Starfsmönnum er óheimilt að hlaupast á brott úr starfi. Vilji þeir slíta ráðningarsamningi ber þeim að segja honum upp með löglegum uppsagnarfresti og vera reiðubúnir að vinna út uppsagnarfrest sinn. Þegar starfsmenn hverfa úr starfi án þess að virða uppsagnarfrest getur það verið vegna einhvers ágreinings sem kemur upp á vinnustað og þeir telja sér heimilt að hætta strax. Dómstólar eiga síðasta orðið um þennan ágreining og af dómum má ráða að gerðar séu kröfur um verulega vanefnd af hálfu atvinnurekanda til að starfsmanni sé heimilt að hætta störfum strax.
Svipuð sjónarmið gilda mæti starfsmaður ekki til starfa eftir veikindi, fæðingarorlof, launalaust leyfi eða orlof. Starfsmönnum er skylt að hverfa aftur til starfa að loknum veikindum, fæðingarorlofi, í lok launalauss leyfis eða orlofs, nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Því má jafna til brotthlaups úr starfi, mæti starfsmenn ekki, en atvik geta þó oft verið þess eðlis að um misskilning á milli aðila er að ræða og þannig ekki um að kenna ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
Í Hrd. 1958:625 var dæmt í máli manns sem fór fyrirvaralaust úr starfi og réðst til annarra aðila í sömu starfsgrein en hann taldi að laun hefðu verið rangt reiknuð. Var starfsmanninum gert að greiða atvinnurekanda skaðabætur sem samsvöruðu launum fyrir helming uppsagnarfrests mannsins með vísan til hjúalaga, enda var ekki talið að starfsmaðurinn hafi fært rök fyrir vanefndum af hálfu atvinnurekanda.
Í Hrd. 1978:1247 var deilt um brottrekstur starfsmanns. Verulegur hluti launa hafði verið greiddur með innstæðulausum tékka og ekki á réttum gjalddögum og leitaði starfsmaður sér þá að annarri vinnu og hóf störf þar. Í héraðsdómi sagði að telja yrði upplýst að atvinnurekandi hefði vanefnt samning sinn við starfsmanninn með því að greiða launin ekki á réttum gjalddögum. Hins vegar sé einnig upplýst að starfsmaður hefði ekki tilkynnt atvinnurekanda að hann myndi hætta eða vildi hætta vegna þessa og gaf hann atvinnurekanda ekki kost á að sjá um að slíkt endurtæki sig ekki. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu með þeim ummælum að vanefnd stefnda á greiðslum vinnulauna til áfrýjanda sé ekki þess eðlis að hún hafi heimilað áfrýjanda að slíta vinnusamningi málsaðilja fyrirvaralaust. Sjá einnig Hrd. 1996:605, Hrd. 15/1957 (Týli) og Hrd. nr. 233/2003.
Sjá jafnframt héraðsdóma Reykjavíkur í málum nr. E-3239/2006 og nr. E-5253/2006.