Samúðarverkfall telst vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars, sem á í verkfalli. Í 3. tl. 17. gr. laga nr. 80/1938 segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun. Með gagnályktun frá þessari grein fæst sá skilningur að heimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi sem hafið hefur lögmæta vinnustöðvun. Samúðarverkföll eru almennt viðurkennd í dag með vísan til þessa lagaákvæðis og einnig vegna framkvæmdar í þessum málum áður en lög nr. 80/1938 voru sett. Félagsdómur hefur staðfest þennan rétt. Sjá Félagsdóma 1/1941 (I:130),2/1945 (II:159) og 6/1975 (VII:192).
Samúðarverkföll eru að því leyti ólík öðrum verkföllum að þau miða að því að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Þeir sem fara í samúðarverkfall vonast því ekki til þess að koma fram sínum eigin kröfum heldur kröfum annarra. Sé tilgangurinn sá að knýja fram breytingar á eigin samningum er ekki um samúðarvinnustöðvun að ræða og kann slík aðgerð þar af leiðandi að vera ólögmæt. Hér er því um hreina stuðningsaðgerð að ræða.
Friðarskyldan kemur samkvæmt þessu ekki í veg fyrir samúðarverkföll. Þetta helgast fyrst og fremst af tilgangi þeirra. Þess verður þó að geta að það er ekki heiti vinnustöðvunar sem gerir hana að samúðarverkfalli heldur tilgangur hennar og markmið.
Greiða skal atkvæði með sama hætti um boðun samúðarverkfalls eins og annarra verkfalla, boða skal þau með sömu frestum og til sömu aðila og önnur verkföll.
Ef marka má niðurstöðu Félagsdóms í málinu nr. 10/1985 (IX:115), er íslenskum stéttarfélögum heimilt að boða til samúðarverkfalls til stuðnings lögmætu verkfalli erlendis. Í þessu máli hafði Dagsbrún boðað innflutnings- og afgreiðslubann á Suður-Afrískar vörur í Reykjavíkurhöfn til stuðnings mannréttindabaráttu blökkumanna. Eimskipafélag Íslands taldi að um brot á friðarskyldu væri að ræða og ólögmæta pólitíska aðgerð. Í niðurstöðu Félagsdóms segir:
„Verður ekki talið, að bannið eigi sér heimild í 3. tölulið 17. gr. laga nr. 80/1938, þar sem eigi hefur verið sýnt fram á, að það sé til stuðnings ákveðnu verkfalli, enda ekki vísað til þess, er það var boðað.“
Þessi niðurstaða Félagsdóms verður ekki skilinn á annan veg en þann, að lögmætt sé að boða til samúðarverkfalls hér á landi til stuðnings lögmætri verkfallsaðgerð erlendis.
Sömu sjónarmið voru uppi í dómi sænska félagsdómsins í málinu nr. 33/2022 þar sem stéttarfélag sænskra hafnarverkamanna boðaði þann 17.3 2022 bann á þjónustu við skip undir rússneskum fána og bann á lestun og losun á vörum til og frá Rússlandi. Þetta var gert til stuðnings úkraísnkum hafnarverkamönnum og úkraínskum almenningi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þann 24.2 2022. Rétturinn taldi að þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að „samúðarverkfallið“ hefði verið boðað til stuðnings löglega hafins verkfalls þó erlendis væri, væri það ólögmætt. Með öðrum orðum þá er lögmætt að efna til samúðarvinnustöðvunar ef sýnt er fram á að það sé til stuðnings löglega hafins verkfalls þó erlendis sé.