VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Viðurlög

Í 65. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er fjallað um refsiviðurlög og vald Félagsdóms til að dæma bætur. Þar segir að dómurinn geti dæmt aðila til að greiða skaðabætur, sektir og málskostnað eftir venjulegum reglum. Oft er kröfugerð fyrir Félagsdómi á þann veg að aðeins er krafist viðurkenningar á ákveðinni túlkun kjarasamninga, en hvorki krafist skaðabóta né refsingar. Félagsdómur dæmir hvorki skaðabætur né sektir nema þess sé krafist.

Skaðabætur

Samkvæmt 65. gr. laganna getur Félagsdómur dæmt aðila til greiðslu skaðabóta. Nokkuð algengt er að krafa sé gerð um greiðslu skaðabóta, bæði vegna tjóns, sem orðið hefur vegna brota á lögunum og eins vegna tjóns sem orðið hefur vegna brota á kjarasamningi.

Um mat á upphæð skaðabóta fer eftir almennum reglum skaðabótaréttarins að öðru leyti en því að í 65. gr. laganna segir að við ákvörðun skaðabóta megi taka tillit til saknæmi brotsins. Í ljósi Félagsdóma 13/1948 (III:77), 14/1951 (III:178), 13/1951(III:185) og 8/1951 (III:193) verður þessi setning ekki skilin á annan veg en þann að hér sé heimild til lækkunar skaðabóta frá mati þeirra samkvæmt almennum reglum. Er þetta undantekning frá skaðabótaréttinum, lækkunarregla svipuð ákvæðum siglingalaga og sjómannalaga í þessa veru. Ekki verður þó séð af dómum Félagsdóms að henni hafi verið beitt, að minnsta kosti hefur dómurinn ekki tekið slíkt fram, en í nokkrum tilvikum þar sem farið hefur verið fram á lækkun bóta samkvæmt 65. gr. hefur því verið hafnað. 

Sektir

Refsiviðurlög laganna um stéttarfélög og vinnudeilur eru sektir samkvæmt 65. gr. og renna þær í ríkissjóð, samanber 70. gr. laganna. Þær ber að innheimta sem fjárkröfur á venjulegan hátt, en um afplánun skal eigi vera að ræða. Sektir verða aðeins dæmdar fyrir brot á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem heimild til að dæma í sektir fyrir brot á kjarasamningi er ekki að finna í lögunum. Sjá hér Félagsdóm 2/1939 (I:6) og 26/1939 (I:53), þar sem krafist var sekta fyrir samningsrof, en þeirri kröfu var ekki sinnt og stefndi sýknaður af henni.

Varðhaldi verður ekki beitt sem refsingu vegna brota á lögunum samanber 70. gr. og ekki má hneppa menn í gæsluvarðhald vegna brota á lögunum. Þar sem varðhaldi verður ekki beitt sem vararefsingu samkvæmt 70. gr. laga nr. 80/1938 hefur Félagsdómur frá upphafi talið rétt að ópersónulegir aðilar, fyrirtæki, félög eða sambönd félaga væru dæmdir til greiðslu sektar, og hefur heimild þessi aldrei verið vefengd.

Dómarar í Félagsdómi hafa túlkað refsiákvæði laganna þannig að aðeins bæri að dæma refsingu ef sá sem misgert var við krefðist þess í stefnu. Þessu til skýringar má benda á Félagsdóm 6/1948 (III:15), en þar var ekki gerð krafa um sektir, og því voru þær ekki dæmdar, þótt aðili hefði gerst brotlegur við lögin.

Félagsdómur hefur ekki beitt sektarákvæðinu mikið í dómum sínum, samanber þó Félagsdóma 2/1939 (I:6), 7/1939 (I:26),27/1939 (I:35), 1/1941 (I:130), 2/1942 (I:190), 15/1943 (II:19), 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 6/1943 (II:81), 7/1943(II:88),11/1943 (II:115), 12/1949 (III:122), 1/1950 (III:90), 2/1950 (III:95), 14/1951 (III:178), 13/1951 (III:185), 6/1952 (IV:1), 7/1952(IV:15) og 1/1969 (VI:99).

Í dómi Félagsdóms 3/2006 var atvinnurekandi sýknaður af kröfu um greiðslu sektar samkvæmt heimild í 65. gr. laga nr. 80/1938. Félagsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandinn hefði brotið alvarlega gegn skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt samkomulagi um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, með því að hafa staðið að því að erlendum starfsmönnum voru greidd laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga. Að mati Félagsdóms fólst hins vegar ekki í 70. gr. nefndra laga, sbr. 65. gr. þeirra, nægilega skýr refsiheimild til að gera atvinnurekandanum sekt og var hann því sýknaður af þessari kröfu.

Févíti

Dæmi hafa verið um að í kjarasamningum hafi verið kveðið á um að brot á þeim varði sektum. Þessar sektir renna þá til þess aðila, sem brotið var á. Hér semja aðilar sig undir viðurlög við gerð kjarasamninga til að tryggja það að þeir séu haldnir og kallast slíkt févíti. Stundum er höfð uppi í Félagsdómi krafa um greiðslu févítis. Hér má benda á Félagsdóma 7/1956 (IV:160), en þar var slík févítisgreiðsla dæmd, 3/1961 (V:8) og 8/1951 (III:193).

Önnur úrræði

Í 65. gr. laganna segir að Félagsdómur dæmi um málskostnað eftir venjulegum reglum. Dómurinn dæmir réttarfarssektir eftir sömu reglum og almennir dómstólar, samanber 60. gr. laganna.

Félagsdómur getur ekki skyldað atvinnurekanda til að taka mann aftur í vinnu, sem hann hefur sagt upp á ólöglegan hátt samkvæmt 11. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta álitamál kom upp í Félagsdómi 1/1966 (VI:18), en þar hafði trúnaðarmanni verið sagt upp vinnu á ólögmætan hátt. Krafðist stéttarfélagið að vinnuveitandi yrði dæmdur til að taka manninn aftur í vinnu. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lög, meginreglur íslenskra laga eða samningar skylduðu ekki atvinnurekanda til að taka manninn aftur í vinnu. Þessi dómvenja hefur orðið til að draga verulega úr þeirri vernd sem ákvæðunum um trúnaðarmenn var ætlað að veita samkvæmt lögunum. Í Danmörku er vinnuveitanda skylt að taka trúnaðarmann aftur í vinnu sem sagt hefur verið upp með ólögmætum hætti.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn