VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Vinnuvernd mæðra og þungaðra kvenna

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020 er kveðið á um skyldur atvinnurekenda til að meta eða láta fara fram mat á áhættuþáttum varðandi vinnuaðstæður og skipulag vinnunnar með tilliti til öryggis og heilbrigðis þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti. Þessar skyldur og framkvæmd þeirra eru síðan útfærðar frekar í reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti  nr. 931/2000. Í 2.gr. reglugerðarinnar segir að hugtökin „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“ í skilningi reglugerðarinnar eigi einungis við þær konur hafa greint atvinnurekanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 144/2020 segir að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði.

Í 2. mgr. segir að þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu samkvæmt greininni skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Jafnframt kemur fram í 3. mgr. að ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt 1. mgr. á hún rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir.

Síðastgreinda reglan á ekki við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. úrskurðir Úrskurðarnefndar velferðarmála 43/2007, 56/2008 og 36/2011. Þá á reglan heldur ekki við sé starfsmaður í skertu starfshlutfalli vegna lengingar fæðingarorlofs enda er ekki gert ráð fyrir í ákvæðinu að starfsmaður þiggi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli og sé í launuðu starfi, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 6/2009. Hafa ber hugfast að þetta hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns til þess að komast að samkomulagi við atvinnurekanda um að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 10. gr. fæðingarorlofslaga.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn