VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aukafrídagar skv. lögum um 40 stunda vinnuviku

Lög um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971 kveða á um það í 6. gr. að frídagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, ennfremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13. Frá og með árinu 1983 varð fyrsti mánudagur í ágúst einnig frídagur. 

1. Helgidagar þjóðkirkjunnar  

Í lögum um helgidagafrið nr. 32/1997 er að finna upptalningu á því hvaða dagar teljast til helgidaga þjóðkirkjunnar.

Þeir eru samkvæmt 2. gr. 

  1. sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu, 
  2. föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur og 
  3. aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags. 

Í lögunum er ennfremur fjallað um það hvernig mönnum beri að haga sér á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þar segir að á helgidögum skv. 1. tl. sé öll almenn starfsemi heimil, á helgidögum skv. 2. og 3. tl. sé eftirfarandi starfsemi óheimil:

  • skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram, 
  • markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi. 

Á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag má eftirfarandi starfsemi þó fara fram: starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga. Hið sama gildir um gististarfsemi og tengda þjónustu. Ennfremur íþrótta- og útivistarstarfsemi, listsýningar, tónleika, leiksýningar og kvikmyndasýningar o.þ.h.

Lögin um helgidagafrið ganga ekki eins langt og lögin um 40 stunda vinnuviku hvað viðkemur vinnu á aðfangadag. Þar segir að til helgidaga þjóðkirkjunnar teljist aðfangadagskvöld jóla eftir kl. 18.00 en í lögunum um 40 stunda vinnuviku nær helgin frá kl. 13.00 á aðfangadag. Á gamlársdag er ekki minnst í lögunum um helgidagafrið og er hann ekki einn af helgidögum þjóðkirkjunnar, en í lögunum um 40 stunda vinnuviku telst gamlársdagur frídagur frá kl. 13.00.

2. Aðrir aukafrídagar

Sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, frídagur verslunarmanna og gamlársdagur frá kl. 13 eru almennir frídagar samkvæmt lögunum um 40 stunda vinnuviku. Forsaga þessara daga er misjöfn og þeir hafa sumir verið frídagar á Íslandi mjög lengi en aðrir komið inn síðar. Sumardagurinn fyrsti á sér þannig langa sögu hér á landi, 1. maí var fyrst haldinn hátíðlegur 1923, varð fánadagur 1944 en varð ekki lögbundinn frídagur fyrr en löngu síðar, 17. júní varð frídagur við lýðveldisstofnunina 1944 og frídagur verslunarmanna var fyrst haldinn hátíðlegur af verslunarmönnum á síðari hluta 19. aldar. Hann varð ekki lögbundinn frídagur fyrr en 1983.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn