Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 hafa menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi þar með talin stéttarfélög. Engan er þó hægt að skylda til aðildar að félagi skv. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í Mannréttindasáttmála Evrópu, Félagsmálasáttmála Evrópu og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er rétturinn til starfrækslu stéttarfélaga, rétturinn til þess að gera kjarasamninga og beita verkföllum ennfremur verndaður.
Í 1. gr. laga nr. 80/1938 segir að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Stéttarfélögin skulu opin öllum í þeim störfum sem samþykktir félaganna vísa til og skal félagssvæði þeirra aldrei vera minna en eitt sveitarfélag, sbr. 2. gr. laganna. Þá er tekið fram að stéttarfélög ráði sjálf málefnum sínum með þeim takmörkunum sem sett er í lögunum. Einstakir meðlimir félaganna eru bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess sem það kann að vera í.
Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því en samningar þeir sem hann hefur orðið bundinn af á meðan hann var félagsmaður eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf sem samningurinn er um þar til samningarnir geta fyrst fallið úr gildi fyrir uppsögn.
Kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör
Skv. lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 eru laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til og er atvinnurekendum gert skylt að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og ákvæðum l. 55/1980 er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.
Félagafrelsi
Launafólki er heimilt að skipta um aðild að stéttarfélagi og hefur um slíkt verið fjallað í Félagsdómi. Sagði þannig t.d. í dómiFélagsdóms nr. 9/1999 að félagsmönnum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hafi verið frjálst að segja sig úr því og ganga í Vélstjórafélag Íslands þrátt fyrir að um laun þeirra og starfskjör færi eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þar til hann félli úr gildi.
Launafólki er því frjálst að vera í því stéttarfélagi sem það kýs að því gefnu að það uppfylli skilyrði um inngöngu skv. samþykktum félaganna sem og að standa utan félaga kjósi það svo. Aftur á móti leiðir aðild launamanns að stéttarfélagi ekki sjálfkrafa til þess að um laun hans og kjör fari eftir samningum þess stéttarfélags. Þar skiptir máli hvert er starfs- og samningssvið stéttarfélagsins, m.ö.o. skiptir máli hvort starf launamannsins sé á samningssviði stéttarfélagsins eða ekki.
Í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir í 7. gr. um aðild að þeim stéttarfélögum sem undir lögin falla að starfsmaður sem lögin taki til eigi rétt á þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögunum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segja. Aðeins eitt félag fer þó með umboð til samninga fyrir hann. Í 2. mgr. 7. gr. segir síðan að starfsmaður sem ekki er innan stéttarfélags greiði gjald til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra enda fari um laun hans og starfskjör eftir samningum samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.
Þau tilvik geta vitanlega komið upp að ríki eða sveitarfélög hafi gert kjarasamning um sömu störf við tvö stéttarfélög, annars vegar stéttarfélag opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 94/1986 og hins vegar almennt stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938. Þá kann spurning að vakna um frelsi launamannsins til að ákvarða til hvaða stéttarfélags hann greiði félagsgjöld og eftir hvaða kjarasamningi hann tekur laun.
Í Félagsdómi nr. 1/2006 var fjallað um ágreining um samningsaðild en svo stóð á að sami atvinnurekandi hafði gert kjarasamning við tvö stéttarfélög, annars vegar stéttarfélag opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 94/1986 og hins vegar almennt stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938 þar sem sömu störfunum var til að dreifa. Niðurstaða dómsins var sú að samningsaðild beggja félaga var í reynd viðurkennd enda væri megininntak réttar manna til aðildar að stéttarfélögum samningsfyrirsvar félaganna við kjarasamningsgerð. Viðurkennt var því að hið almenna stéttarfélag færi með samningsaðild fyrir launamanninn að ósk hans.
Launafólki er því frjálst á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar að ákveða hvort það vilji standa innan eða utan stéttarfélaga. Því ber þó að greiða iðgjald til þess stéttarfélags sem gerir kjarasamning þann sem tekur til starfsins. Séu í gildi tveir sambærilegir kjarasamningar um starf hjá hinu opinbera hefur launamaðurinn frelsi til að ákvarða til hvors stéttarfélags hann greiðir og þar með hvaða kjarasamningi hann tekur laun eftir.