VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Stéttarfélög eru grunneiningar á vinnumarkaði

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 gera ráð fyrir að stéttarfélagið sé hin skipulagslega grunneining samtaka launafólks á vinnumarkaði. Samkvæmt þeim fer stéttarfélagið (grunneiningin) með samningsréttinn fyrir félagsmenn sína sbr. 5. gr. laganna þar sem segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Hins vegar er félögunum heimilt að framselja umboð sitt til kjarasamninga og algengt að það sé gert. Ýmist er umboðið framselt til stærri skipulagseininga eins og t.d. til landssambanda ASÍ eða beint til ASÍ. Umboð af þessum toga geta bæði verið tímabundin og ótímabundin, tekið til endurnýjunar tiltekinna kjarasamninga eða tiltekins hluta þeirra. Framsal afmarkaðra umboða eru algeng þegar í hlut eiga samræmd réttindi eins og á við í meginatriðum t.d. um veikindarétt og uppsagnarfresti og föst regla þegar fjallað er um lífeyrismál sem skv. venju er samið um á vettvangi ASÍ. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn