hafi embættismaður fjárreiður eða bókhald með höndum má veita honum lausn um stundarsakir án áminningar ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Sama er ef embættismaður er grunaður eða sannur orðinn að háttsemi er varða kynni sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Um aðra opinbera starfsmenn en embættismenn gilda aðrar reglur. Fram kemur í 21. gr. laga nr. 70/1996 að ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tali máli sínu ef það er unnt. Ef ætlunin er að segja starfsmanni upp störfum verður samkvæmt þessu ákvæði og 44. gr. laganna að veita starfsmanninum áminningu. Starfsmanni skal þó víkja úr starfi fyrirvaralaust ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því starfi eða ef hann hefur játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda.
Ráðningarsamningar
Í ráðningarsamningum geta verið ákvæði um vanefndir sérstaklega ef gerðar eru strangar kröfur um trúnað aðila.