VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hvað er verkfall

Eitt helsta einkenni verkfalls er að venjuleg störf þeirra sem eru í verkfalli leggjast niður að einhverju eða öllu leyti. Orðið verkfall er gagnsætt að þessu leyti. Verkin falla niður. Verkfall getur verið hvers konar rof á þeirri vinnu sem launafólki er skylt samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi að inna af hendi, enda sé aðgerðin framkvæmd með aðild stéttarfélags og uppfylli formskilyrði laga nr. 80/1938.

Verkfall getur falist í því að allir leggi niður öll störf frá tilteknum tíma, að hluti hópsins leggi niður vinnu frá tilteknum tíma, að öll vinna leggist niður tiltekna daga, að engin yfirvinna sé unnin, að vinna sé ekki innt af hendi um helgar, að tilteknir þættir starfsins séu ekki unnir, en öll önnur vinna með eðlilegum hætti og jafnvel getur það talist verkfall að fólk hægi á sér í vinnu frá því sem eðlilegt má teljast. Algengast er að verkfall felist í því að allir sem vinna þau störf sem kjarasamningur tekur til leggja alfarið niður störf sín. En stéttarfélagið ræður því hversu víðtækt verkfallið er, hvort það nær til alls félagssvæðisins eða einungis hluta þess sbr. Félagsdómur 7/1965 (V:222), hvort það nær til tiltekins vinnustaðar eða jafnvel einungis til ákveðinna þátta starfsins sjá Félagsdóm 7/1988 (IX:253). 

Algengast er að verkfall felist í því að allir sem vinna þau störf sem kjarasamningur tekur til leggja alfarið niður störf sín. En stéttarfélagið ræður því hversu víðtækt verkfallið er, hvort það nær til alls félagssvæðisins eða einungis hluta þess sbr. Félagsdómur 7/1965 (V:222), hvort það nær til tiltekins vinnustaðar eða jafnvel einungis til ákveðinna þátta starfsins sjá Félagsdóm 7/1988 (IX:253).

Fundarhöld og hópuppsagnir – aðkoma stéttarfélaga

Í Félagsdómi 14/1992 var fjallað fundarhöld stéttarfélags í tengslum við kjaradeilu en trúnaðarráð Sjúkraliðafélags Íslands tilkynnti gagnaðila sínum með bréfi að trúnaðarráð félagsins hefði ákveðið félagsmenn myndu funda um sín mál og vera fjarverandi þar til þeim fundi lyki. Í niðurstöðu Félagsdóms segir: „Ljóst er að markmið og tilgangur aðgerða félagsmanna Sjúkraliðafélags Íslands dagana 1. til 3. desember sl. var að knýja viðsemjendur þeirra til að ganga frá kjarasamningi. Verður að telja aðgerðir þessar [ fundarhöldin á vinnutíma ] ólögmæta vinnustöðvun ….“

Áhersla Félagsdóms virðist liggja á beina aðkomu stéttarfélagsins að fundarhöldunum. Það sama er uppi á teningnum í Félagsdómi nr. 7/1999. Þar var tekist á um hópuppsögn leikskólakennara og talið að í henni fælist ekki brot á friðarskyldu enda „enda einstaklingar er um ræðir í máli þessu […] ekki aðilar kjarasamnings heldur stéttarfélag þeirra“. Félagsdómur tekur síðan sérstaklega fram að ekkert sé fram komið í málinu sem sem bendi til þess að félagið sem stéttarfélag hafi komið að uppsögnunum.

Þessir tveir dómar ( 14/1992 og 7/1999 ) virðast beita annarri nálgun en síðar var gert var í Félagsdómi nr. 3/2013 þar sem fjallað var um aðkomu LÍÚ að því að útgerðarmenn héldu ekki skipum sínum til veiða tiltekinn dag en sigla þess í stað til mótmælafundar. ( Sjá umfjöllun „Hvað er verkbann“ ) Þar lá áherslan ekki á aðkomu LÍÚ heldur á afleiðingum þess fyrir félagsmenn LÍÚ hvort þeir færu að tilmælunum eða ekki.  Ekki verður dregin önnur ályktun af þessum þremur dómum en sú, að stéttarfélögum sé, eins og samtökum atvinnurekenda, heimilt að beina tilmælum til félagsmanna sinna t.d. um þátttöku í fundum á vinnutíma, þ.m.t. mótmælafundum tengdum starfskjörum sínum eða fundum sem haldnir eru til þess að knýja á um aðgerðir stjórnvalda í velferðarmálum, enda hafi það engar afleiðingar fyrir félagsmanninn gagnvart stéttarfélagi sínu að hlíta ekki þeim tilmælum. 

Ýmsar útfærslur á framkvæmd verkfalla

Af eftirfarandi dómum má sjá að verkfall má framkvæma með ýmsum hætti svo að löglegt sé. Það hvaða aðferð er valin í verkfalli er ákvörðunaratriði hverju sinni og ræðst af því hvað talið er árangursríkast.

Tiltekin störf á tilteknum tímum  
Í Félagsdómi 19/2019 frá 13.2 2020 var verkfall félagsmanna Blaðamannafélags Íslands sem tók í nokkrum áföngum tilgreindra starfa, tilgreindra tegunda á útgáfu (vefmiðlar/prentútgáfa) og tiltekinna klukkustunda á mismunandi dögum talið lögmætt enda boðunin nægjanlega skýr og afmörkuð. 

Tiltekinni þjónustu hætt 
Í Félagsdómi 2/2019 er lýst löglegu verkfalli á hótelum þar sem tilteknum störfum var ekki sinnt. Í Féld. 7/1988 (IX:253) var ákvörðun flugfreyja um að hætta sölu á tollfrjálsum varningi um borð í flugvélum dæmd verkfallsaðgerð. Leit dómurinn hins vegar svo á að um ólögmætt verkfall væri að ræða þar sem kjarasamningur væri í gildi. Sjá einnig Félagsdóm 6/2000 þar sem löndunarbann var dæmt ólögmætt.

Yfirvinnubann 
Í Félagsdómi 4/1979 (VIII:164) var yfirvinnubann við lestun, losun og færslu skipa á heimahafnarsvæði, sem yfirmenn á kaupskipum samþykktu, dæmd ólögmæt vinnustöðvun, þar sem kjarasamningar væru í gildi. En aðgerðin var ekki dæmd ólögmæt á þeim grunni að hún teldist ekki verkfall í skilningi laganna. Sjá einnig Félagsdóm 6/1986 (IX:144).

Verkfall á vinnu við tilteknar götur.
Í Félagsdómi 7/1965 (V:222) var deilt um lögmæti verkfalls sem Trésmiðafélag Reykjavíkur boðaði til á allri trésmíðavinnu við tilteknar götur í Árbæjarhverfi. Krafðist VSÍ ógildingar á verkfallinu fyrst og fremst vegna þess að það beindist aðeins gegn fáeinum félagsmönnum Meistarafélags húsasmiða, á landfræðilega takmörkuðu svæði, sem væri aðeins hluti af heildarfélagssvæði Trésmiðafélags Reykjavíkur en engar sérkröfur voru gerðar á hendur þeim húsasmíðameisturum sem verkfallið beindist að. Sýknukrafan byggðist á því að engin ákvæði væru í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem mæltu fyrir um ákveðna framkvæmd vinnustöðvana og væri verkalýðsfélögum því frjálst að haga henni á þann hátt sem þau teldu hagkvæmast. Niðurstaða Félagsdóms varð sú að þessi vinnustöðvun bryti hvorki í bág við ákvæði II. kafla laga nr. 80/1938 né þau meginsjónarmið sem hafa beri í huga þegar nefnd ákvæði væru skýrð. Eigi var heldur talið að hún hefði verið andstæð öðrum þeim réttarreglum sem til álita komu í þessu sambandi.

Afgreiðslubann
Í Félagsdómi 1/1950 (III:90) og Félagsdómi 2/1950 (III:95) var afgreiðslubann, sem Verkamannafélagið Dagsbrún framkvæmdi talið jafngilda samúðarverkfalli, þar sem það var til stuðnings öðru félagi sem átti í kjaradeilu. Sjá einnig Félagsdóma 9/1944(II:66) og 11/1943 (II:115).

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn