Samkvæmt 14. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett eru í lögum.
Þeir aðilar sem njóta þessa réttar eru tæmandi taldir í greininni, en þeir eru í fyrsta lagi stéttarfélög, í öðru lagi félög atvinnurekenda og í þriðja lagi einstakir atvinnurekendur. Einstakir launamenn eða starfshópar án aðildar stéttarfélags hafa heldur ekki rétt til að boða til verkfalls samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvörðun þeirra um að leggja niður vinnu verður ekki talin verkfall í skilningi laganna. Einstakir atvinnurekendur geta á hinn bóginn að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna lýst yfir verkbanni.
Sambönd stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga
Sambönd stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga virðast skv. orðanna hljóðan ekki hafa sjálfstæðan rétt til að gera verkföll og verkbönn sé ákvæðið túlkað eftir orðanna hljóðan. Hvað sambönd stéttarfélaga varðar var tekist á um þetta í Féld. 8/2015. Þar boðaði RSÍ til verkfalls félagsmanna sinna í tveimur aðildarfélögum sambandsins. Fram kom að félögin höfðu framselt samningsumboð sitt til RSÍ og að atkvæðagreiðslan var ákveðin af RSÍ fyrir hönd samninganefndar þessara tveggja aðildarfélaga. Það var talið heimilt en hins vegar talið óheimilt að ákveða að atkvæði félagsmanna beggja félaga yrðu talin saman og meirihlutinn látinn ráða enda verkfallsrétturinn „bundinn við stéttarfélög skv. 14.gr. laga nr. 80/1938.“ Verkfallið var því dæmt ólögmætt.
Vinnuveitendasamband Íslands (nú Samtök atvinnulífsins) hefur þó verið talið hafa verkbannsheimild og hafa boðað verkbann gagnvart einstökum stéttarfélögum, svo sem til dæmis í Félagsdómi 11/1984 (IX:88), er VSÍ boðaði verkbann gagnvart félagsmönnum Félags bókagerðarmanna, sem voru í verkfalli, og Blaðamannafélags Íslands. Verkbannsheimild VSÍ var þó ekki til úrlausnar í Félagsdómi og rétti VSÍ til boðunar verkbanns hafði ekki verið mótmælt sérstaklega. Dómurinn er því vart fordæmisgefandi.