Í 3. gr. laga nr. 42/2010 koma fram reglur um vinnustaðaskírteini. Reglur og framkvæmd eftirlits á vinnustöðum eru útfærð í samkomulögum milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um vinnustaðaskírteini m.a. með tilliti til þess í hvaða atvinnugreinum er ætlast til að starfsmenn og atvinnurekendur að beri slík skírteini.
Það er á ábyrgð atvinnurekanda að sjá til þess að hann sjálfur sem og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Ber bæði atvinnurekendum og starfsmönnum að hafa vinnustaðaskírteinin á sér við störf sín. Á skírteininu skal koma fram nafn og kennitala atvinnurekanda eða annað auðkenni hans og nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd af starfsmanni og starfsheiti. Vekja ber athygli á að skyldan til útgáfu vinnustaðaskírteinis hvílir á atvinnurekanda óháð því hvort að starfsmenn séu ráðnir beint til hans eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu.
Meðal þeirra atvinnugreina þar sem atvinnurekendur og starfsmenn skulu vera með vinnustaðaskírteini eru. Athuga skal að listinn er ekki endilega tæmandi:
- Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð
- Rekstur gististaða
- Söluturnar og veitingarekstur
- Húsgagna- og innréttingaiðnaður
- Gleriðnaður og skyld starfsemi
- Kjötiðnaður
- Bakstur
- Bílgreinar
- Rafiðnaður
- Ýmsar málm- og véltæknigreinar
- Veitustarfsemi
- Fjarskipti og upplýsingastarfsemi
- Öryggisþjónusta
- Ræktun nytjajurta
- Svína- og alifuglarækt
- Eggjaframleiðsla
- Farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta
- Skrúðgarðyrkja
- Ýmis þjónustustarfsemi