VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Upplýsingagjöf um persónuleg málefni

Það er almenn leiðbeiningarregla að við ráðningu í starf þurfi umsækjandi einungis að skýra frá þeim atriðum sem telja má að skipti atvinnurekanda máli varðandi það starf sem sótt er um. Þau sjónarmið sem rakin eru í umfjöllun um persónuvernd launafólks kunna einnig að eiga hér við.  Sjá einnig kaflann um sakavottorð.

Almennt er ekki að finna nein ákvæði um skyldur umsækjenda til að skýra frá atvikum við ráðningu. Krefjist starf ákveðinna réttinda, hæfileika eða prófa er litið svo á að umsækjandi skuli sýna fram á að hann hafi tilskilin réttindi, t.d. með prófskírteini. Í einstaka lögum eru ákvæði um embættisgengi sem kveða á um að viðkomandi skuli hafa óflekkað mannorð, hafa náð ákveðnum aldri og að bú hans megi ekki vera undir gjaldþrotaskiptum. Þegar svo háttar ber umsækjanda að sýna fram á að þessi atriði séu til staðar.

Einstaka kjarasamningar kveða á um það að við ráðningu starfsmanns skuli hann leggja fram heilbrigðisvottorð.

Frá hverju ber að skýra sérstaklega: sjúkdómar, þungun, persónulegir hagir

Stundum getur umsækjanda verið skylt að skýra frá ákveðnum atriðum sem snerta hann sjálfan, ef þessi atriði eru þess eðlis að snerti beinlínis möguleika hans á að annast þau störf sem verið er að ráða til. Mörkin á milli þess sem telja má vera svo persónuleg mál umsækjanda að ekki beri að skýra frá og þess sem telja má eðlilegt og skylt að skýra frá við ráðningu geta verið óljós. Fer það eftir atvikum hverju sinni hvar þau liggja. Almennt er umsækjandi ekki skyldugur til að leggja fram vottorð um heilbrigði við ráðningu en þurfi umsækjandi að gangast undir uppskurð á næstu mánuðum og sé að bíða eftir sjúkrahúsplássi er eðlilegt að hann skýri frá því. Ekki er hægt að krefjast þess að kona skýri frá fjölskylduáætlunum sínum við ráðningu og almennt ber henni ekki önnur skylda til að skýra frá því hvort hún er barnshafandi en lögin um fæðingarorlof gera ráð fyrir. 

Í 9. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof segir að þegar starfsmaður hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs skuli hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns. Greina skal frá fyrirhuguðum upphafsdegi orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. 

Manni er ekki skylt að greina frá persónulegum högum við ráðningu en greiði hann meðlög með mörgum börnum ber atvinnurekanda að standa skil á þeim greiðslum við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hafi maður hlotið dóm fyrir fjárdrátt væri hann að beita blekkingum ef hann réði sig sem gjaldkera hjá fyrirtæki án þess að skýra frá dóminum.

Þessi atriði eru háð mati og erfitt að setja um þau reglur. Það sem gildir í einu tilviki á ekki endilega við í því næsta. Telji atvinnurekandi að umsækjandi sé að leyna sig einhverju í ráðningarviðtali getur það orðið til þess að annar verði ráðinn. Með sama hætti getur atvinnurekandi hafnað umsækjanda fyrir það að hann talaði ekki um annað en sjálfan sig.

Ákvæði einstakra laga kunna að leggja frekari upplýsingaskyldur á herðar launamanni við ráðningu. Í sjómannalögum, nr. 35/1985, eru ákvæði um að útgerðarmaður geti krafist læknisvottorðs við ráðningu, sbr. 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga, að skipverja sé skylt að láta lækni rannsaka heilsufar sitt ef skipstjóri óskar, samanber 33. gr. laganna og það hefur áhrif á veikindarétt skipverja ef hann hefur leynt vísvitandi atriðum sem snerta heilsufar hans. Í 4. mgr. 36. gr. laganna segir að skipverji eigi ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Meðmæli 

Oft er óskað eftir meðmælum við ráðningu starfsmanna og jafnframt býður starfsmaður þau oft fram. Engar reglur eru til um skyldur til að útvega meðmælendur við ráðningar þar sem ráðningin sem slík er frjáls samningur. Einnig er algengt að sá sem sækir um starf bendi á aðila sem mælt geta með honum, án þess að skrifleg meðmæli liggi fyrir. Í fámennu þjóðfélagi eins og hér á landi er oft meira byggt á samtölum fólks við fyrrum samstarfsfólk og yfirmenn heldur en skriflegum meðmælum. Því er stundum haldið fram að auðveldara sé að skýra frá göllum manna munnlega heldur en að skrifa þá á blað.     

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn