Í félagafrelsinu felast nokkur grundvallarréttindi stéttarfélaga og launafólks. Þau helstu eru rétturinn til þess að stofna stéttarfélög án fyrirfarandi leyfa og rétturinn til þess að ganga í stéttarfélög. Einnig réttur stéttarfélaga til þess að stýra málefnum sínum sjálf án afskipta stjórnvalda eða atvinnurekenda. Síðast en ekki síst felst félagafrelsið í rétti stéttarfélaga til þess að gera kjarasamninga og efna til verkfalla. Öll þessi réttindi eru bæði varin af stjórnarskrá Íslands og almennum lögum en síðast en ekki síst eru þau varin í alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að og skuldbundið sig til þess að framfylgja. Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu réttarheimildum á þessu sviði.
Atvinnufrelsi og kjarasamningsréttur skv. stjórnarskrá
Atvinnufrelsi manna telst til grundvallarmannréttinda. Í atvinnufrelsi felst fyrst og fremst að mönnum sé heimilt að velja sér lífsstarf svo sem hugur þeirra stendur til. Í 75. gr. Stjórnarskrár íslenska lýðveldisins segir að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Skuli í lögum kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.
Tvenn skilyrði eru hér sett við því að bönd megi leggja á atvinnufrelsi manna, að það sé gert með lögum og að almenningsheill krefjist þess. Hér er ekki kveðið á um að bætur komi fyrir og verða menn því að þola skerðingar á atvinnufrelsi bótalaust. Þótt ekki komi bætur fyrir skerðingu á atvinnufrelsi samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar hefur þó verið talið að atvinnuréttindi sem slík njóti verndar eignarnámsákvæða stjórnarskrárinnar.
Lög hafa verið sett hér á landi sem takmarka atvinnufrelsi manna, og hafa dómsmál risið í kjölfar setningu laganna. Meðal annars féllu dómar þar sem tekist var á um skaðabætur vegna missi réttar til vínveitinga í kjölfar laga um aðflutningsbann á áfengi, en bætur voru ekki dæmdar.
Í Hrd. 1959:454 og Hrd. 1964:573 er að finna önnur dæmi um heimild löggjafans til að banna bótalaust atvinnustarfsemi. Minkaeldi var bannað með lögum nr. 11/1951 og höfðaði maður, sem rekið hafði minkabú skaðabótamál á hendur ríkinu fyrir atvinnuspjöll. Hæstiréttur taldi ekki efni til að bæta atvinnuspjöllin, enda hafði minkaeldi verið bannað vegna þeirrar hættu og spjalla sem minkar sem úr haldi sleppa valda.
Með lögum nr. 92/1956 var hnefaleikakennsla bönnuð í landinu án þess að nokkrar bætur væru látnar koma fyrir til þeirra sem af því höfðu haft atvinnu. Sjá hins vegar lög um áhugamannahnefaleika nr. 9/2002 en 1. gr laganna heimilar keppni og sýningu á áhugamannahnefaleikum, auk þess sem heimilt er að kenna áhugamannahnefaleika
Í Hrd. 1993:1217 var kveðinn upp dómur í máli sem reis vegna breytinga á lögum um leigubifreiðar þegar sett voru ákvæði um að atvinnuleyfi félli úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Taldi bílstjórinn meðal annars að með þessari lagasetningu væri verið að brjóta atvinnufrelsi manna. Hæstiréttur féllst ekki á það sjónarmið og sagði að reglan um aldurshámark bifreiðastjóra leigubifreiða væri byggð á almennum og hlutlægum sjónarmiðum og að gætt hafi verið jafnræðis við setningu laganna þar sem þau næðu til allra sem eins væru settir.
Ekki nægir að leggja bönd á atvinnufrelsi manna með reglugerðarákvæði. Í Hrd. 1988:1532 var meðal annars tekist á um atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar í máli sem fjallaði um skyldu leigubifreiðastjóra til að vera félagsmaður í stéttarfélagi leigubílstjóra, en reglugerðarákvæði skyldaði manninn til slíkrar aðildar. Hæstiréttur sagði að samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar hefði þurft lagaboð til að leggja bönd á atvinnufrelsi manna. Með orðinu lagaboð væri átt við sett lög frá Alþingi. Reglugerðarákvæði nægðu ekki ein sér. Lagaákvæði sem takmörkuðu mannréttindi yrðu að vera ótvíræð. Væri svo ekki bæri að túlka þau einstaklingi í hag, því að mannréttindi væru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum.
Dómstólar leggja mat á það hvað átt sé við með orðinu almenningsheill. Í Hrd. 1964:960 var því slegið föstu að almenni löggjafinn hefði metið ráðstafanir um takmarkanir á leigubifreiðum til almenningsheilla.
Nokkuð mörg mál er snerta atvinnufrelsi á einn eða annan hátt hafa komið til kasta Hæstaréttar hin síðari ár. Þó telja fræðimenn að 75. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki mikla réttarlega þýðingu. Aðalþýðing hennar sé sú að handhöfum framkvæmdarvalds sé óheimilt að skerða atvinnufrelsi manna, en sennilega hefði sú regla verið talin gilda þó að ekki væri við þetta stjórnarskrárákvæði að styðjast. Í greininni felist þó almenn stefnuyfirlýsing stjórnarskrárgjafans. Sú stefnuyfirlýsing geti skipt máli við lögskýringu. Hún leiði til þeirrar túlkunarreglu að í vafatilvikum beri að telja líkur fyrir atvinnufrelsinu.
Atvinnukúgun
Atvinnukúgun er ekki réttarlegt hugtak, en er notað um það þegar hömlur eru með ólögmætum og ómálefnalegum hætti lagðar á atvinnufrelsi manna. Hugtakið er notað um þvingun sem á rætur sínar í óréttmætri mismunun, oft af félagslegum toga, svo sem ef litarháttur fólks eða kyn er látið ráða um störf.
Með atvinnukúgun er oftast átt við það þegar atvinnurekandi beitir starfsmenn sína ólögmætum þvingunum, gjarnan félagslegum, sem koma í veg fyrir að þeir geti innt störf sín af hendi með þeim hætti sem ráðningarsamningur þeirra gerir ráð fyrir eða notið skoðanafrelsis sem einstaklingar. Atvinnukúgun getur þó haft víðtækari merkingu. Talað er um atvinnukúgun ef stjórnvöld með ólögmætum aðgerðum sínum hamla atvinnu fólks. Jafnvel hefur verið talað um atvinnukúgun í því sambandi þegar vinnustöðvun er boðuð gagnvart hópum sem ekki eiga í vinnudeilu svo og þegar nýtt stéttarfélag hefur verið stofnað í sömu starfsgrein og félag sem fyrir er. Hugtakið atvinnukúgun hefur verið nefnt þegar starfsmanni fyrirtækis er vikið úr starfi fyrir þær sakir að taka sæti í stjórn þess sem fulltrúi starfsmanna og þegar starfsmanni, sem hefur haft sig mjög í frammi í réttindamálum starfsmanna er einum sagt upp störfum.
Spyrja má hvort það sé atvinnukúgun að í ráðningarsamningi sé ákvæði um að viðkomandi sé ekki félagsmaður í stjórnmálaflokki. Hvatningar atvinnurekenda til starfsmanna um að taka ekki þátt í verkfallsaðgerðum myndu vafalaust teljast atvinnukúgun en meiri vafi gæti leikið á um atvinnukúgun ef atvinnurekandi fer þess á leit að starfsmenn skrifi undir stuðningsyfirlýsingu við sig fyrir framboð til sveitarstjórnar.
Með löggjöf er reynt að sporna við atvinnukúgun, en hún er í eðli sínu andstæð lögum. Auk stjórnarskrárákvæðisins um atvinnufrelsi, sem segja má að sé almenn stefnuyfirlýsing er að finna í lögum um stéttarfélög ákvæði sem hindra eiga atvinnukúgun með því að tryggja skoðanafrelsi manna. Einnig er rétt að benda á ákvæði í alþjóðasáttmálum.
Sjá einnig upplýsingar á heimasíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Skoðanafrelsi launafólks skv. lögum nr. 80/1938
Samkvæmt 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með
- uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
- fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.
Ákvæðið tryggir skoðanafrelsi launafólksins, og þar með félagafrelsi þess.
Greinin nær til atvinnurekenda, verkstjóra og annarra trúnaðarmanna atvinnurekenda. Þar sem henni er ætlað að tryggja að sjálfstæði launamannsins haldist þrátt fyrir ráðningarsamning við atvinnurekanda verður að líta svo á að greinin taki til allra þeirra sem vegna stöðu sinnar hjá fyrirtækinu gætu tengst atvinnurekandanum, svo sem flokksstjóra og starfsmannastjóra.
Greininni er ætlað að vernda skoðanafrelsi launamannsins. Greinin fjallar sérstaklega um bann við áhrifum á stjórnmálaskoðanir, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum. Verndin er tvíþætt, annars vegar vernd gagnvart stjórnmálaskoðunum og hins vegar vernd gagnvart stéttarfélagsþátttöku.
Í greininni felst bann við því annars vegar að segja starfsmanni upp störfum eða hótun um slíka uppsögn og hins vegar bann við fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum í þessu skyni.
Þessari lagagrein hefur ekki oft verið beitt fyrir dómstólum hér á landi. Ástæðan kann ef til vill að vera sú að samkvæmt íslenskum vinnurétti er almennt ekki skylt að geta um ástæður uppsagnar nema sérstök lagafyrirmæli eða samningsákvæði kveði á um annað. Þess ber að geta að í kjarasamningum þeim sem undirritaðir voru þann 17. febrúar 2008 gerðu ASÍ og SA samkomulag um nýbreytni varðandi uppsagnir. Samkvæmt samkomulaginu á starfsmaður nú rétt á viðtali við vinnuveitenda sinn um ástæður uppsagnar, óski hann þess. Áréttað er að frjáls uppsagnaréttur vinnuveitanda sé háður vissum takmörkunum, lögum samkvæmt. Vilji atvinnurekandi þannig segja starfsmanni upp störfum vegna afskipta hans af stjórnmálum eða verkalýðsmálum getur hann sagt manninum upp án þess að geta um ástæður uppsagnar en ef tekst að gera það líklegt að ástæðuna sé að rekja til afskipta viðkomandi af þeim þáttum sem tilgreindir eru í 4.gr. laga nr. 80/1938 getur bæði stofnast refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð.
Á ákvæði 4.gr. hefur þó reynt nokkrum sinnum fyrir Félagsdómi. Í Féld. 2/2021 var atvinnurekandi talinn hafa brotið ákvæði a. liðar 4.gr. með því að segja upp starfsmönnum sínum og ráða verktaka í þeirra stað eftir að viðræður um nýjan kjarasamning höfðu hafist. Í Félagsdómum 6/1952 (IV:1) og 7/1952 (IV:15) er fjallað um mál sem reis er formanni og varaformanni Félags járniðnaðarmanna var sagt upp störfum í framhaldi af því að hvíldartímaákvæði voru brotin. Formaður og varaformaður Félags járniðnaðarmanna höfðu verið starfsmenn tiltekins fyrirtækis um árabil. Í tengslum við iðnsýningu sem hér var haldin 1953 lét forstjóri fyrirtækisins starfsmenn vinna án hvíldar í á annan sólarhring. Í kjölfar gagnrýni sem upp kom á vinnustað vegna þessa var trúnaðarmanni svo og formanni og varaformanni sagt upp störfum. Þeim voru greidd laun út uppsagnarfrest en gert að hætta strax. Síðar var fallist á að taka trúnaðarmanninn aftur í starf, en uppsagnir hinna látnar halda sér. Félagsdómur dæmdi fyrirtækið til greiðslu sektar vegna brots á 4. gr. l. 80/1938 og jafnframt voru mönnunum dæmdar skaðabætur. Í rökstuðningi Félagsdóms 6/1952 (IV:1) segir meðal annars að ekkert hafi komið fram um það að framkoma formannsins í sambandi við vinnu þessa hafi verið með þeim hætti að hún gæfi út af fyrir sig réttmæta ástæðu til uppsagnar hans. Skipti ekki máli í því sambandi, hvort þær aðfinnslur, sem kunni að hafa verið bornar fram út af nefndri vinnu væru réttmætar eða ekki, ef þær voru bornar fram á viðurkvæmilegan hátt. Í 4. gr. laga nr. 80/1938 segi meðal annars að atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á afstöðu og afskipti verkamanna sinna af stéttarfélögum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn. Framangreind uppsögn hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á afskipti verkamanna fyrirtækisins af málefnum stéttarfélags þeirra. Varði uppsögn formannsins því við tilvitnað lagaákvæði.
Stjórnarskrá og samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
Félagafrelsið er sérstaklega varið í stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO og í samþykktum nr. 87 og 98 eins og þær hafa verið túlkaðar frá upphafi. Um túlkun þessara ákvæða og áratugaframkvæmd er fjallað á skipulegan hátt á vef ILO. Einnig er hægt að nálgast þetta sem sérstaka útgáfu ILO þar sem teknar eru saman réttarheimildir og túlkanir ILO í ritinu „Freedom of association“.
Í samþykkt ILO nr. 98 um beitingu grundvallarreglanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega segir í 1. gr. að verkamenn skuli tilhlýðilega verndaðir fyrir því að þeir séu látnir gjalda þess um atvinnu að þeir séu félagsbundnir. Slík vernd skuli sérstaklega beinast að athöfnum sem miða að því að binda ráðningu verkamanna til vinnu því skilyrði að þeir gangi ekki í stéttarfélag eða segi sig úr slíku félagi og því að verkamönnum sé sagt upp vinnu eða þeim gert annað ógagn vegna hlutdeildar sinnar í félagsskap, þátttöku í félagsstarfsemi utan vinnutíma eða í vinnutíma með samþykki vinnuveitandans.
Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félög vinnuveitenda og verkamanna skuli njóta nægilegrar verndar gegn afskiptum hverra af öðrum við stofnun þeirra, starfsemi og stjórn, hvort sem þau afskipti eru bein að framkvæmd af umboðsmönnum eða meðlimum slíkra félaga. Einkum skulu athafnir þær sem miða að því að stuðla að stofnun verkalýðsfélaga undir yfirráðum vinnuveitenda eða félagssamtaka þeirra, eða að styrkja verkalýðsfélög fjárhagsleg eða á annan hátt í því skyni að koma þeim undir stjórn vinnuveitenda eða félagssamtaka þeirra taldar afskipti í merkingu greinarinnar. Ísland hefur staðfest þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og hefur hún því gildi hér að þjóðarrétti. Stjórnvöld hafa sem sé skuldbundið sig til að tryggja að ákvæði hennar séu haldin hér á landi.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 lögbinda sáttmálann hér á landi. Í sáttmálanum eru grundvallarréttindi tryggð, svo sem frelsi og mannhelgi, friðhelgi einkalífs og vernd gegn pyndingum og þrældómi. Í 9. gr. sáttmálans segir að sérhver maður eigi rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar.
Tíunda grein sáttmálans kveður á um tjáningarfrelsi og félagafrelsi er tryggt í 11. gr. Þar segir að rétt skuli mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi
Réttur manna til vinnu og til að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem menn velja sér er einnig tryggður í 6. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem fullgiltur var 1979.
Félagsmálasáttmáli Evrópu
Í Félagsmálasáttmála Evrópu, sem Ísland varð aðili að 1976 er ítarlega fjallað um vinnu, svo sem rétt til vinnu, til sanngjarnra vinnuskilyrða, til öryggis við störf og heilsusamlegra vinnuskilyrða, til sanngjarns kaups, til að stofna félög og semja sameiginlega. Þar er þó hvergi að finna einstakt ákvæði um bann við atvinnukúgun, heldur verður að leiða þann rétt fram með fleiri en einu ákvæði sáttmálans.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi
Réttur manna til vinnu og til að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem menn velja sér er einnig tryggður í 6. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem fullgiltur var 1979.
Sjá einnig upplýsingar á heimasíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Neikvætt félagafrelsi
Þegar vísað er til neikvæðs félagafrelsis er átt við rétt manna til þess að standa utan félaga. Almennt er viðurkennt að heimilt er að þvinga menn til aðildar að félögum hafa sérstakt og nauðsynlegt hlutverk í almannaþágu. Skýrasta dæmið um það er skylda til aðildar að veiðifélögum. Rétturinn til þess að standa utan félaga er ekki jafn skýr í réttarheimildum, ríkur eða vel varinn eins og félagsfrelsið sjálft. Um réttinn til þess að standa utan stéttarfélaga er nánar fjallað í kaflanum „Réttur til að standa utan stéttarfélags“.