VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aðilaskipti að fyrirtækjum – EES

Tilskipun ráðsins nr. 2001/23/EB frá 12. mars 2001 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar.      

Tilskipunin á ensku.

Gildandi lög: Lög nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Ferill. Tilskipun ráðsins nr. 77/187/EBE  frá 14. febrúar 1977 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Breytt með tilskipun 98/50/EB frá 29. júní 1998. Eldri löggjöf: lög nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Markmið og gildissvið. Markmið þessarar tilskipunar er að vernda réttarstöðu starfsmanna við framsal fyrirtækis eða hluta fyrirtækis til nýs atvinnurekanda. Tilskipunin tekur til einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja án tillits til þess hvort þau eru rekin í hagnaðarskyni eða ekki.

Við aðilaskipti færast réttindi og skyldur framseljanda, er tengjast ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi og sem fyrir hendi eru þann dag sem aðilaskiptin fara fram, yfir til framsalshafa, þ.e. til hins nýja atvinnurekanda.

Í tilskipuninni er kveðið á um að aðilaskipti að fyrirtæki, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækis eða atvinnurekstrar geti ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu framseljanda eða framsalshafa. Þetta ákvæði komi þó ekki í veg fyrir uppsagnir starfsmanna af hálfu atvinnurekanda af efnahagslegum eða tæknilegum ástæðum, eða sem rekja má til skipulagsbreytinga er hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi.

Framseljanda, eða eftir atvikum framsalshafa, ber að gefa fulltrúum starfsmanna upplýsingar um dagsetningu eða fyrirhugaða dagsetningu aðilaskiptanna, ástæðuna fyrir aðilaskiptunum og önnur atriði.

____________________________________________________________________________


EFTA-dómstóllinn

E-3/01. 22. mars 2002.  Alda Viggósdóttir.

Málsatvik voru þau að Alda Viggósdóttir hóf störf hjá Póst- og símamálastjórninni (Pósti og síma), sem síðar varð Póst- og símamálastofnunin árið 1963. Stofnuninni var breytt 1. janúar 1997 í hlutafélag, sem ríkið átti að öllu leyti, og var rekið undir heitinu Póstur og sími hf. Þegar hlutafélagið tók við rekstrinum var ráðningarsamningur gerður við Öldu um starf hennar fyrir það. Eftir þetta, hinn 1. janúar 1998, var Íslandspóstur hf. stofnaður eftir skiptingu Pósts og síma hf. í tvö hlutafélög. Var Alda starfsmaður Íslandspósts.

Alda vann sem forstöðumaður í pósthúsi. Hún var leyst frá störfum tímabundið 5. október 1999 og var henni boðin starfslokasamningur. Eftir honum hefði Alda fengið 12 mánaða laun auk orlofsgreiðslu og desemberuppbótar. Hún hafnaði boðinu. Með uppsagnarbréfi 28. desember 1999 sagði Íslandspóstur henni upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Fyrir dómi hér á landi krafðist Alda að Íslandspóstur yrði gert að greiða skaðabætur og miskabætur alls 6.896.120 krónur auk dráttarvaxta. Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað að senda EFTA-dómstólnum beiðni um ráðgefandi álit á þessum spurningum:

1. Ber að skýra ákvæði 1. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 77/187/EBE þannig að það séu eigendaskipti í skilningi ákvæðisins þegar ríkisfyrirtæki er breytt í hlutafélag alfarið í eigu ríkisins?

2. Ber að skýra ákvæði 1. mgr. 3. gr. tilskipunar ráðsins 77/187/EBE þannig að óheimilt sé að skerða með ráðningarsamningi, sem gerður er vegna eigendaskipta í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, þau uppsagnarkjör sem launþegi naut fyrir eigendaskiptin?

Af hálfu Íslandspósts var því m.a. haldið fram að tilskipunin gildi ekki um fyrrverandi starfsmenn Póst- og símamálastofnunar af þeirri ástæðu, að réttarstaða þeirra hafi farið eftir opinberum rétti þegar ætluð eigendaskipti áttu sér stað. 

Íslenska ríkið taldi hins vegar að tilskipunin geti gilt um þær aðstæður sem uppi voru í málinu, þ.e. þegar ríkið ákveður að færa ríkisfyrirtæki til annars lögaðila sem er að fullu í eigu þess. Engu að síður hélt ríkisstjórnin því fram, að réttarstaða Öldu hafi ráðist af opinberum rétti, þegar eigendaskiptin áttu sér stað og af þeim sökum yrði tilskipuninni ekki beitt í þessu máli.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins var á þá leið, að breyting á ríkisfyrirtæki yfir í hlutafélag sem er að fullu í eigu ríkisins geti talist aðilaskipti að fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Tilskipunin geti átt við um starfsmann sem naut þann dag sem aðilaskiptin fóru fram réttarstöðu sem launamaður samkvæmt vinnulöggjöf aðildarríkis. Það sé hins vegar hlutverk dómstóls í aðildarríkis að ákveða hvort sú hafi verið raunin eða hvort hann hafi notið uppsagnarverndar á grundvelli reglna opinbers réttar (e. public law).

Þá tekur EFTA-dómstóllinn það fram að launamanni sé óheimilt að afsala sér þeim réttindum sem ófrávíkjanleg ákvæði tilskipunarinnar veita honum. Tilskipunin komi hins vegar í veg fyrir að starfsmaður semji við hinn nýja atvinnurekanda um breytingar á ráðningarsambandi sínu, að svo miklu leyti sem slíkar breytingar eru heimilar samkvæmt lögum aðildarríkis við aðrar aðstæður en þær þegar um aðilaskipti að fyrirtækjum er að ræða. 

__________________________

E-3/96. 14. mars 1997. Tor Anger.

Útboð Statoil á samningi um viðhald og viðgerðir á olíuborpalli í Norðursjó. Að undangengnu útboði tók fyrirtækið Aker við þessu verkefni af fyrirtækinu ABB. ABB sagði í kjölfarið upp 74 starfsmönnum. Af 60 starfsmönnum sem Aker réð til starfa til að vinna við þetta verk höfðu aðeins 10 starfað áður fyrir ABB.

Í kjölfarið höfðuðu 16 starfsmenn ABB mál til staðfestingar á því að uppsagnir þeirra höfðu verið ólögmætar og ógildar. 

EFTA-dómstólnum var send beiðni um ráðgefandi álit á þeirri spurningu hvort skilgreina mætti viðskipti sem aðilaskipti að fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. 

Svar dómstólsins var á þá leið að tilskipunin geti átt við í því tilviki þegar tímabundinn samningur um viðhald og viðgerðir á olíuborpalli rennur út og samið er í kjölfarið við annan verktaka um framkvæmd þeirra verka. Tilskipunin gildir hins vegar ekki í þeim tilvikum þegar hvorki á sér stað framsal á verulegum rekstrarmunum, þ.m.t. nauðsynlegum tækjum, né yfirtaka verulegs hluta starfsmanna, miðað við fjölda þeirra og sérþekkingu, sem unnu sömu störf á vegum fyrri verktakans. 

__________________________

E-2/96. 19. desember 1996Møller.

Í þessu máli slær EFTA-dómstólsins því föstu að það sé ekki skilyrði fyrir beitingu tilskipunarinnar að beint samningssamband sé milli framseljanda og framsalshafa.

Yfirtaka framsalshafa á eignum eða öðru lausafé framseljanda er einn þáttur í því heildarmati sem dómstóll í aðildarríki verður að framkvæma. Sú staðreynd að slíkar eignir skipti ekki um hendur útiloki þó ekki að tilskipunin geti átt við, svo framarlega sem aðrir þættir leiði til þeirrar niðurstöðu að um aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar sé að ræða. Yfirtaka á hluta af starfsliði framseljanda er meðal þeirra atriða sem skipta máli í því heildarmati sem dómstóll í aðildarríki verður að framkvæma.

Sú staðreynd að samningi um veitingu þjónustu er úthlutað á grundvelli útboðs sem fellur ekki undir útboðsreglur EES-samningsins kemur ekki í veg fyrir beitingu tilskipunarinnar. Þá hefur það ekki nein úrslitaáhrif að um tímabundinn þjónustusamning sé að ræða. 

__________________________

E-2/95. 25. september 1996Eidesund.

Scandinavian Service Partner (SSP) annaðist veitingaþjónustu og hreingerningar á olíuborpöllum í Norðursjó. Stavanger Catering tók yfir þetta verkefni að undangengnu útboði. 14 af 19 starfsmönnum SSP, þ.m.t. Eilert Eidesund, var boðið áframhaldandi starf.  Eidesund krafðist þess að Stavanger Catering héldi áfram að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs sem SSP hafði áður innt af hendi, að því er virðist á grundvelli kjarasamnings. Stavanger Catering hafnaði þessu.

Þeirri spurningu var beint til EFTA-dómstólsins hvort að skipti á þjónustufyrirtæki á grundvelli útboðs geti talist aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar, og ef svo væri, hvort að framsalshafa væri skylt að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs sem fyrri vinnuveitandi starfsmanna hefði greitt, þó að þau féllu utan við kerfi almannatrygginga.

Efta-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að skylda atvinnurekanda til að greiða umrædd iðgjöld félli undir undanþáguákvæði tilskipunarinnar. Væri Stavanger Catering því ekki skylt að verða við kröfu Eidesund. 

__________________________

E-3/95. 25. september 1996Langeland

Skylda atvinnurekanda til að greiða iðgjöld vegna viðbótarlífeyrissparnaðar starfsmanna flyst ekki til framsalshafa á grundvelli tilskipunar 77/187/EBE.

Starfsmanni er óheimilt að falla frá réttindum sem honum eru veitt með ófrávíkjanlegum ákvæðum tilskipunarinnar jafnvel þó að óhagræðið sem af því myndi leiða kunni að vera bætt upp á einhvern hátt, þannig að staða hans eftir á verði ekki lakari heildstætt metið. Tilskipunin útilokar þó ekki að gengið sé til samninga við hinn nýja atvinnurekanda um tilteknar breytingar á ráðningarsambandinu, að því tilskyldu að þær breytingar rúmist innan heimilda samkvæmt landsrétti í öðrum tilvikum en þegar um aðilaskipti að fyrirtækjum er að ræða.

Evrópudómstóllinn


C-509/14 26.11 2015. ADIF. Tiltekin hluti af opinberri starfsemi var boðin út til einkafyrirtækis og gerður við það tímabundinn verksamningur. Þegar sá samningur rann sitt skeið gekk starfsemin aftur til hins opinbera aðila og ágreiningur reis um það hvort það fæli í sér aðilaskipti. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði verið. 

C-458/05. 13. september 2007. Jouini. 

Í þessu máli fékk Evrópudómstóllinn það verkefni að taka afstöðu til þess hvort fella mætti undir gildissvið tilskipunarinnar fyrirtæki sem samanstóð einungis af hópi starfsmanna sem í voru stjórnendur og tímabundið starfslið.

Málsatvik voru á þá leið að starfsmannaleigan Mayer leigði um þriðjung af starfsliði sínu til fyrirtækisins Industrie Logistik Linz GmbH (ILL). Vegna fjárhagserfiðleika sem upp komu hjá Mayer var ákveðið stofna nýja starfsmannaleigu PPS í félagi við ILL með það fyrir augum að fullnægja áfram þörf ILL fyrir vinnuafl. Í kjölfarið tók PPS yfir 40 starfsmenn úr því 60 manna starfsliði sem hafði áður starfað hjá ILL sem leigustarfsmenn frá Mayer. Auk þess fluttist mikið af yfirmönnum Mayer yfir til PPS. Mayer var síðan úrskurðað gjaldþrota. Skuldaði það mörgum af fyrrverandi starfsmönnum sínum laun.  Þessi hópur höfðaði mál gegn PPS á þeim grundvelli að aðilaskipti hefðu átt sér stað að hluta af atvinnurekstri Mayer til PPS.

Evrópudómstóllinn staðfestir fyrri túlkanir sínar á gildissviði tilskipunarinnar í þá veru að þar skuli rúmri lögskýringu beitt er hafi tilgang tilskipunarinnar að leiðarljósi sem er sá að tryggja réttindi starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Dómstóllinn ítrekar í fyrsta lagi hér þann skilning að um efnahagslega einingu þurfi að vera að ræða sem viðhaldi einkennum sínum en það verði meðal annars ráðið af því hvort rekstri hennar sé framhaldið. Í öðru lagi kemur fram að hugtakið aðilaskipti geti hvort tveggja náð til skriflegra og munnlegra samninga  milli framseljanda og framsalshafa. Undir hugtakið falli þó einnig þegjandi samkomulag aðila um aðilaskipti að tilteknum atvinnurekstri sem ráða megi af ýmsum þáttum er snúa að samvinnu aðila er bendi til ásetnings þeirra um að gera ákveðnar breytingar. 

Í þessu máli voru starfsmenn teknir yfir í tengslum við þær breytingar sem ákveðnar voru af hálfu Mayer og PPS en yfir þeim fyrirtækjum var í raun og veru sama yfirstjórn sem gerði PPS kleift að stofna til sams konar atvinnurekstrar og Mayer hafði áður haft með höndum. Það var þessi samvinna sem gerði PPS kleift að veita sömu viðskiptavinum þjónustu áfram með sömu starfsmönnum að stórum hluta til sem höfðu áður starfað á vegum Mayer. Samningur þessara aðila þurfti því hvorki að vera skriflegur eða munnlegur. Dómstóllinn staðfesti í þriðja lagi að með hugtakinu efnahagsleg eining væri átt við skipulagðan hóp einstaklinga eða eigna sem geri efnahagslega starfsemi sem fram í ákveðnum tilgangi mögulega. Slík eining þurfi ekki að hafa yfir ráða umtalsverðum föstum eða óefnislegum eignum. Í ákveðnum atvinnugreinum, sem flokka megi sem vinnuaflsfrekar, sé hin efnahagslega starfsemi að meginstefnu til byggð á vinnuafli. Af því leiði að skilgreina megi skipulagðan hóp launamanna, sem fæst sérstaklega og varanlega við ákveðna tegund starfa, sem efnahagslega einingu þó að aðrir framleiðsluþættir séu ekki jafnframt til staðar. Að mati dómstólsins eigi þetta sérstaklega við um starfsmannaleigur en sérstaklega er vísað til þeirra í c-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Starfsmennirnir væru aðal „eignin” í slíkum atvinnurekstri og án þeirra gæti starfsmannaleiga ekki staðið fyrir efnahagslegri starfsemi.

Niðurstaðan dómstólsins var því sú að flokka megi hóp starfsmanna, sem samanstendur af stjórnendum, starfsmönnum og þekkingu á tiltekinni starfsgrein (e. know-how), sem starfar við það að leigja út starfsfólk til notendafyrirtækja sem efnahagslega einingu í skilningi tilskipunarinnar. Það átti sérstaklega við í þessu máli en umræddur hópur samanstóð af skrifstofumanni, útibússtjóra, nokkrum þjónusturáðgjöfum, þriðjungi af því starfsliði sem leigður var út til notendafyrirtækis og nokkrum yfirmönnum sem höfðu yfir að ráða sérþekkingu á þessari þjónustugrein. 

__________________________

C-232/04 og C-233/04. 15. desember 2005. Güney-Görres.

Fyrirtækið Securicor bar samkvæmt samningi við þýska ríkið ábyrgð á eftirliti með farangri og farþegum á flugvelli í Düsseldorf. Að undangengnu útboði á þessari þjónustu var fyrirtækinu Kötter í janúar 2004 falin framkvæmd þessa eftirlits.  

Tveir af starfsmönnum Securicor héldu því fram að um aðilaskipti að fyrirtæki hafi verið að ræða með þeim réttaráhrifum að uppsögn á ráðningarsamningum þeirra í tengslum við yfirfærslu þessa verkefnis frá Securicor til Kötter hefði farið í bága við ákvæði tilskipunarinnar.

Meðal þess sem tekist var á um, var að hve miklu leyti hefði verið um framsal atvinnutækja að ræða í skilningi tilskipunarinnar, en fram kom að þýska ríkið hefði útvegað báðum fyrirtækjum þann búnað sem nauðsynlegur var til að framkvæma eftirlitið. Bar Securicor og Kötter í raun skylda samkvæmt samningi við þýska ríki til að nota þann búnað. 

Kötter og þýska ríkið byggðu á því að það skipti höfuðmáli um það hvort um aðilaskipti að fyrirtæki væri að ræða, að um framsal á rekstrarmunum hefði verið að ræða, þ.e. að þeir hefðu verið framseldir Kötter á þann hátt að hann hefði fullan ráðstöfunarrétt yfir þeim vegna síns atvinnurekstrar. 

Niðurstaða Evrópudómstólsins var hins vegar sú að framsal rekstrarmuna væri einungis einn þáttur af mörgum sem þurfi að skoða þegar lagt er mat á það hvort um aðilaskipti sé  að ræða í skilningi tilskipunarinnar. Sú staðreynd að fastar eignir voru ekki yfirteknar af hinum nýja aðila með þeim hætti að hann gæti nýtt sér þær að vild í viðskiptalegum tilgangi komi þannig ekki í veg fyrir að að um aðilaskipti að rekstrarmunum hefði væri að ræða, né að um aðilaskipti að fyrirtæki í skilningi tilskipunar teldist vera að ræða. Við útboð tiltekinnar þjónustu sem leiðir til þess að samið er við nýjan verktaka um framkvæmd hennar  þá skiptir það ekki meginmáli, að teknu tilliti til allra atvika máls, hvort að slíkri breytingu fylgi framsal á eignum.

__________________________

C-499/04. 9. mars 2006. Werhof.

Í ráðningarsamningi starfsmanns var vísað til kjarasamnings sem gilti um störf í þeirri starfsgrein sem hann vann í (e. industry level collective pay agreement). Framseljandi atvinnurekstrarins var bundinn af þeim kjarasamningi samkvæmt reglum á því sviði í Bretlandi. Framsalshafinn var hins vegar ekki aðili að þessum kjarasamningi. Eftir að aðilaskiptin höfðu átt sér stað var gerður nýr kjarasamningur og kvað hann á um hærri laun en sá fyrri.

Hlutaðeigandi starfsmaður gerði kröfu um að laun sín yrðu hækkuð til samræmis við hinn nýja kjarasamning. Þá kröfu byggði hann á því að ráðningarsamningur sinn hefði að geyma ákvæði er vísaði til kjarasamnings í ákveðinni starfsgrein. Túlka yrði það ákvæði með “dýnamískum hætti” þannig að það gildi einnig um breytingar á þeim kjarasamningi sem gerðar eru eftir að aðilaskiptin eiga sér stað.

Evrópudómstóllinn hafnaði þessari túlkun og segir að þegar ráðningarsamningur vísar til kjarasamnings sem framseljandi er bundinn af samkvæmt lögum aðildarríkis en ekki framsalshafi þá verði sú regla ekki leidd af ákvæðum tilskipunarinnar að framsalshafi skuli bundinn af breytingum sem kunni að verða gerðar á þeim kjarasamningi í framtíðinni. Framsalshafi er hins vegar samkvæmt tilskipuninni bundinn af þeim starfskjörum sem fyrri kjarasamningur tryggði hlutaðeigandi starfsmanni á þeim degi sem aðilaskiptin átt sér stað. 

__________________________

C-478/03. 26. maí 2005. Celtec.

Í þessu máli var fjallað um það hvaða áhrif það hefur á yfirfærslu ráðningarsamninga starfsmanna í skilningi tilskipunarinnar þegar aðilaskipti að fyrirtæki eiga sér stað í áföngum í stað þess að gerast á tilteknum degi. 

Mál þetta var rekið af hálfu þriggja fyrrverandi starfsmanna breska Menntamálaráðuneytisins (e. Department of Employment (DoE)) sem höfðu verið fluttir til í starfi og settir undir stjórn undirstofnunar (Training and Enterprise Councils (TECs)). Um var að ræða einkareknar stofnanir sem voru settar á laggirnar árið 1990 í þeim tilgangi að yfirtaka hluta af verkefnum á sviði starfsþjálfunar ungmenna. Starfstímabil þeirra hjá þessum stofnunum var 3 ár en þann tíma unnu þeir sams konar störf og þeir höfðu áður sinnt á vegum ráðuneytisins. Árið 1993 voru þeir síðan ráðnir í beint ráðningarsamband hjá TEC. Mál sitt höfðuðu þeir árið 1998 til að fá það staðfest að við ákvörðun ráðningarkjara bæri að taka tillit til starfstíma þeirra frá þeim tíma er þeir hófu störf sem opinberir starfsmenn (e. civil servants) hjá breska menntamálaráðuneytinu.

Málið snerist að stórum hluta um þá spurningu hvort að til aðilaskipta að fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar teljist einnig aðilaskipti sem eiga sér stað yfir lengra tímabil en ekki aðeins þegar þau eiga sér stað á tilteknum degi. Og ef sú væri niðurstaðan hvernig ætti við þær aðstæður að ákvarða “daginn sem aðilaskiptin eiga sér stað” í skilningi tilskipunarinnar.

Evrópudómstóllinn tekur fram að úr orðum tilskipunarinnar megi lesa að höfundar hennar hafi viljað stefna að lagalegri vissu með því að notað orðið “dagur” í þessu sambandi. Það gæfi til kynna að þeir starfsmenn sem ættu að njóta réttarverndar skv. ákvæðum tilskipunarinnar þyrftu að vera tilgreindir miðað við ákveðna tímasetningu, en ekki með hliðsjón af lengra tímabili. Þá skipti það máli hér sem endranær að hinn nýi atvinnurekandi hefði framhaldið rekstri viðkomandi rekstrareiningar og hún hefði jafnframt viðhaldið einkennum sínum, sbr. 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

Það var því niðurstaða dómstólsins að í skilningi tilskipunarinnar væri átt við þann dag þegar sú ábyrgð sem á atvinnurekanda hvílir gagnvart tilteknum atvinnurekstri flyst frá framseljanda til framsalshafa. Þeim degi verður ekki frestað að vilja viðkomandi aðila.

__________________________

C-425/02. 11. nóvember 2004. Delahayee

Delahaye var starfsmaður fyrirtækisins Foprogest sem annaðist kynningu og framkvæmd á menntunarúrræðum sem var ætlað að bæta félagslega stöðu og styrkja atvinnumöguleika atvinnulausra einstaklinga. Tekjur fyrirtækisins voru fyrst og fremst ýmis konar styrkir og framlög. Þessi þjónusta var tekin yfir af stjórnvöldum í Luxembourg, þ.e. af ráðuneyti menntamála, starfsmenntamála og íþrótta. Þessi starfsemi var því eftirleiðis í formi opinberrar þjónustu. 

Þann 1. janúar 2000 var Delahaye ráðinn sem starfsmaður Lúxemborgar ríkis. Aðrir fyrrverandi starfmenn Foprogest voru einnig ráðnir af ríkinu og voru nýir ráðningarsamningar gerðir við hlutaðeigandi starfsmenn. Í tilviki Delahaye var gerður ótímabundinn ráðningarsamningur þann 22. desember 1999.

Laun Delahaye voru ákveðin í samræmi við reglur um laun opinberra starfsmanna. Var hún sett í lægsta launaþrep og ekkert tillit tekið til starfstíma hennar. Þetta hafði þau áhrif að mánaðarlaun hennar lækkuðu um 37% miðað við það sem hún hafði áður haft hjá Foprogest.

Ágreiningur aðila snerist um það hvort ríkinu bæri skylda til að uppfylla eftir aðilaskiptin öll réttindi starfsmanna, þ.m.t. að því er varðar laun, sem byggðu á ráðningarsamningum þeirra og fyrri atvinnurekanda.  

Niðurstaða Evrópudómstólsins var á þá leið að tilskipun 77/187/EBE banni ekki ákvæði i landsrétti aðildarríkis sem kveði á um slit á ráðningarsamningum starfsmanna við þær aðstæður þegar atvinnurekstur er framseldur frá einkafyrirtæki til hins opinbera. Beri starfslok að þeim með slíkum hætti þá ber hins vegar að telja atvinnurekanda ábyrgan fyrir þeim starfslokum, en ekki hlutaðeigandi starfsmenn, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Sama gildir þegar ráðningarsamningar starfsmanna eru teknir yfir, líkt og gerðist í þessu máli, en reglur um útreikning launa opinberra starfsmanna leiða hins vegar til verulegrar lækkunar í launum fyrir hlutaðeigandi starfmenn. 

Evrópudómstóllinn sagði, að við þær aðstæður sem uppi voru í málinu, væri stjórnvöldum ekki óheimilt að lækka laun starfsmanna sem flytjast við aðilaskipti frá einkafyrirtæki til hins opinbera. Stjórnvöldum sem ábyrgð bera á framkvæmd slíkra reglna beri hins vegar í lengstu lög, með hliðsjón af tilgangi tilskipunarinnar, að taka tillit til starfstímabila viðkomandi starfsmanna á almennum markaði, að svo miklu leyti sem reglur um laun opinberra starfsmanna byggja á starfstíma við ákvörðun launa.  Ef slíkir útreikningar leiða engu að síður til verulegrar lækkunar á launum starfsmanna þá beri að líta á slíka lækkun sem verulega breytingu á ráðningarkjörum, með þeim réttaráhrifum að atvinnurekandi telst bera ábyrgð á slitum ráðningarsamnings. 

__________________________

C-340/01. 20. nóvember 2003. Sodexho.

Þjónustusamningi um rekstur mötuneytis spítala var sagt upp og í kjölfarið gerður samningur við nýjan rekstraraðila, Sodexho, sem kaus að að nýta verulegan hluta af búnaði í eigu spítalans sem fyrri rekstraraðilinn, Sanrest, hafði haft afnot af.

Sodexho tók yfir það sem nauðsynlegt var af þessum búnaði til að veita þjónustu áfram, þ.e. viðskiptavini, húsnæði og tæki, en ekki starfsliðið. Sodexho hélt því fram að tilskipunin ætti þ.a.l. ekki við.

Evrópudómstóllinn bendir á að framsal húsnæðis og tækjabúnaði frá spítalanum og skyldunnar til að útbúa máltíðir í eldhúsi spítalans væri nóg til að komast að þeirri niðurstöðu að um aðilaskipti að efnahagslegri einingu hefði verið að ræða.

Að mati Evrópudómstólsins var það ekki talið skipta máli þó að aðstaða og tækjabúnaður sem Sodexho fékk til afnota var ekki í eigu fyrri rekstraraðila heldur sjúkrahússins. Tilskipunin eigi við þegar breyting verði á þeim aðila sem beri ábyrgð á rekstri fyrirtækis án tillits til þess hvort þeirri breytingu fylgi framsal eignarréttar að rekstrarmunum eða ekki. Þá skipti það ekki máli þó að beint samningssamband væri ekki milli Sodexho og Sanrest. Aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar geti orðið fyrir atbeina þriðja aðila. 

__________________________

C-4/01. 6. nóvember 2003. Martin.

Sérstakur lífeyrir sem starfsmenn fá í tengslum við starfslok áður en venjulegum lífeyrisaldri er náð og greiðslur sem ætlað er að stuðla að bættum skilyrðum fyrir slíkum starfslokum, og sem greiddar eru starfsmönnum sem sagt er upp hafi þeir náð tilskyldum aldri, ber ekki að skilgreina sem elli-, örorku- eða makalífeyri sem greiddur er á grundvelli viðbótarlífeyriskerfis sem komið hefur verið á innan fyrirtækis eða milli fyrirtækja í skilningi 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 77/187/EBE.

Túlka ber 3. gr. tilskipunarinnar 77/187/EBE þannig, að skuldbindingar sem verða virkar ef starfsmanni er sagt upp störfum, og byggðar eru á ráðningarsamningi, ráðningarsambandi eða kjarasamningi, og binda framseljanda gagnvart starfsmanni, skulu framseldar til framsalshafa með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 3. gr., en án tillits til þess að umræddar skuldbindingar eigi rætur að rekja til lagafyrirmæla eða eru framkvæmdar á grundvelli slíkra lagafyrirmæla og án tillits til þátta er lúta að nánari útfærslu á þeirri framkvæmd.

Í þessu máli höfðu tveir starfsmenn samþykkt tiltekna skerðingu á kjörum sínum í tengslum við aðilaskipti að því fyrirtæki sem þeir unnu hjá.

Samkvæmt túlkun Evrópudómstólsins kemur tilskipunin í veg fyrir að framsalshafi bjóði starfsmönnum lakari starfskjör en þeir nutu meðan þeir voru í þjónustu framseljanda að því er varðar framangreindar ellilífeyrisgreiðslur. Starfsmönnum er óheimilt að samþykkja slík lakari kjör, jafnvel þó einungis sé verið að laga kjör þeirra að gildandi kjörum sem öðrum starfsmönnum framsalshafa standa til boða. Frá þessu megi þó víkja ef hin betri kjör sem áður giltu voru byggð á kjarasamningi sem starfsmenn eru ekki lengur bundnir af.

__________________________

C-164/00. 4. júní 2002. Beckmann.

Sérstakur lífeyrir sem starfsmenn fá í tengslum við starfslok áður en venjulegum lífeyrisaldri er náð og greiðslur sem ætlað er að stuðla að bættum skilyrðum fyrir slíkum starfslokum, og sem greiddar eru starfsmönnum sem sagt er upp hafi þeir náð tilskyldum aldri, ber ekki að skilgreina sem elli-, örorku- eða makalífeyri sem greiddur er á grundvelli viðbótarlífeyriskerfis sem sett hefur verið upp innan fyrirtækis eða milli fyrirtækja í skilningi 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 77/187/EBE.

Að teknu tilliti til markmiðs tilskipunarinnar ber að túlka allar undanþágur þröngri lögskýringu. Undanþáguákvæði 3. mgr. 3. gr. tekur því einungis til þeirra bótaflokka sem taldir eru upp með tæmandi hætti. Skiptir í því sambandi ekki máli þó að við útreikning bóta sé byggt á sams konar reglum og gildir um útreikning venjulegs ellilífeyris.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að túlka beri 3. gr. tilskipunarinnar 77/187/EBE þannig, að skuldbindingar sem verða virkar ef starfsmanni er sagt upp störfum, og byggðar eru á ráðningarsamningi, ráðningarsambandi eða kjarasamningi, og binda framseljanda gagnvart starfsmanni, skulu framseldar til framsalshafa með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 3. gr., en án tillits til þess að umræddar skuldbindingar eigi rætur að rekja til lagafyrirmæla eða eru framkvæmdar á grundvelli slíkra lagafyrirmælum og án tillits til þátta er lúta að nánari útfærslu á þeirri framkvæmd.

 __________________________

C-51/00. 24. janúar 2002. Temco.

Fyrirtækið BMV sá um þrif í nokkrum af verksmiðjum Volkswagen á tímabilinu frá maí 1993 til desember 1994 en þá var samningi um þessa þjónustu rift og fyrirtækinu Temco falin umsjón þessa verkefnis. Í kjölfarið sagði GMC, dótturfyrirtæki BMV, sem hafði haft þetta verkefni með höndum sem undirverktaki, upp öllu starfsliði sínu að undanskildum fjórum starfsmönnum.

Meirihluti starfsmanna GMC sem sagt var upp, eða um 75% var hins vegar endurráðinn af Temco á grundvelli belgískra laga og kjarasamnings þar að lútandi. Starfsemi GMC lá að mestu niðri eftir þessar breytingar.

GMC, sem hafði lýst því yfir að þessir fjórir starfsmenn hefðu einnig átt að flytjast yfir til Temco, felldi niður launagreiðslur til þeirra í desember 1995. Höfðuðu starfsmennirnir mál í kjölfarið gegn GMC, BMV og Temco.

Þeirri spurningu var beint til Evrópudómstólsins hvort skýra bæri ákvæði tilskipunarinnar á þann veg, að það séu aðilaskipti í skilningi hennar þegar ekki eru yfirfærðar neinar eignir milli framseljanda og framsalshafa, starfslið hefur einungis verið ráðið til framsalshafa á grundvelli sérstaks ákvæðis í kjarasamningi og beint samningssamband er einungis milli móðurfyrirtækisins BMV og Volkswagen, en ekki milli dótturfyrirtækisins GMC og Volkswagen.

Svar Evrópudómstóllinn var á þá leið að þegar um vinnuaflsfreka atvinnustarfsemi er að ræða sé hægt að líta á hóp starfsmanna sem sinna tilteknu verkefni á varanlegan hátt sem efnahagslega einingu sem geti haldið einkennum sínum. Ef meirihluti starfsmanna sem fellur undir slíka skilgreiningu flyst yfir til framsalshafa megi líta svo á að um aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar sé að ræða. Sú staðreynd að starfsmenn fluttust yfir til Temco vegna ákvæðis í kjarasamningi var ekki talið skipta máli í því sambandi. Þá skipti það ekki máli þó að ekki væri beint samningssamband milli fyrri atvinnurekanda þessara starfsmanna, þ.e. undirverktakans og Volkswagen eða Temco.

__________________________

C-172/99. 25. janúar 2001. Liikenne.

Í þessu máli var fjallað um réttarstöðu bílstjóra sem óku almenningsvögnum í Helsinki í Finnlandi. Fyrirtækið sem þeir unnu hjá sá um farþegaflutninga á sjö leiðum innan leiðakerfis borgarinnar samkvæmt samningi við Helsinki-borg. Þann samning missti fyrirtækið þegar þessum þjónustuþætti var úthlutað til þriggja ára á grundvelli útboðs til annars fyrirtækis. 

45 bílstjórar á 26 farþegavögnum höfðu unnið við þennan akstur. Af þessum 45 sóttu 33 bílstjórar um starf hjá hinum nýja verktaka. Voru þeir allir ráðnir en á lakari kjörum. Fram kom að nýi aðilinn keypti eitthvað af einkennisfatnaði bílstjóranna en notaði hins vegar ekki sömu farþegavagna.

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að hér hefði ekki verið um aðilaskipti að fyrirtæki í skilningi tilskipunar 77/187/EBE að ræða og vísaði dómstóllinn þar m.a. til þess að ekki hefði verið framsal á umtalsverðum föstum rekstrarmunum að ræða.

 __________________________

C-175/99. 26. september 2000. Mayeur.

Borgaryfirvöld í Metz Frakklandi tóku yfir rekstur upplýsinga- og kynningarþjónustu sem APIM, einkaréttarlegt fyrirtæki, hafði annast með styrk frá borgaryfirvöldum. Í kjölfarið var Didier Mayer, starfsmanni APIM, sagt upp.

Evrópudómstóllinn mat atvik málsins svo að ekki hefði verið um endurskipulagningu á opinberum rekstri að ræða heldur framsal tiltekinnar þjónustustarfsemi frá einkafyrirtæki til sveitarfélags. Ítrekaði dómstóllinn þá túlkun sína að tilskipunin taki til fyrirtækja, í eigu einkaaðila eða hins opinbera, án tillits til rekstrarforms þeirra eða með hvaða hætti þau eru fjármögnuð. Það sé hins vegar verkefna dómstóla í hlutaðeigandi aðildarríki að leggja endanlegt mat á það hvort hin efnahagslega eining hafi haldið sérkennum sínum við flutning þjónustunnar til sveitarfélagsins. 

__________________________

C-343/98. 14. september 2000. Collino.

Collino og Chiappero, báðir starfsmenn ASST, fjarskiptastofnunar í eigu ítalska ríkisins, voru 1. nóvember 1993 fluttir yfir til fyrirtækisins Iritel, sem samkvæmt lögum tók við rekstri ASST. Í maí 1994 voru þeir síðan fluttir yfir til SIP, nú Telecom Italia, sem tók yfir starfsemi Iritel.

Þegar þessi málaferli hófust voru Collino og Chiappero hætt störfum en ágreiningur þeirra og Telecom Italia snerist um grundvöll og útreikning launahækkana og starfslokagreiðslna til þeirra.

Collino og Chiappero héldu því fram að kjarasamningur frá 8. apríl 1993 milli Iritel og SIP annars vegar og verkalýðsfélaga hins vegar væri að hluta til ógildur. Samkvæmt kjarasamningnum var ekki tekið tillit til starfs þeirra hjá ASST við útreikning á launahækkunum á grundvelli starfsaldurs. Umræddur kjarasamningur kvað á um að eftir 1. nóvember 1993 yrði við ákvörðun um hækkun launa á grundvelli starfsaldurs fyrrverandi starfsmanna ASST er fluttust til Iritel að byggja á ákveðnum reglum í heildarkjarasamningi landssambanda launafólks sem tók til nýráðins starfsfólks. Collino og Chiappero héldu því fram að byggja hefði átt starfsaldurshækkanir á ákvæðum sama kjarasamnings er gilti um þá starfsmenn SIP sem þegar voru í þjónustu þess fyrirtækis þegar umræddur kjarasamningur var gerður þann 30. júní 1992. Var því haldið fram að sú niðurstaða, sem hefði tekið mið af samfelldu ráðningarsambandi þeirra frá því að þau hófu störf hjá ASST, hefði verið í samræmi við ákvæði ítalska laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti fyrirtækjum.

Collino og Chiappero héldu því einnig fram að þeim hefði ekki verið kleift að endurgreiða SIP, nú Telecom Italia, tilteknar starfslokagreiðslur sem allir opinberir starfsmenn eiga kröfu á þegar þeir láta af störfum. Ef þeim hefði verið það kleift hefðu starfslokagreiðslur þeirra samkvæmt reglum sem gilda um starfsmenn fyrirtækja á almennum markaði og sem þau fengu greiddar þegar þau létu af störfum hjá SIP, verið reiknaðar á grundvelli samanlagðs starfstíma þeirra hjá þeim fyrirtækjum sem hér um ræðir. Hefði sú greiðsla verið hærri en samanlagt þær tvær greiðslur sem þau fengu.

Telecom Italia hélt því fram að um aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar hefði ekki verið að ræða. 

Svar Evrópudómstólsins var á þá leið umrædd fyrirtæki féllu undir gildissvið tilskipunarinnar. Taldi dómurinn það ekki eiga að skipta máli að um leyfiskylda þjónustustarfsemi væri að ræða þar sem skilgreina mátti starfsemi þessara fyrirtækja sem venjulega atvinnustarfsemi fremur en framkvæmd á opinberu valdi. Skilyrði fyrir því að umræddir starfsmenn nytu réttarverndar á grundvelli tilskipunarinnar væri þó að þeir nytu verndar sem almennir launamenn samkvæmt almennum vinnurétti aðildarríkisins. Að því skilyrði uppfylltu þá bæri við útreikning á réttindum starfsmanna þar sem byggt er á starfstíma, s.s. vegna vegna greiðslna við starfslok, að taka tilliti til samanlagðs starfstíma þeirra, þ.e. þess tíma sem þeir hafa verið í þjónustu framsalshafa annars vegar og starfstíma þeirra hjá framseljanda hins vegar. 

__________________________

C-234/98. 2. desember 1999. Allen.

Viðskipti tveggja fyrirtækja sem tilheyra sömu fyrirtækjasamsteypunni.

Evrópudómstóllinn kemst hér að þeirri niðurstöðu að tilskipunin geti náð til þess tilviks þegar fyrirtæki sem tilheyrir fyrirtækjasamsteypu felur öðru fyrirtæki innan sömu samsteypu framkvæmd ákveðinna verksamninga í undirverktöku að svo miklu leyti sem um sé að ræða framsal á efnahagslegri einingu.

 __________________________

C-399/96. 12. nóvember 1998. Europièces.

Tilskipun 77/187/EBE kemur ekki í veg fyrir að starfsmaður sem er í starfi þegar aðilaskipti eiga sér stað mótmæli því að ráðningarsamningur hans sé framseldur til framsalshafa, að því tilskildu að hann geri það að eigin frumkvæði. Það er hlutverk dómstóls í aðildarríki að ákveða hvort að starfskjör samkvæmt ráðningarsamningi sem framsalshafi gerir tillögu um feli í sér verulega breytingu á starfsskilyrðum til óhagræðis fyrir starfsmanninn. Ef sú er raunin þá gerir 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar þá kröfu til aðildarríkja að atvinnurekandi verði talinn bera ábyrgð á riftun ráðningarsamningsins.

 __________________________

C-173/96 og C-247/96. 10. desember 1998. Hidalgo.

Samningur við tiltekið fyrirtæki um heimilisaðstoð og öryggisgæslu rann út og í kjölfarið var samið við annað fyrirtæki. Sú staðreynd að þjónustan sem umrædd fyrirtæki veittu var sambærileg var ekki talin nægileg ástæða ein og sér til að fella þessi viðskipti undir gildissvið tilskipunarinnar. 

__________________________

C-127/96, C-229/96 og C-74/97. 10. desember 1998. Vidal.

Fyrirtæki sem hafði samið við verktaka um þrif á skrifstofuhúsnæði sínu sagði upp þeim samningi í þeim tilgangi að færa ábyrgðina á því verki aftur inn í fyrirtækið. Evrópudómstóllinn segir að sú staðreynd að vinnan sem fram fer fyrir og eftir slíka breytingu sé svipuð nægi ekki ein og sér til að fela slíka skipulagsbreytingu undir gildissvið tilskipunarinnar.

__________________________

C-13/95. 11. mars 1997. Süzen.

Evrópudómstóllinn túlkar tilskipunina í þessu máli á þann veg að hún gildi ekki við þær aðstæður þegar fyrirtæki slítur samningi um þrif á húsnæði sínu og gerir í kjölfarið samning við annað fyrirtæki um framkvæmd sama verks ef ekki á sér stað á sama tíma framsal á umtalsverðum föstum eða lausum rekstrarmunum eða meirihluta starfsmanna, miðað við fjölda þeirra eða hæfni, sem unnu sömu störf á vegum fyrri þjónustuaðila.

Með aðilaskiptum í skilningi tilskipunarinnar er átt við framsal á efnahagslegri einingu sem skilgreina ber sem skipulagða heild starfsmanna eða eigna sem hagnýta má í efnahagslegri starfsemi með ákveðin markmið og sem heldur einkennum sínum í kjölfar aðilaskiptanna.  

__________________________ 

C-319/94. 12. mars 1998. Dethier.

Uppsögn starfsmanna á grundvelli efnahagslegrar, tæknilegra eða skipulagslegra ástæðna. Starfsmönnum sagt upp skömmu fyrir aðilaskipti og ekki boðið áframhaldandi starf hjá framsalshafa. 

Evrópudómstóllinn segir að starfsmenn sem með ólögmætum hætti er sagt upp skömmu áður en aðilaskipti eiga sér stað og þ.a.l. ekki teknir yfir af framsalshafa geti beint kröfum sínum að honum um að uppsögn þeirra hafi verið ólögmæt þar sem líta verði svo á að ráðningarsamningar þeirra séu áfram í gildi gagnvart honum. Evrópudómstóllinn segir að í fyrsta lagi verði að líta svo á að starfsmenn sem sagt hefur verið upp, í andstöðu við ákvæði tilskipunarinnar séu enn í ráðningarsambandi gagnvart hlutaðeigandi fyrirtæki þann dag sem aðilaskipti áttu sér stað. Í öðru lagi séu ákvæði tilskipunarinnar einkum þau sem snúa að réttarvernd starfsmanna ófrávíkjanleg og því ekki mögulegt að víkja þeim hliðar á þann hátt að það sé starfsmönnum óhagstætt.

__________________________ 

C-305/94. 14. nóvember 1996. Rotsart.

Ráðningarsamningar sem í gildi eru milli starfsmanna og framseljanda á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað færast sjálfkrafa til framsalshafa þegar af þeirri ástæðu að um aðilaskipti er að ræða, hvað sem líður andstæðum áformum framseljanda og framsalshafa og þrátt fyrir andstöðu þess síðarnefnda við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim reglum sem hér um ræðir.

Framsal á ráðningarsamningum starfsmanna á sér stað á þeim degi sem aðilaskipti að fyrirtækinu eiga sér stað og verður því framsali ekki frestað til síðari dags að hentugleika framseljanda eða framsalshafa. Sú niðurstaða byggir á því að reglur tilskipunarinnar eru ófrávíkjanlegar starfsmönnum til hagsbóta.

__________________________ 

C-298/94. 15. október 1996. Henke.

Framsal sveitarfélaga á ákveðnum stjórnsýsluverkefnum til sameiginlegs byggðasamlags. 

Henke sem starfaði sem ritari á skrifstofu eins af þeim sveitarfélögum sem stóðu að þessari ráðstöfun hélt því fram að skilgreina ætti starfsemi þess, a.m.k. að hluta til, sem atvinnustarfsemi og bæri því að líta á það sem fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar. Uppsögn á ráðningarsamningi hennar sem ákveðin var í tengslum við þessar skipulagsbreytingar hefði því farið í bága við ákvæði tilskipunarinnar.

Evrópudómstóllinn hafnaði þessari túlkun. Tilskipuninni væri ætlað að vernda starfsmenn gegn mögulegum neikvæðum áhrifum breytinga í skipulagi fyrirtækja vegna þróunar á sviði efnahagsmála, innan einstakra aðildarríkja og á Evrópuvísu, m.a. fyrir tilstuðlan framsals og/eða samruna fyrirtækja. Tilskipunin tæki hins vegar ekki til endurskipulagningar á opinberum stjórnsýslustofnunum eða framsals á stjórnsýsluverkefnum milli opinberra stjórnsýslustofnana.

__________________________

C-171/94 og C-172/94. 7. mars 1996. Merckx.

Aðilaskipti að bílaumboði. 

Ákvæði 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar hamla því ekki að starfsmaður sem er í ráðningarsambandi hjá framseljanda daginn sem aðilaskipti eiga sér stað hafni því að framsalshafi yfirtaki réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi hans. Komi sú staða upp þá fellur það í hlut viðkomandi aðildarríkis að ákveða stöðu ráðningarsamningsins gagnvart framseljanda. Aðildarríki geta í slíkum tilvikum mælt fyrir um að ráðningarsamningnum skuli teljast slitið annað hvort af starfsmanni eða atvinnurekanda. Þegar ráðningarsamningi er hins vegar slitið vegna þess að breyting er gerð á endurgjaldi fyrir vinnuframlag starfsmannsins þá gerir 2. mgr. 4. gr. þá kröfu til aðildarríkja að atvinnurekandinn verði álitinn bera ábyrgð fyrir þeim slitum, enda telst breyting á upphæð launa veruleg breyting á starfsskilyrðum í skilningi framangreinds ákvæðis. 

__________________________

C-48/94. 19 September 1995. Rygaard.

Samningur um framkvæmd á tilteknu verki. Framsal á þeim samningi var ekki talin aðilaskipti að efnahagslegri einingu í skilningi tilskipunarinnar.

__________________________ 

C-472/93. 7. desember 1995. Spano.

__________________________

C-392/92. 14. apríl 1994. Schmidt.

__________________________

C-382/92. 8. júní 1994. Framkvæmdastjórnin gegn Bretlandi og Norður-Írlandi.

Lög aðildarríkis sem einungis gera kröfu um að framseljanda eða framsalshafi, sem sjá fyrir að grípa þurfi til ákveðinna ráðstafana vegna starfsmanna sem verða fyrir áhrifum af aðilaskiptunum, hafi samráð við fulltrúa þeirra stéttarfélaga sem hann hefur viðurkennt (sbr. reglur í Bretlandi um viðurkenningu atvinnurekanda á stéttarfélagi), taki til skoðunar athugasemdir sem frá þeim kunni að koma og svari þeim athugasemdum og, ef hann hafnar þeim, að bjóða fram skýringar á afstöðu sinni, á sama tíma og 2. gr. 6. gr. tilskipunar  77/187/EBE leggur þá skyldu á atvinnurekanda að hafa samráð við fulltrúa starfsmanna með það að markmiði að komast að samkomulagi, uppfylla ekki ákvæði tilskipunarinnar.

__________________________ 

C-209/91. 12. nóvember 1992. Rask.

__________________________

C-132/91, C-138/91 og C-139/91. 16. desember 1992. Katsikas.

Um heimild starfsmanns til að hafna yfirfærslu á ráðningarsamningi til nýs atvinnurekanda.

__________________________ 

C-29/91. 19. maí 1992. Redmond Stichting.

__________________________

C-362/89. 25. júlí 1991. Urso. 

Gjaldþrot og aðilaskipti að fyrirtækjum.

__________________________ 

144 and 145/87. 5. maí 1988. Harry Berg.

Í máli þessu var fjallað um ábyrgð atvinnurekandans Ivo Martin Besselsen á kröfum vegna vangoldinna launa fyrrum starfsmanna hans þeirra Harry Berg og Johannes Busschers.

Málsatvik voru þau að þann 15. febrúar 1983 yfirtók fyrirtæki í eigu Manshanden og Tweehuijzen atvinnurekstur sem Besselsen hafði haft með höndum á grundvelli kaupleigusamnings (e. lease-purchase). Starfsmenn Besselsen þeir Berg og Busschers héldu áfram störfum í fyrirtækinu í kjölfar þessara aðilaskipta.

Með úrskurði uppkveðnum 25. nóvember 1983, sem kveðinn var upp að kröfu Besselsen, var þessum kaupleigusamningi rift á þeim grundvelli að kaupendurnir hefðu ekki uppfyllt skuldbindingar sínar. Skyldi fyrirtækið afhent til baka til Besselsen.

Berg og Busschers kröfðust þess fyrir dómi að Besselsen yrði dæmdur til að greiða þeim vangoldin laun sem þeir höfðu unnið fyrir á því tímabili sem fyrirtækinu var stýrt af Manshanden og Tweehuijzen. Þá kröfu rökstuddu þeir með því að aðilaskipti að fyrirtæki geti ekki haft þau áhrif að fella niður ábyrgð framseljanda á þeim skuldbindingum sem á honum hvíla samkvæmt ráðningarsamningi nema fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi starfsmanna. Kröfugerðin byggði m.ö.o. á því að aðilaskiptin og tímabundinn rekstur fyrirtækisins undir stjórn Manshanden og Tweehuijzen hefði ekki fellt niður þá ábyrgð sem hvíldi á Besselsen samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi hans og hlutaðeigandi starfsmanna. Hann væri þannig einnig ábyrgur fyrir þeim launum sem þeir unnu fyrir í tíð þeirra Manshanden og Tweehuijzen.

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að túlkun 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, og þá sérstaklega með samanburði á fyrstu og annarri  undirmálsgrein 1. mgr., leiði það í ljós að aðilaskipti að fyrirtæki hafa í för með sér sjálfkrafa framsal (e. automatic transfer) frá framseljanda til framsalshafa á skuldbindingum atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi, með fyrirvara þó um rétt aðildarríkja til að mæla fyrir um sameiginlega ábyrgð framseljanda og framsalshafa eftir aðilaskiptin. Af því leiðir að framseljandi er leystur undan ábyrgð sinni sem atvinnurekandi vegna aðilaskiptanna og eru þessi réttaráhrif ekki háð samþykkti starfsmanna. Dómstóllinn tekur einnig fram að krafa hlutaðeigandi starfsmanna verði ekki heldur byggð á þeirri meginreglu kröfuréttarins, sem þó sé almennt viðurkennd í rétti aðildarríkjanna, að skuld verði ekki framseld þriðja aðila nema með samþykki kröfuhafa.

Dómstóllinn leggur þess í stað áherslu á við túlkun tilskipunarinnar skuli hafa að leiðarljósi það markmið hennar að tryggja réttindi starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi þegar aðilaskipti að fyrirtæki eiga sér stað. Það er af þeirri ástæðu sem tilskipunin mæli fyrir um sjálfkrafa framsal á skuldbindingum sem eiga rætur að rekja til ráðningarsamnings frá framseljanda til framsalshafa. Gangi þessi grundvallarregla tilskipunarinnar framar þeim lagarökum sem umræddir starfsmenn byggi mál sitt á hvað varðar skilyrði um samþykki þeirra.

Þá segir dómstóllinn að með því að veita aðildarríkjum vald til að lögfesta ákvæði um sameiginlega ábyrgð framseljanda og framsalshafa í kjölfar aðilaskipta, sbr. seinni undirmálsgrein 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sé þeim gert kleift að aðlaga grundvallarreglu tilskipunarinnar um sjálfkrafa yfirfærslu skuldbindinga við aðilaskipti að þeim reglum sem gildi að öðru leyti á þessu sviði í landsrétti aðildarríkja.

__________________________

101/87. 15. júní 1988. Bork.

Uppsagnir starfsmanna skömmu fyrir aðilaskipti.  

__________________________

324/86. 10. febrúar 1988. Daddy’s Dance Hall.

__________________________

287/86. 17. desember 1987. Ny Mølle Kro.

__________________________

24/85. 18. mars 1986. Spijkers.

Með hugtakinu aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis í skilningi tilskipunarinnar er átt við það tilvik þegar sá atvinnurekstur sem um ræðir heldur einkennum sínum þrátt fyrir aðilaskiptin. Við mat á því hvort því skilyrði telst fullnægt verður að skoða alla þætti sem einkenna viðskiptin, þ.m.t. tegund þess fyrirtækis eða rekstrar sem í hlut á, hvort hlutbundnar eignir eða huglæg réttindi eru framseld, verðmæti og eðli slíkra réttinda, hvort meirihluti starfsmanna, eða starfsmenn með sérþekkingu eða reynslu hafi verið teknir yfir, hvort að viðskiptavinir hafi fylgt með í kaupunum, að hve miklu leyti starfsemin er sambærileg fyrir og eftir aðilaskiptin og ef svo ber undir, sá tími sem starfsemi liggur niðri.

__________________________

237/84. 15. apríl 1986. Framkvæmdastjórnin gegn Belgíu.

235/84. 10. júlí 1986. Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu. 

105/84. 11. júlí 1985. Foreningen af Arbejdsledere i Danmark gegn A/S Danmols Inventar, þrotabú.

186/83. 7. febrúar 1985. Arie Botzen o.fl. gegn Rotterdamsche Droogdok Maatschappij BV.

179/83. 7. febrúar 1985. Industriebond FNV og Federatie Nederlandse Vakbeweging (FNV) gegn The Netherlands State.

135/83. 7. febrúar 1985. The Administrative Board of the Bedrijfsvereniging voor de Metaalindustrie en de Electrotechnische Industrie Abels. ABELS.

19/83. 7. febrúar 1985. Knud Wendelboe o.fl. gegn L.J. Music ApS, þrotabú.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn