VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Orlof og frídagar

Orlofsréttur launafólks byggist á orlofslögum, nr. 30/1987 og kjarasamningum stéttarfélaga. 

Til hverra ná orlofslögin

Í 1. gr. orlofslaga segir að allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eigi rétt á orlofi og orlofslaunum. Þannig á að greiða orlof til allra launþega. 

Verktakar eiga ekki rétt til orlofslauna. (Sjá hér Hrd. 1947:22 og Hrd. 1978:772.)

Orlofstaka og orlofslaun

Svo sem fram kemur í lögunum fjalla þau annars vegar um rétt launamanns til leyfis frá störfum og hins vegar um rétt hans til greiðslu orlofslauna þann tíma sem hann er frá störfum. Oftast fer þetta tvennt saman en þarf þó ekki að gera það. Þannig getur starfsmaður, sem nýlega hefur hafið störf, átt rétt til leyfis án þess að eiga rétt á greiðslum í leyfinu frá núverandi atvinnurekanda. Hann hefur þá áður fengið uppgerð orlofslaun frá fyrri atvinnurekanda.

Betri réttur í ákvæðum kjarasamningum

Samkvæmt 2. gr. orlofslaga rýra orlofslögin ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt samkvæmt öðrum lögum, samningum eða venjum. Orlofslögin kveða með öðrum orðum á um lágmarksrétt. Því er heimilt í kjarasamningum og ráðningarsamningum að semja um betri orlofsrétt.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn